„Ætla ekkert að vera eitthvað leiðinlegur“ – Ekkert getur fengið mig til að snerta á þessum viðbjóði
Stefán Karl Stefánsson leikari hefur verið mikið í fréttum í haust og vetur vegna veikinda sinna. Hann gekkst undir aðgerð vegna krabbameins eftir að hafa greinst með illkynja æxli í brishöfðinu sem átti upptök sín neðarlega í brishöfðinu. Gekk aðgerðin vel og er Stefán nú kominn heim og er allur að braggast. Stefán fagnar nú þessa vikuna en eitt ár er liðið síðan hann hætti að reykja. Hann reykti að lágmarki 1,5 pakka á dag. Stefán Karl segir á Facebook:
„Og ef einhver svo mikið sem nefndi það að ég hætti að reykja þá var viðkomandi strikaður út af sakramentinu fyrir að detta það í hug að hafa svo mikið sem skoðun á því að ég reykti. Vörnin og meðvirknin með eigin reykingum var slík að ég hefði gert nánast hvað sem er til þess að halda áfram að reykja, og þá meina ég nánast hvað sem er.“
Stefán segir að ekkert geti fengið hann til að snerta á þessum viðbjóði aftur sem reykingar séu. Þá kveðst hann ekki skilja aðgerðarleysi stjórnvalda „gagnvart þessu ógeði.“.
„Þessu heilbrigðisvandamáli sem er selt hér um allan bæ, aðgengilegra en flest, ferskt grænmeti svo dæmi sé tekið.“
„Ég ætla ekkert að hafa þessa predikun neitt mikið lengri eða vera eitthvað leiðinlegur…en minni ykkur á að horfa í augun á börnunum ykkar þegar þið kveikið ykkur í sígarettu næst því hver mínúta með sígarettu í munni er mínútu minna með börnunum ykkar,“ segir Stefán Karl og bendir á eftirfarandi staðreynd:
„Ef hver sígaretta tekur um 5 mínútur með öllu og þú reykir hálfan pakka á dag þá eru það 50 mínútur á sólarhring sem þú tekur frá börnunum þínum, það eru um 300 klukkutímar á ári eða 3000 klukkutímar fyrstu 10 ár lífs þeirra sem eru 125 sólarhringar og kostar um 2,8 milljónir en rúmlega 5 milljónir ef það er heill pakki (Útborgun í íbúð, nýi bíllinn sem þú hefur ekki efni á o.s.fv. ). Spáðu í þetta, í alvöru.“
Stefán hvetur fólk að ganga í reyklausa liðið:
„Ok, nú hætti ég og ætla að fagna hverjum auka degi sem ég fæ í þessu lífi því ég trúi ekki á líf eftir dauðann, ég trúi á þetta líf sem við lifum núna.“