fbpx
Föstudagur 19.ágúst 2022
Fókus

Ég lifi í núinu

Kolbrún Bergþórsdóttir
Föstudaginn 17. mars 2017 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristbjörg Kjeld er heiðursverðlaunahafi DV, en í áratugi hefur hún verið í hópi ástsælustu leikara þjóðarinnar. Hún fagnar 60 ára leikafmæli í ár, lék fyrst í Þjóðleikhúsinu 1957 á sínu öðru ári í leiklistarskólanum. Hún hefur hlotið ótal verðlaun og viðurkenningar á ferlinum og heiðursverðlaun DV bætast nú við. Kolbrún Bergþórsdóttir hitti Kristbjörgu og spurði hana um leikarastarfið og farsælan feril.

„Mér þykir vænt um að fá viðurkenningar. Ég hef átt farsælan feril og er afskaplega þakklát fyrir það,“ segir Kristbjörg. Hún er orðin 81 árs og er enn að leika. „Það er ekki sjálfgefið, en sem betur fer er ég heilsuhraust,“ segir hún.

Nýjasta hlutverkið er í Húsinu, áður ósýndu leikriti eiginmanns hennar, Guðmundar Steinssonar, sem Þjóðleikhúsið sýnir. Guðmundur lést árið 1996. „Það er mjög sérstök tilfinning að leika í þessu leikriti sem nú er sett upp í fyrsta sinn. Það hefði verið dásamlegt ef Guðmundur hefði fengið að sjá þetta verk á sviði. Vonandi er hann þarna einhvers staðar og fylgist með.“

Kristbjörg lék Skotadrottningu og sést hér með Bríeti Héðinsdóttur sem lék Elísabetu I. Englandsdrottningu.
María Stúart eftir Schiller Kristbjörg lék Skotadrottningu og sést hér með Bríeti Héðinsdóttur sem lék Elísabetu I. Englandsdrottningu.

Mikil og sterk upplifun

Kjeld nafnið er færeyskt en faðir Kristbjargar kom ungur maður hingað til lands og starfaði sem smiður. Móðir Kristbjargar var íslensk. Hún segir fjölskylduna ekki hafa tengst leiklist á nokkurn hátt áður en hún fór að leika. „Fyrsta leikritið sem ég sá hét Gasljós og var sýnt í Bæjarbíói. Leikritið fjallaði um hjón og eiginmaðurinn taldi konu sinni trú um að hún væri geðveik. Inga Laxness og Jón Aðils voru í aðalhlutverkum. Fyrir mér var þetta mikil og sterk upplifun, ég varð yfir mig hrifin. Svo áttum við að skrifa ritgerð í Flensborg um upplifun og ég skrifaði um þetta eina leikrit sem ég hafði séð. Doktor Bjarni Aðalbjarnarson, sem kenndi mér íslensku, sagði að ég hefði nú getað skrifað um merkilegra leikrit.

Fyrir tilviljun fór ég að leika með áhugaleikfélagi Hafnarfjarðar. Vinkona mín var hvísla þar og vissi að ég hefði áhuga á leiklist. Þegar leikkona forfallaðist var spurt hvort ég myndi vilja hlaupa í skarðið, sem ég gerði. Ég var 15 ára. Upp frá því fór ég að leika með áhugaleikhúsi Hafnarfjarðar og hitti þar Flosa Ólafsson sem hvatti mig til að sækja um í leiklistarskóla Þjóðleikhússins. Ég þorði það ekki, fannst Þjóðleikhúsið svo stórkostlegt og magnað. Flosi hringdi í Ævar Kvaran og spurði hvort hann gæti ekki aðstoðað stúlku sem væri alveg æst í að komast inn í skólann. Ég komst að og hef verið að leika síðan.“

„Auðvitað vil ég alltaf standa mig sem best.“
Fullkomnunarsinni „Auðvitað vil ég alltaf standa mig sem best.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Persónan með manni allan tímann

Eru einhver hlutverk sem þú hefur leikið sem kallast mega uppáhaldshlutverk þín?

„Sum hlutverk hafa haft meiri áhrif á mig en önnur. Ég man hversu merkilegt mér fannst að leika Steinunni í Galdra-Lofti. Mér þótti vænt um það hlutverk. Svo hef ég leikið í leikritum mannsins míns og mér hefur þótt það mjög mikil ábyrgð.

Þegar maður er að móta hlutverk þá er persónan með manni allan tímann. Maður er alltaf að hugsa um persónuna og hvað mætti betur fara í túlkun á henni.“

Ertu fullkomnunarsinni?

„Ætli það ekki. Auðvitað vil ég alltaf standa mig sem best.“

Þú hefur átt afskaplega farsælan feril. Hefurðu fundið fyrir því að það séu færri bitastæð hlutverk fyrir konur en karla?

„Ég hef fundið fyrir því, sérstaklega á vissum tíma á mínum ferli. Þegar ég var komin yfir fimmtugt fór bitastæðum hlutverkum að fækka. Þegar ég varð enn eldri fór hlutverkunum aftur að fjölga. Ég hætti sem fastráðinn leikari hjá leikhúsinu sjötug og hef sem betur fer haft nóg að gera síðan.“

Áttu enn auðvelt með að læra hlutverk utan að eða verður það erfiðara með aldrinum?

„Nei, það verður erfiðara. Þegar ég var ung rann textinn inn í mig eins og ekkert væri en núna þarf ég að hafa meira fyrir honum.“

Engin skikkja

Á þessum langa tíma hefurðu aldrei fengið sviðsskrekk, orðið skelfingu lostin og hugsað að þú kæmist ekki gegnum sýninguna?

„Jú, en ekki oft. Það hefur einstaka sinnum hent mig að fyllast skelfingu og óttast að muna ekki textann. Það gerist oftar núna þegar ég eldist og er erfitt. Reynslan hjálpar manni hins vegar og maður klórar sig út út því.“

Fór einhvern tíma eitthvað illa úrskeiðis á sviði meðan þegar þú varst að leika?

„Ég lék Hildigunni í Merði Valgarðssyni eftir Jóhann Sigurjónsson. Á generalprufu var fullur salur. Svo kom að atriðinu þar sem Flosi kom í heimsókn. Skikkja Höskuldar átti að vera lokuð ofan í kistu og ég átti, óskaplega reið, að taka hana upp og henda henni í Flosa. Þetta var dramatísk sena þar sem skikkjan gegndi miklu hlutverki. Ég opnaði kistuna og þar var engin skikkja. Mér tókst að bjarga þessu með því að setja texta minn í einhvers konar þátíð og skírskota til skikkjunnar sem ekki var þarna. Allt þetta varð ég að gera á upphöfnu máli og það kostaði mikla áreynslu. Þegar ég kom út af sviðinu þá skellti ég hurð svo fast að dyrakarmurinn losnaði. Ég var alveg uppgefin og líka nokkuð reið vegna þess að sá sem bar ábyrgð hafði brugðist. En þetta bjargaðist.“

Með Erlingi Gíslasyni.
Þrettándakvöld Shakespeares Með Erlingi Gíslasyni.

Næstum því pornó

Á sjöunda áratugnum átti Kristbjörg þátt í að stofna tilraunaleikhúsið Grímu ásamt manni sínum Guðmundi Steinssyni, Erlingi Gíslasyni, Magnúsi Pálssyni, Þorvarði Helgasyni og Vigdísi Finnbogadóttur. Gríma hafði varanleg áhrif á íslenska leiklist. „Það var viss fábreytni í íslensku leiklistarlífi á þessum tíma og við vildum meiri nýbreytni,“ segir Kristbjörg. „Það var líka eitt að maðurinn minn var að skrifa og það var ekkert auðhlaupið fyrir hann að fá sín skrif inn í leikhúsin. Þetta var mjög skemmtilegur tími. Ég var þarna fyrstu árin og svo tóku aðrir við. Þetta var mikil vinna og ólaunuð. Maður gefst upp á því eftir nokkurn tíma að fá ekkert fyrir vinnu sína.“

Leikarastarfið er ekki vel launað, af hverju hefurðu enst í þessu starfi svona lengi?

„Það er eitthvað sem togar í mann. Leiklistin er mér mikið hjartans mál, annars hefði ég ekki staðið í þessu allan þennan tíma.“

Kristbjörg hefur leikið í allnokkrum kvikmyndum, þar á meðal 79 af stöðinni sem á sínum tíma þótti óskaplega djörf, en mótleikari hennar var Gunnar Eyjólfsson. „Myndin var næstum því pornó! Hún þótti svo djörf. Mér fannst það reyndar ekki sjálfri,“ segir Kristbjörg og hlær. „Við Gunnar vorum miklir mátar og okkur fannst bara svolítið sniðugt hversu margir hneyksluðust.“

Kvikmyndaleikur er öðruvísi en sviðsleikur, mikil bið og endurtekningar.

„Já, en það á vel við mig. Ég get alltaf fundið mér eitthvað að gera í bið og svo er maður alltaf að hugsa um hlutverkið. Mér finnst gaman að leika í kvikmyndum. Þegar maður er kominn á þennan aldur þá er það ekki eins mikið álag og sviðsleikurinn. Ég hef líka leikið í sjónvarpi og eftir að ég lék í Föngum hefur fólk komið til mín og þakkað fyrir seríuna sem því fannst bæði spennandi og góð. Það gleður mig. Það var gaman að leika í Föngum, þar skapaðist afar gott andrúmsloft, eins og gerist svo oft í samvinnu.“

Með Gunnari Eyjólfssyni.
Vér morðingjar eftir Guðmund Kamban. Með Gunnari Eyjólfssyni.

Gagnrýni er smekksmál

Á ferlinum leikstýrði Kristbjörg nokkrum leikritum. „Ég prófaði það og fannst það ögrandi og fremur erfitt en afskaplega skemmtilegt. Ég hugsaði samt með mér að ég myndi ekki vilja skipta á leikarastarfinu og starfi leikstjóra. Leikarastarfið á einfaldlega miklu betur við mig. Mér fannst það gefa mér heilmikið sem leikara að hafa prófað að leikstýra. Leikarar eru stundum hörundsárir og ef leikstjórinn er að segja manni til, sérstaklega þegar maður er ungur, þá tekur maður það stundum persónulega. En það er ekkert persónulegt, það er bara verið að reyna að gera hlutina sem allra best.“

Hefur þú einhvern tíma fengið slæma dóma?

„Já, já, og orðið hundfúl. Manni hefur stundum fundist skorta fagleg rök hjá gagnrýnendum. Gagnrýni er svo mikið smekksmál. Ef maður fellur einhverjum gagnrýnanda ekki í geð þá er ekkert við því að gera. Í einstaka tilfelli fannst mér gagnrýnin reyndar sanngjörn þótt hún væri hörð.“

Ertu yfirleitt sjálf sátt við frammistöðu þína?

„Það er misjafnt. Stundum finnst mér ég ekki hafa alveg náð tökum á hlutverkinu og er þá svolítið óánægð. En maður gerir bara það sem maður getur. Það er svo skrýtið að stundum er gagnrýnin mjög fín þótt maður sé sjálfur kannski ekki alveg sáttur inni í sér.“

Kristbjörg lék á móti Helga Skúlasyni í leikriti eiginmanns síns, Guðmundar Steinssonar.
Stakkaskipti Kristbjörg lék á móti Helga Skúlasyni í leikriti eiginmanns síns, Guðmundar Steinssonar.

Trú á æðri mátt

Kristbjörg giftist Guðmundi Steinssyni árið 1962. Hún átti einn son og saman ættleiddu þau stúlku frá Kólumbíu, Þórunni. Hún segir að það hafi bara verið gott fyrir hjónabandið að þau Guðmundur voru bæði á listasviðinu.

Guðmundur var leikskáld, það hlýtur að hafa verið nokkuð strembið í jafn litlu samfélagi.

„Í byrjun var það mjög erfitt. Hann hélt sínu striki og leikrit hans hafa verið sýnd víða. Mér finnst magnað að þetta áratuga gamla verk sem við erum að sýna núna skuli vera nánast eins og það hafi verið skrifað í dag.“

Guðmundur lést árið 1996. „Þegar maður hefur átt svo náinn sálufélaga er erfitt að missa hann,“ segir Kristbjörg.

Í byrjun sagðirðu að vonandi væri Guðmundur þarna einhvers staðar að fylgjast með. Trúirðu því eða vonarðu það?

„Ég vona, já. Og ég trúi á æðri mátt. En ég iðka ekki trúna þannig að ég sé kirkjurækin eða eitthvað slíkt.“

Þú ert þá kannski dæmigerður Íslendingur hvað þetta varðar?

„Já, nákvæmlega.“

Hversu lengir heldurðu að þú munir halda áfram að leika?

„Ég hugsa ekkert um það, læt hverjum degi nægja sína þjáningu. Ég hef ekki áhyggjur af framtíðinni. Ég lifi í núinu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Tekjudagar DV – Kristján Einar ber höfuð og herðar yfir aðra áhrifavalda

Tekjudagar DV – Kristján Einar ber höfuð og herðar yfir aðra áhrifavalda
Fókus
Í gær

Manstu eftir áttburamömmunni? – Deilir sjaldséðri mynd af 13 ára unglingunum

Manstu eftir áttburamömmunni? – Deilir sjaldséðri mynd af 13 ára unglingunum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tekjudagar DV: Þetta eru LXS-dívurnar með í laun – Ein með 72 þúsund á mánuði en önnur með yfir milljón

Tekjudagar DV: Þetta eru LXS-dívurnar með í laun – Ein með 72 þúsund á mánuði en önnur með yfir milljón
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tekjudagar DV: Harðnar í ári hjá Línu Birgittu og Gumma Kíró

Tekjudagar DV: Harðnar í ári hjá Línu Birgittu og Gumma Kíró
Fókus
Fyrir 3 dögum

Auður hleypur hálfmaraþon fyrir vin sinn – „Hann fór alltof ungur og ég sakna hans mikið“

Auður hleypur hálfmaraþon fyrir vin sinn – „Hann fór alltof ungur og ég sakna hans mikið“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Frönsk kona skilaði týndum farsíma Sögu Garðars eftir tveggja ára aðskilnað

Frönsk kona skilaði týndum farsíma Sögu Garðars eftir tveggja ára aðskilnað
Fókus
Fyrir 3 dögum

Stúlkan sem bjargaði 300 mannslífum

Stúlkan sem bjargaði 300 mannslífum
Fókus
Fyrir 4 dögum

Nýr íslenskur þakbar á meðal þeirra bestu í Evrópu

Nýr íslenskur þakbar á meðal þeirra bestu í Evrópu