fbpx
Þriðjudagur 12.ágúst 2025
Fókus

Verður ekkert alvarlegri með aldrinum

Kristján Guðjónsson
Laugardaginn 21. janúar 2017 08:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þótt Laddi sé fyrst og fremst þekktur sem skemmtikraftur og óumdeilanlega mesti karaktergrínisti landsins, er honum margt annað til lista lagt. Hann hefur markað spor í tónlistarsögu þjóðarinnar með ódauðlegum dægurlögum á borð við Sandalar, Búkolla og Austurstræti. Nú síðast er hann farinn að grufla af alvöru í myndlistinni – en á því sviði er honum fúlasta alvara. Laddi settist niður með Kristjáni Guðjónssyni og ræddi við hann um hvernig það er að eldast, um golfástríðuna, um íslenskt grín fyrr og nú og drauminn um að gerast myndlistarmaður á Spáni.


Á laugardag fagnar Þórhallur Sigurðsson, Laddi, sjötugsafmæli sínu með tvennum stórtónleikum í Hörpu. Á síðasta stórafmæli fór hann yfir leikferilinn í Borgarleikhúsinu og gekk sú sýning fyrir fullu húsi í tvö ár. Nú verður hins vegar stiklað á stóru á afkastamiklum og löngum tónlistarferli Ladda. Ótrúlegt en satt, þá eru þetta fyrstu hreinræktuðu tónleikarnir með tónlistarmanninum Ladda. Nú standa því yfir stífar æfingar og það er fyrir eina slíka sem við Laddi mælum okkur mót í Hörpunni, til að ræða um tónlist og stórafmæli, grínið og alvöru.

Eltur eins og Bítill í Noregi

Laddi byrjar að segja frá því hvernig tónlistarferill hans hófst þegar hann var um tvítugt, en þá tók hann þátt í stofnun bítlahljómsveitarinnar Faxa. Hann átti fyrst að verða gítarleikari sveitarinnar en settist fljótlega við trommusettið – en hvorugt hljóðfærið kunni hann á. „Ég hafði aldrei spilað á trommur áður, en það gekk!“ segir Laddi sem fékk sömuleiðis það hlutverk að syngja um leið og hann barði húðirnar.

„Við æfðum ósköp lítið en fórum strax um sumarið til Seyðisfjarðar að spila. Þá var allt brjálað í síldinni og við spiluðum svo að segja á hverju einasta kvöldi. Þetta voru aðallega koverlög: Bítlarnir og Rolling Stones. Þarna voru Bítlarnir sem frægastir og við byrjuðum að safna hári um leið og hljómsveitin var stofnuð – þannig að við vorum orðnir sæmilega síðhærðir þegar við komum í bæinn um haustið.“

Laddi segir að á þessum tíma hafi hann enn ekki lært að beita röddinni rétt og í eitt skiptið sem hann hafði misþyrmt röddinni hljóp Halli bróðir hans í skarðið og var tekinn inn í bandið um haustið sem aðalsöngvari. Hljómsveitin spilaði þá reglulega í Þórskaffi, einum vinsælasta skemmtistað Reykjavíkurborgar, og kynntist þar bandaríska söngvaranum Al Bishop úr hinni heimsþekktu hljómsveit Deep River Boys og fengu að fara með honum á tónleikaferðalag.

„Við fórum með Bishop til Noregs og spiluðum í þrjá mánuði. Við ætluðum að verða heimsfrægir – og urðum heimsfrægir í Noregi að minnsta kosti. Það var til dæmis sjaldheyrt að það kæmu útlenskar hljómsveitir í norðurhluta landsins og þar hljóp stúlknaskarinn á eftir rútunni okkar. Við horfðum á hver annan forviða: „Hvað er að gerast?“ Okkur fannst við eiginlega vera orðnir eins og Bítlarnir,“ segir Laddi og viðurkennir að á þessum tíma hafi hann stefnt að því að gera tónlistina að ævistarfi.

Faldi feimnina með gríni

Á næstu árum trommaði Laddi og söng með nokkrum skammlífum sveitum og meðfram hljómsveitarlífinu vann hann í Kassagerðinni, en þar bauðst honum óvænt tækifæri sem átti eftir að hafa ófyrirsjáanleg áhrif á líf hans og feril.

„Halli bróðir var byrjaður að vinna hjá Sjónvarpinu og einn daginn kemur hann með yfirmanni sínum að kaupa pappa eða eitthvað slíkt. Á þessum tíma var ég alltaf teiknandi – teiknaði karlana sem ég var að vinna með og ýmislegt annað. Ég henti þessu bara en þeir hengdu myndirnar oft upp. Yfirmaður Halla sá þær og spurði hver hefði teiknað þetta – svona listamenn ættu heima í sjónvarpinu! Og þannig var ég ráðinn sem aðstoðarmaður Halla,“ segir Laddi. Í Ríkissjónvarpinu áttu þeir bræður eftir að starfa næstu árin sem leikmunaverðir og leikmyndasmiðir.

„Fljótlega var svo farið að nota mann í ýmsa þætti út af fíflalátunum. Þannig var maður kominn í grínið og tónlistin fauk,“ segir Laddi. Það var því í raun myndlistargáfan sem kom tónlistarmanninum Ladda í sjónvarpið – og þar með hlutverk grínistans.

Húmorinn og karaktersköpunin hafði vissulega fylgt Ladda frá barnæsku og hefur hann sagt frá því hvernig hann vann á eigin feimni og notaði grínið gegn stríðni sem hann varð fyrir vegna fjölskylduaðstæðnanna heima fyrir, en hann ólst upp við mikla fátækt hjá einstæðri móður í Hafnarfirðinum.

„Ég byrjaði að nota fíflalæti til að bjarga mér út af feimninni. Þá gat ég verið einhver annar karakter. Röddin af Skrám varð til dæmis til mjög snemma, auk ýmissa annarra karaktera sem töluðu einkennilega. Þegar strákarnir voru að stríða mér þá gat ég fengið þá til að hlæja í staðinn, og þegar ég var tekinn upp að töflu í skólanum fór ég að fíflast og var rekinn aftur í sætið og þurfti ekki að reikna dæmið. Þannig að þetta bjargaði mér oft,“ segir Laddi og hlær.

Þótti ekki fínt að vera með sungið grín

Leikmyndasmiðirnir og bræðurnir urðu sífellt vinsælli skemmtikraftar með ýmiss konar leikþáttum, eftirhermum og tónlistargríni: „Við tengdum grínið oft við tónlist. Í byrjun voru þetta að mestu tökulög, hálfþýddum texta við Spike Jones-lög, svo tókum við alls konar skemmtileg og flott lög sem okkur fannst skemmtileg og fannst virka með gríntexta, tókum alla línuna, frá djassi til pönks. Svo vorum við loks beðnir um að taka upp plötur með þessari gríntónlist.“

Varstu farinn að semja þín eigin lög á þessum tíma?

„Ég var alltaf að semja lög, en var ekkert að troða þeim fram. Á annarri plötunni okkar Halla var reyndar eitt lag eftir mig, Austurstræti, og smám saman urðu þau fleiri og fleiri. Ég hafði þá safnað alls konar lagahugmyndum, raulaði inn á segulband eða samdi á gítarinn – ég kunni nokkra vinnukonuhljóma sem ég notaði. Svo ef mig vantaði einhverja millihljóma þá bað ég Gunnar Þórðarson eða þann sem var að vinna með mér að bæta þeim við. Þannig að þetta voru mestmegnis þriggja-hljóma lög.“

Tónlistin hefur notið mikilla vinsælda, en finnst þér hún hafa hlotið virðingu – grín hefur nefnilega oft verið svolítið neðar í virðingarröðinni en önnur list?

„Nei, ekki beint. Alveg eins og í leiklistinni þar sem gamanleikarar voru aldrei hátt skrifaðir. Það voru alvöru leikarar og svo gamanleikarar, og þeir voru til dæmis á lægri launum í Þjóðleikhúsinu. Þannig að þetta þótti ekki mjög fínt. Það var talað um að við værum bara með „sungið grín“ og það sagt á svolítið niðrandi hátt. En ég heyrði það nú aldrei frá tónlistarmönnum.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Frumkvöðull í rappi og reggí

Halli og Laddi voru virkir í tónlistarútgáfu á seinni hluta áttunda áratugarins. Sendu frá sér fjórar plötur í sameiningu og eina með HLH-flokknum, hljómsveit sem þeir skipuðu ásamt Björgvini Halldórssyni og sótti í klassíska rokktónlist sjötta áratugarins. Á þeim tíma gekk Laddi líka í Brunaliðið, stjörnum prýddri hljómsveit sem sló eftirminnilega í gegn með lögum á borð við „Ég er á leiðinni“ og „Sandalar“.

Árið 1981 kom svo út fyrsta sólóplata Ladda, Deió sem naut gríðarlegra vinsælda. Á henni kennir ýmissa grasa og inniheldur hún til að mynda lagið „Búkolla“ sem er kannski eitt fyrsta alíslenska reggílagið, en Laddi segist hafa haft mikinn áhuga á þeirri tónlistarstefnu um langa hríð.

Þú hefur reynt við ýmsar tónlistarstefnur í gegnum tíðina, og í nýju lagi sem þú gafst út fyrir skemmstu, „Lúxuslíf“, þá reynir þú fyrir þér í rappinu sem er svo áberandi um þessar mundir. Er þetta í fyrsta skipti sem þú prófar það?

„Nei, ég gerði rapplagið „Björgúlfur bréfberi“ á plötunni Allt í lagi með það. Gunnar Þórðarson gerði lagið og ég samdi textann,“ segir Laddi, en platan kom út árið 1983 eftir að hann hafði verið í eins árs námi í leiklist við UCLA í Los Angeles – einmitt á þessum sokkabandsárum rapptónlistarinnar í Bandaríkjunum. „Það voru auðvitað komin fullt af rapplögum en ekki íslensk. Það voru einhverjir rapparar að tala um þetta við mig um daginn, og þeir héldu jafnvel að þetta væri eitt fyrsta rapplagið á íslensku.“

Verður ekkert alvarlegri með aldrinum

„Ég samdi tvö ný lög fyrir þessa tónleika – eiginlega fyrst og fremst til að auglýsa þá. Mér skilst að þetta sé þannig í tónlistarheiminum í dag. Menn eru ekki að semja til að gefa út á disk heldur gefa þeir tónlistina á netinu til að auglýsa tónleika. Það þýðir ekkert að gefa út diska. Ég fann fyrir þessu bæði með síðasta geisladisk sem ég gaf út og DVD-diskinn með sýningunni Laddi lengir lífið. Þessu var öllu halað niður og ekkert seldist. Ég held að það hafi verið 6 þúsund niðurhöl og það var einmitt það sem við vorum að vonast til að selja – en í staðinn seldum við í kringum 6 eða 7 hundruð. Unga fólkið í dag vill fá hlutina ókeypis, á Spotify og Netflix og allt þetta. En einhvers staðar verða listamenn að fá pening, enda eru núna tónleikar nánast upp á hvern einasta dag,“ segir Laddi.

Annað nýja lagið þitt, „Hér er ég“, sýnir svolítið nýja hlið á þér. Það er glaðlegt kántrípopp, og þar er ekkert grín í gangi, bara léttleikandi ástaróður sunginn af ljúfsárri einlægni.

„Já, þetta er eiginlega það sem mig langaði alltaf að gera. Ég ætlaði alltaf að vera afskaplega alvarlegur þegar ég samdi tónlist. Fyrsta sólóplatan mín, Deió, átti að verða þannig. Gunni [Þórðarson] hins vegar neitaði: „Það vantar allt grín í þetta, það vill enginn hlusta á þetta!“ og rak mig heim til að semja nýja texta. Þannig að þetta nýja lag er tónlist eins og ég vildi alltaf gera.“

Er auðveldara að vera alvarlegur með aldrinum?

„Nei,“ svarar Laddi eftir svolítið hik. „Ég vil ekki vera of alvarlegur. Ég er það nú eiginlega aldrei. Ég vil bara vera með svona léttleika. Það er bara ég.“

Heimsmet í karaktersköpun

Ef við snúum okkur aftur að gríninu, þá langar mig að spyrja þig hverjir hafa verið þínir helstu áhrifavaldar þar?

„Í gamla daga var það Chaplin í þöglu myndunum og svo var það Jerry Lewis sem var alltaf með Dean Martin. Hann var mitt ídol. Hann var með allar þessar grettur og geiflur sem ég hermdi svolítið eftir. Hann gerði karakterinn Nutty Professor sem mér fannst algjör snilld. Mér fannst svo áhugavert að búa til karaktera og breytast algjörlega. Ég fór þá sjálfur að fíflast með að búa til einhverja karaktera, án þess að gefa þeim nöfn fyrst um sinn. Svo komu kvikmyndaleikarar eins og Peter Sellers, ég dýrkaði hann. Hann átti örugglega metið í að gera marga karaktera – en ég held ég hafi örugglega toppað það met. Gísli Rúnar heldur því reyndar fram að ég eigi heimsmet í að búa til marga karaktera sem eru svo þekktir að þeir eru nánast með kennitölu.“

Fylgist þú mikið með íslensku gríni í dag?

„Ég verð að játa að ég fylgist ekki mikið með nema það sem kemur í sjónvarpi. Ég hef ekki mikið verið að fara á uppistandssýningar nema kannski Mið-Ísland til að byrja með. Mér finnst Ari Eldjárn standa upp úr, þó það séu margir mjög fínir. Þetta er orðið svo mikið – það eru allir uppistandarar í dag.“

Nú er sonur þinn, Þórhallur Þórhallsson, einmitt nokkuð áberandi uppistandari. Getur þú eitthvað sagt honum til á þeim vettvangi?

„Ég reyni að gefa honum góðar ábendingar, en sennilega fer hann ekkert eftir þeim. Ég er bara með eitthvert gamalt grín. Þetta er aðeins öðruvísi í dag. Ég er ekki beint uppistandari því ég hef alltaf notað tónlistina með, eða gert sýningar og einhvers konar kabarett. Maður er svolítið fastur í því.“

Of mikið af klámbröndurum í dag

En hvernig finnst þér íslenskt grín í dag, finnst þér það fyrst og fremst vera formið sem hefur breyst, eða hefur það breyst í grunninn?

„Það er aðallega formið sem hefur breyst en svo eru það líka aðrar áherslur. Hjá þeim sem eru nýbyrjaðir er það oft svolítið mikið klám, typpi og rass. Það er svo auðvelt að fara út í það og mér finnst fólk gera of mikið af því. Ég hef einmitt verið að skamma Þórhall fyrir það! Við Halli náðum að vera alveg lausir við það – fórum aldrei út í slíkt. En kannski er þetta það sem fólkið vill í dag og það er kannski þess vegna sem ég hef ekki meiri áhuga.“

Það er áhugavert að þú segir þetta, því það er oft talað um að í dag séum við sérstaklega viðkvæm og talað um pólitískan rétttrúnað. Kannski eru aðrir hlutir sem virka. Ég velti til dæmis fyrir mé hvort að lag eins og „Hún er allt of feit“ eða karakter eins og Grínverjinn myndu ganga í dag?

„Ég er ekki viss um það. Meira að segja þegar Of feit kom út var þetta umdeilt. Ég var að árita plötur og þá kom ein kona og var alveg brjáluð. Hún sagði að ef við værum í Bandaríkjunum væri búið að kæra mig. Ég benti henni reyndar kurteisislega á að þetta væri bandarískt lag, og ég hefði hálfþýtt textann – lagið heitir „She‘s too fat for me“ – en sá söngvari var ekki settur í fangelsi. Varðandi Grínverjann þá var mér sagt að Kínverjar á Íslandi hefðu móðgast yfir þessu, þannig að ég hætti að koma fram með hann. Þetta var viðkvæmt og hvað þá heldur núna – það myndi aldrei ganga.“

Þannig að þegar grínið er farið að særa þá hættir þú?

„Já, þá stoppar maður. Þá er það ekki alveg að gera sig.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Óttast mest að missa getuna til að spila golf

Það eru nokkrir mánuðir síðan Laddi eignaðist sitt fyrsta barnabarnabarn og er því orðinn langafi. En hvernig finnst manninum að eldast?

„Bara frábært, já, já. En ég fór samt að velta þessu fyrir mér núna í kringum afmælið. Mér fannst svo stutt síðan ég varð sextugur. Þessi áratugur hefur verð svo fljótur að líða! Ég staldraði því aðeins við og fór að hugsa. „Vá, sjötugur, hvað er langt eftir?“ Það er nefnilega ekki svo mikið, kannski 10 eða 20 en varla 30 ár. Ég næ vonandi 10 góðum árum, en svo fer að halla undan fæti.“

Hvernig líður þér með þetta?

„Mestu áhyggjurnar eru að ég missi getuna til að spila golf. En ég sá reyndar nýlega viðtal við 88 ára gamlan mann sem var enn að spila. Hann var með 13 í forgjöf og ég er með 11 núna, þannig að ég er ekki mikið betri en hann! Ég verð rosalega sáttur ef ég verð með 13 í forgjöf á þeim aldri. En golfið heldur manni líka gangandi, heldur manni ungum. Maður labbar gríðarlega mikið, sjö kílómetra á dag, allt sumarið. Það er ástæðan fyrir því að konan mín leyfir mér að vera í golfi alveg eins og ég vil.“

En hefur þú líka farið að líta yfir farinn veg, velt fyrir þér hvort þú sért sáttur við ferilinn eða hvort það sé eitthvað sem þú sérð eftir?

„Ég er ekki beint farinn að hugsa þannig. Þessa stundina sé ég ekki eftir neinu, en kannski fer ég meira að horfa til baka þegar ég verð kominn á níræðisaldurinn. Þá getur vel verið að maður sjái eftir einhverju, en ég vona ekki. Núna horfi ég fram á veginn.“

Ég hef frétt að þú sért farinn að einbeita þér að myndlistinni í auknum mæli, er það ekki rétt?

„Já, reyndar ætlaði ég að verða myndlistarmaður þegar ég var tólf, þrettán ára. Ég og Bjarni Ragnar vinur minn stefndum báðir á það. Hann varð myndlistarmaður en ég er fyrst núna að byrja að einbeita mér að því. Ég ætla að taka myndlistina svolítið alvarlegar heldur en grínið. Það er minn draumur að fara til Spánar og fara á myndlistarnámskeið. Mig langar að gera þetta fljótlega, helst næsta vetur.“

Þannig að planið er að lifa lúxuslífi á ellilífeyrinum á Spáni?

„Ég er kominn á þann aldur að ég á að fá ellilífeyri, en ég fæ bara eiginlega ekki neitt. Maður má ekki þéna meira en einhvern hundrað þúsund kall á mánuði annars er allt tekið af, og þar sem ég hef verið svo lengi sjálfstætt starfandi þá er lífeyrissjóðurinn mjög lélegur hjá mér. Þannig að ég hef ekkert efni á að hætta.“

Þannig að fólk þarf ekki að hafa áhyggjur af því að sjá minna af þér á næstunni?

„Nei, nei. Eða kannski örlítið minna, en ég verð alltaf viðloðandi þetta, að minnsta kosti á meðan fólk vill ennþá heyra í mér og sjá.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Stofnaði OnlyFans um leið og hún varð 18 ára – Faðir hennar bregst við

Stofnaði OnlyFans um leið og hún varð 18 ára – Faðir hennar bregst við
Fókus
Fyrir 3 dögum

Háklassa vændiskona útskýrir af hverju hún myndi aldrei fara í vinnuferð til Dúbaí

Háklassa vændiskona útskýrir af hverju hún myndi aldrei fara í vinnuferð til Dúbaí
Fókus
Fyrir 4 dögum

Fólk trúir honum ekki þegar hann segist vera með Ozempic typpi – Segir þetta sanna það

Fólk trúir honum ekki þegar hann segist vera með Ozempic typpi – Segir þetta sanna það
Fókus
Fyrir 4 dögum

Segja fótboltastráka á Íslandi þjást af mikilmennskubrjálæði: „Þá sagði hann: „Þessi flaska er dýrari en mánaðarlaunin þín“

Segja fótboltastráka á Íslandi þjást af mikilmennskubrjálæði: „Þá sagði hann: „Þessi flaska er dýrari en mánaðarlaunin þín“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Dóttir Hulk Hogan útskýrir hvers vegna hún mætti ekki í jarðarförina hans

Dóttir Hulk Hogan útskýrir hvers vegna hún mætti ekki í jarðarförina hans
Fókus
Fyrir 5 dögum

Telur sig hafa fengið krabbamein vegna framhjáhaldsins

Telur sig hafa fengið krabbamein vegna framhjáhaldsins