Ekki allar ferðir til fjár
„Það eru ekki allar ferðir til fjár á netinu. Pantaði mintugrænan að ég hélt kjól og fékk horgrænan samfesting,“ segir Elín Fanndal en hún deildi mynd af sér í grúppunni Verslun á netinu á Facebook.
Elín hafði ætlað sér að kaupa fallegan sumarkjól í vor og verslaði hann var síðu sem heitir Rortita.
Myndin hefur vakið mikla athygli og margir skemmt sér á góðlátlegan hátt yfir hrakförum Elínar.
„Líttu á björtu hliðarnar, grænar sokkabuxur í stíl og þá ertu komin með fínan grímubúning: Tröllið sem stal jólunum,“ sagði einn notandi síðunnar og Elín svaraði:
„Tuskan kostaði nánast minna en ekki neitt sem átti að klingja viðvörunarbjöllum. En ég á eftir að „skarta“ honum einhvers staðar við hæfi.“
Í samtali við DV um atvikið segir Elín:
„Mig óraði ekki fyrir þessum viðbrögðum í hópnum. Virkilega gaman að kæta svo marga,“ segir Elín sem var þarna að kaupa vöru á netinu í fyrsta sinn. Síðan þá hefur leiðin legið upp á við.
„Ég verslaði í fyrsta og eina sinnið af þessari síðu í vor. Ég hef verið í sambandi við reynslubolta síðan og ber undir hana allt sem ég hef áhuga fyrir.“