Hundasamfélagið safnaði fyrir dýralæknisheimsókn
Sigurjón Þórisson tók að sér hund í fóstur, sem er svo sem ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að ástand hundsins var með allraversta móti. Hann birti myndir af hvuttanum, sem var með afskaplega langar og snúnar klær þegar hann tók á móti hundinum og hefur ein klóin greinilega dottið af.
Að sögn Sigurjóns gat hundurinn ekki gengið vegna sársauka og hann biðlaði til Hundasamfélagsins um hjálp. Um er að ræða hóp á facebook þar sem „fólk sem elskar hunda deilir myndum og sögum, fær ráð og gefur ráð,“ stendur í lýsingunni. Sigurjón var augljóslega ráðþrota og sagði: „Hvað get ég gert í þessu? Hann á erfitt með gang og við treystum okkur ekki til að gera þetta sjálf. Væri frábært ef þið gætuð miðlað einhverju.“
Einn hundaunnandi mælti með að Sigurjón færi með dýrið til dýralæknis sem myndi líklega svæfa hundinn og klippa klærnar í rétta stærð og brenna fyrir. Þá taldi Sigurjón það rétta leið, og hélt að ástandið á hundinum hefði verið svona lengi miðað við lengdina á klónum. Hann hélt einnig að hundurinn hefði áður misst kló. Sigurjón segist ekki vilja tilkynna fyrri eiganda, sem hefur ekki séð um hundinn sem skyldi. Hann vill ekki greina nákvæmlega frá því hvers vegna, en segist hafa sínar ástæður til að tilkynna hann ekki.
Rétt fyrir 17:00 í dag tilkynnti Sigurjón að hundurinn væri „hættur að mása af stressi og verkjum, kominn á verkjalyf og sefur vært. Farinn að hoppa um af kæti og stríðir kisunum af og til.“
Hundasamfélagið varð fyrra til og stakk einn hundaáhugamaður upp á að hefja söfnun til þess að styðja fjárhagslega við lækniskostnað hundsins. Fjöldi lagði inn á styrktarreikning fyrir hundinn og um hádegið í gær höfðu safnast 19.500 krónur. Farið var með hundinn til dýralæknis og er söfnun lokið.
Ef fólk vill leggja gæludýrum landsins lið er hægt að leggja inn á söfnunarreikning hundasamfélagsins.