fbpx
Laugardagur 26.september 2020
Fókus

Fimm hlutir sem þú vissir ekki um Hildi – Einum verðlaunum frá útvöldum hópi – Barnabarn brautryðjanda

Fókus
Mánudaginn 10. febrúar 2020 11:03

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nafn Hildar Guðnadóttur er á allra vörum þessa dagana eftir að hún tók við Golden Globe-verðlaunum í flokki tónlistar og hlaut Óskarstilnefningu með einungis nokkurra daga millibili. Frægðarsól hennar hefur risið hratt undanfarin misseri og kvikmyndarisar í Hollywood bíða í röðum. Hér eru fimm staðreyndir um tónskáldið sem þú kannski vissir ekki um þessa hæfileikaríku 37 ára listakonu.

 

Barnabarn brautryðjanda

Hildur Guðnadóttir er fædd í Reykjavík árið 1982, dóttir Guðna Franzsonar, tónskálds, klarínettuleikara og kennara og Ingveldar Guðrúnar Ólafsdóttur óperusöngkonu. Bræður Hildar eru þeir Gunnar Örn Tynes og Þórarinn Guðnason, sem einnig hafa látið að sér kveða í íslensku tónlistarlífi, Gunnar með hljómsveitinni Múm og Þórarinn með Agent Fresco.

Föðuramma Hildar var Margrét Guðnadóttir læknir og fyrsta konan sem skipuð var prófessor við Háskóla Íslands. Hún kom á fót Rann­sókn­ar­stofu Há­skól­ans í veiru­fræði við Land­spít­al­ann árið 1974 og hafði um­sjón með starf­semi henn­ar til árs­ins 1994.

 

Rúnk og Ríkisútvarpið

Hild­ur hef­ur sjálf gefið út fjór­ar hljóm­plöt­ur sem all­ar hlutu all­ar góðar viðtök­ur. Þá hef­ur hún komið að gerð yfir 20 hljóm­platna í sam­starfi við annað tón­listar­fólk. Sem tón­skáld hef­ur Hild­ur samið tónlist fyr­ir leik­hús, dans­verk, sjón­varp og kvik­mynd­ir.

Árið 1997 stofnaði Hildur hljómsveitina Woofer ásamt þremur piltum úr Hafnarfirði. Hildur var forsprakki og söngkona sveitarinnar og samdi tónlistina. Sveitin tók síðan þátt í Músíktilraunum Tónabæjar og í kjölfarið kom út smáskífa með sveitinni. Lag af þeirri skífu náði hylli í útvarpi og í júlí 1997 birtist gagnrýni í Morgunblaðinu þar sem fram kom að hér væri „framtíðarsveit á ferð“  og að Hildur væri framtíðarsöngkona sem færi „hreinlega á kostum“.

Hildur vakti athygli sem forsprakki sveitarinnar Woofer og var kölluð „framtíðarsöngkona“. Ljósmynd/Tímarit.is

19 ára gömul leitaði Hildur til Reykjavíkurborgar með hugmynd að fimm manna hjómsveit sem myndi spila tónlist fyrir gangandi vegfarendur í borginni yfir sumartímann. Úr varð Tónaflokkurinn, þar sem Hildur spilaði á selló en aðrir meðlimir sveitarinnar voru einnig um tvítugt og áttu tónlistarnám að baki.

„Ef maður ætlar að gera tónlist verður maður að gera allt sjálfur,“ sagði Hildur í samtali við Morgunblaðið á sínum tíma en henni hafði lengi fundist að það vantaði  tónlistarlíf á göturnar í borginni. Þá fannst henni „sorglega fáar stelpur vera í tónlist“.

„Hugmyndin er eiginlega bara sprellitónlist fyrir alla. Það er rosalega skemmtilegt að spila tónlist fyrir alla,“ sagði Hildur.  Á öðrum stað sagði hún:

„Íslenska minnimáttarkenndin er svolítið að hverfa úr tónlistargeiranum. Það finnst engum knýjandi lengur að meikaða úti. Í dag eru Íslendingar alveg þátttakendur í alþjóðlegu senunni án þess að þeir séu heimsfrægir. Og samt koma ennþá fréttir, þegar tónlistarfólk fer til útlanda, sem segja það á barmi heimsfrægðar. Það finnst mér svolítið fyndið.“

Um aldamótin söng Hildur og spilaði með hljómsveitinni Rúnk ásamt fleirum og gaf sveitin út eina plötu, Ghengi Dahls, sem kom út árið 2002.

Hún lauk síðan námi við nýmiðlabraut Listaháskóla Íslands vorið 2005, en hún var fyrsti nemandi skólans sem útskrifast af þeirri braut. Hún var þá 23 ára gömul. Útskriftarverkefni  hennar bar nafnið Merry Go Round, en um var að ræða svokallaða hljómklukku. Hildur velti upp spurningum um tíma og tímaleysi með verkinu, sem var mjög viðamikið, en það var flutt af 14 færanlegum hljóðfæraleikurum í stórri hljóðmynd.

„Af því að þetta eru ekki venjulegir tónleikar fannst mér ekki við hæfi að kalla þetta það. Þetta er frekar í ætt við gjörning. Það sem ég er að gera í þessari hljómklukku er að setja upp hvernig ég sé tíma, hvernig tími er skipulagður og hvernig fólk lifir í tíma,“ sagði Hildur í samtali við Morgunblaðið á sínum tíma.

Í viðtali við Fréttablaðið um svipað leyti sagðist hún ætla að „ákveða sem minnst og elta forlögin“ þegar hún var spurð um framtíðarplönin. Sumarið eftir útskrift starfaði hún sem tæknimaður á Ríkisútvarpinu.

Á þessum tima var Hildur þegar farin að semja tónlist fyrir leikhús og kvikmyndir  og starfa með tónlistarmönnum úr ýmsum áttum. Hún var meðal annars í hljómsveit Sigríðar Níelsdóttur og í stórsveit Nick Nolte, sem hitaði upp fyrir bandarísku hljómsveitina Animal Collective á tónleikaferð hennar um Bandaríkin.

 

Ekki upptekin af útlitinu

Hildur gekk í Öldutúnsskóla í Hafnarfirði. Svo virðist sem jafnréttisbaráttan, og staða kvenna í tónlist, hafi snemma verið henni hugleikin. Í viðtali við tímaritið Veru í febrúar 1998 ræddi hún um gamaldags ímynd kvenna og kröfur samfélagsins.

„Ætli ég hafi ekki hætt að vera puntudúkka þegar ég var sjö ára gömul. Þá sneri ég baki við bleikum krúsídúllum og Barbí og fékk önnur áhugamál. Af hverju veit ég ekki. Ætli maður hafi ekki bara verið að uppgötva heiminn betur og séð að hann einskorðast ekki við háfætta, Ijóshærða dúkku með blá augu.“

Á öðrum stað sagði Hildur: „Auðvitað er eðlilegt að huga að útlitinu en því miður finnst mér stelpur oft ganga einum of langt. Það er með ólíkindum hvað þær geta verið uppteknar af ytra útliti. Rassinn er svona, lærin ómöguleg og heilmiklar vangaveltur eru um það hvort hafa eigi hátt eða lágt tagl þann daginn. Mér finnst strákar ekki í þessum endalausu útlitspælingum.“

Hild­ur lauk námi í Lista­há­skóla Íslands í tón­smíði og nýmiðlun. Hún fór síðan í fram­halds­nám í tón­smíðum við Uni­versität der Kün­ste í Berlín.

 

Jóhann kom henni í kvikmyndatónlistina

Í viðtali við Morgunblaðið árið 2014 kom fram að margra ára samstarf hennar og Jóhanns Jóhannssonar heitins hefði leitt til þess að Hildur fór að vekja eftirtekt í heimi kvikmyndatónlistarinnar. Jóhann var á árum áður virkur í hljómsveitarlífinu á Ísland í hljómsveitunum Ham og Apparat Organ Quartethlaut. Síðar meir gerðist hann víðfrægur sem kvikmyndatónskáld og hlaut Golden Globe verðlaunin fyrir tónlistina í kvikmyndinni The Theory of Everything auk þess sem að hann var tilnefndur til Óskarsverðlauna, Bafta og Grammy-verðlauna.

Árið 2015 var hann einnig tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir tónlistina í myndinni Sicario. Árið 2016 var hann tilnefndur til Bafta og Grammy-verðlauna fyrir tónlistina í myndinni Arrival.

„Ég hafði svo sem ekki ætlað mér neitt sérstaklega út í kvikmyndatónlist en það hefur einhvern veginn bara æxlast þannig síðustu ár að ég hef unnið mikið í kvikmyndum. Fólk hefur oft haft á því orð að tónlistin mín sé mjög myndræn og henti þess vegna vel í kvikmyndir. Svo er minn helsti samstarfsmaður og tónlistarbróðir, Jóhann Jóhannsson, búinn að vera á rosalegu flugi í kvikmyndatónlist.

Við höfum unnið mjög náið saman síðasta áratug svo ég hef að miklu leyti leiðst út í þetta með honum. Við komum yfirleitt að flestum verkefnum hvort annars að einhverju leyti. Annars hef ég mjög gaman af því að vinna í kvikmyndum en ég er samt að passa mig aðeins að festast ekki alfarið í því,“ sagði Hildur við Morgunblaðið.

 

EGOT-heiðurinn ekki fjarlægur

Velgengni Hildar hefur vakið mikla athygli, ekki bara á Íslandi en hún prýddi meðal annars forsíðu hins virta kvikmyndatímarits Variety. Hún hefur unnið  Emmy, Grammy, Golden Globe og Bafta og nú Óskarinn. Hildur er því aðeins einni verðlaunastyttu frá því að ná svokallaðri EGOT-alslemmu í bandaríska skemmtiiðnaðinum. Það er hugtakið þegar listamaður hefur hlotið Emmy-, Grammy-, Óskars- og Tony-verðlaun.

Aðeins fimmtán manns hafa hlotið þennan svonefnda „EGOT-heiður“ og á meðal þeirra eru þekkt nöfn á borð við Audrey Hepburn, Mel Brooks, Whoopi Goldberg og John Legend. Þýðir þetta þá að Hildur þurfi þá að spreyta sig á tónlistarsviði leikhússins til þess að tilheyra þessum merka hópi.

Ólíklegri hlutir hafa gerst og eftir Óskarssigur gærkvöldsins er ljóst að tilboðum fari nú streymandi til hennar úr öllum áttum.

Þakkarræðu Hildar má sjá hér að neðan:

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Jóhanna Guðrún opnar sig um umfjöllunina eftir að vinir Sjonna sigruðu: „Ég fékk vægt taugaáfall“

Jóhanna Guðrún opnar sig um umfjöllunina eftir að vinir Sjonna sigruðu: „Ég fékk vægt taugaáfall“
Fókus
Í gær

Hilary Duff setti fylgjuna í þeyting og finnst það „ennþá ógeðslegt“

Hilary Duff setti fylgjuna í þeyting og finnst það „ennþá ógeðslegt“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tíu vinsælustu TikTok myndböndin

Tíu vinsælustu TikTok myndböndin
Fókus
Fyrir 2 dögum

Bubbi um ástæðu slagsmálanna: „Ég sá mann girða niður um stelpu“

Bubbi um ástæðu slagsmálanna: „Ég sá mann girða niður um stelpu“