fbpx
Þriðjudagur 26.ágúst 2025
Fókus

Katrín Björk 23 ára hefur fengið tvær heilablæðingar: „Þegar ég vaknaði úr rotinu gat ég bara hreyft augun“

Bloggar á einlægan hátt um bataferlið -„Lífið er ekki erfitt nema maður geri það erfitt“

Auður Ösp
Mánudaginn 7. nóvember 2016 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég gefst ekki upp, ég er vön að sníða mér stakk eftir vexti og gera það besta úr öllu,“ segir Katrín Björk Guðjónsdóttir sem fengið hefur tvær heilablæðingar með stuttu millibilli þrátt fyrir að vera einungis 23 ára gömul. Blæðingarnar ollu því að hún lamaðist frá hvirfli til ilja. Fyrri heilablæðinguna fékk hún í lok árs 2014, og rúmlega sjö mánuðum síðar, á meðan á endurhæfingarferli stóð, fékk fékk hún þá seinni. Seinasta sumar, ári eftir seinni blæðinguna byrjaði hún að skrifaum reynslu sína og leiðina í átt að bata á bloggsíðu sinni. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og Katrín Björk unnið ótalmarga litla – en magnaða sigra.

Man allt saman

Katrín lýsir því þannig að í lok árs 2014 hafi hún fengið heilablæðingu sem þó verið fljót að ganga til baka. Var hún útskrifuð af sjúkrahúsi eftir viku og var ákveðin í að halda ótrauð áfram, enda próf framundan í háskólanum.

„Ég vakna svo 8 dögum seinna lömuð hægra megin í líkamanum. Þá hafði æð lokast þar sem blæðingin hafði orðið og hitt svo óheppilega á þann stað sem sér um hreyfingu hægri útlima, en í raun heppilegt að ekki hitti á talið eða sjónina eða skynið til dæmis.“

Seinni blæðingin reyndist síðan vera mun stærri en sú fyrri og lamaðist Katrín frá hvirfli til ilja bæði hægra og vinstra megin. „En það var allt í lagi með kollinn á mér. Og ég man allt,“ segir hún.

DV greindi frá því í júlí í fyrra að aðstandendur Katrínar hefðu komið á laggirnar sérstökum styrktarsjóð. Katrín hafði þá gengist undir aðgerð og verið færð af gjörgæslu yfir á almenna deild á Landspítalanum. Endurhæfing Katrínar hafði gengið mjög vel eftir fyrri blæðinguna og var því áfallið mikið þegar seinni blæðingin átti sér stað. Aðgerðin sem Katrín gekkst undir gekk þó vel og stóðu fjölskylda hennar og unnusti henni þétt við hlið.

Á bloggsíðu sinni segir Katrín á einlægan hátt frá leið sinni að bata. Veitt hún blaðamanni góðfúslegt leyfi til að birta hluta af skrifunum en gripið verður niður í nokkra vel valda hluta af blogginu hér fyrir neðan

15.júní 2016

„Eitt sem ég hef lært við að lífið kollvarpaðist svona, það er að lifa í núinu og snúa erfiðu og leiðinlegu hlutunum í þolanlega. Lífið er of stutt til að kvíða, maður á að njóta lífsíns með þeim sem maður elskar og líður vel í kringum! Áður en ég veiktist var ég eín kvíðaklessa, bjó mér til áhyggjur og kvíða úr ekki neinu. Það var eins og ég þrifist á því. Ég fór ósjaldan að sofa með kvíðahnút í maganum. Það þurfti þrjú heilaáföll til, svo að ég fattaði þetta. Ég er ekki hrædd við lífið.

Ég get ekki breytt því sem er búið að gerast og það sem gerist í framtíðinni það bara gerist, alveg sama þó það verði gott eða vont. Það eina sem ég get gert er að spila sem best úr spilunum sem mér eru gefin núna.

24 júní 2016

„Stundum er ég ótrúlega meðvituð um vanmátt minn, þá get ég orðið mjög fúl yfir öllu sem ég get ekki og langar svo mikið að geta. En þá finnst mér uppörvandi að hugsa hvar ég var fyrir ári síðan og hvar ég er í dag.“

„Viku áður en þessar myndir voru teknar þá gat ég ekki setið svona. Það er skrítið til þess að hugsa að fyrir ekki svo mörgum mánuðum var það að sitja það erfiðasta sem ég gerði, ég var nánast farin að örvænta að ég myndi ná þessu. Svo kom það! Ég sit oft á dag, ég ætla aldrei að gefast upp í neinu. Ég elska að fá harðsperrur, finna að vöðvarnir eru að virka og þá veit ég að það sem ég er að gera gerir gagn. Unaðsleg tilfinning. Fyrst fékk ég harðsperrury við það halda höfðinu uppi, ég man hvað mér fannst höfuðið þungt eins og fyrst varð ég rennsveitt við það eitt að reyna að hreyfa tunguna jafn sjálfsagt og það er hjá mér í dag!“

Ljósmynd/katrinbjorgudjons.com
Ljósmynd/katrinbjorgudjons.com

19.júlí 2016

Í færslunni lýsir Katrín Björk nokkrum litlum persónulegum sigrum í bataferlinu í júlí:

„Þegar ég vaknaði úr rotinu gat ég bara hreyft augun. Nú ári seinna er ég laus við alla hræðslu og skrifa ég með annari (einari mínum) sem er furðu lítið hnjöskuð miða við allt sem gengið hefur á.“

Að drekka vatn

Eftir stærri blæðinguna þá mátti ekkert fara inn fyrir varirnar á mér í fleiri mánuði, og mætti það ekki en þá nema af því ég á bestu mömmu í heimi. Þið getið þá rétt ímyndað ykkur hvað það er gott að finna kalt vatnið leika um munninn. Hvað þá þegar maður nær í glasið sjálfur ber það upp að vörunum, drekkur og kyngir. Þetta er meira en að segja það. Einn daginn mun ég segja að eitthvað sé jafn auðvelt og að drekka vatn. Það er ekki svo auðvelt enþá. Ég nýt þess að finna hvað þetta verður léttara í hvert skipti.

Klóra sér

Ég mun aldrei gleyma því þegar ég náði að klóra mér í fyrsta sinn. Ég fylltist vellíðan og stolti. Allt fyrrasumar var ég með ómeðhöndlað frjóofnæmi. Mig kæjaði í augun, nefið og kokið en ég hafði ekki séns á að klóra mér. Það var vægast sagt ógeðslegt.

Að geta verið á samskiptamiðlum

Ég gat ekki fylgst með neinu í 6 mánuði. Ég saknaði þess þó aldrei, mér fannst það frekar þæginlegt að vera ekki háð neinu. Í dag vel ég það að vera frekar “offline”. Ég fer á Facebook, Instagram, Snapchat og Twitter en ég geri sára lítið og svara litlu. Það eru forrétindi að hafa valið.

26. ágúst 2016

Hitta fólk

„Ég hef aldrei átt erfitt með að vera í kringum fólk, ég hef alla tíð notið þess að vera í kringum marga og sótt í að syngja eða tala frammi fyrir fullt af fólki án þess að verða stressuð. Svo eftir að ég veiktist þá fann ég hvað það varð erfitt fyrir mig að hitta fólk, ég varð stressuð ef ég vissi að gestir væru að koma, ég hágrét ef fólk kom óvænt til mín. Ég var farin að forðast aðstæður þar sem ég gæti hitt fólk. Ég fann fyrir svo miklum létti þegar ég sætti mig við sjálfan mig og hætti að draga mig niður þá fyrst byrjaði þetta. Ég er enn með kraftlaust andlit, kraftlausan líkama og ég tala óskiljanlega, en þetta er bara partur af minni einstöku baráttu við lífið, það eina sem ég get gert er að halda áfram að berjast og brosa með fólkinu í kringum mig, það er svo erfitt að vera ósáttur og fúll.“

21. september 2016

„Ég gæti verið alla daga að vorkenna mér yfir hlutskipti mínu í lífinu, að ég tali óskiljanlega, líkami minn allur er kraftlaus og ég þarf hjálp við nánast allt. En lífið það er ekki erfitt nema maður geri það erfitt. Mér finnst ég vera heppnasta manneskja í heimi,“ ritar Katrín Björk og greinir jafnframt frá einum af sigrum septembermánaðar:

Aukinn styrkur í talfærum

„Þó ég viti að það eigi margir sigrar eftir að vinnast áður en ég tala eingöngu þá eru margir sigrar unnir og fyrst núna eftir að ég veiktist finn ég einhvern mun. Andlitið er að styrkjast, öndunarfærin láta alltaf meir og meir að stjórn og ég get tjáð mig með einstaka orðum við þá sem eru mér nánastir, ég er enn of feimin til að geta leyft öllum að heyra.“

Ljósmynd/katrinbjorgudjons.com
Ljósmynd/katrinbjorgudjons.com

30.október 2016

„Ég hef alltaf skrifað mikið og ég veit ekki hvar ég væri eftir þessi heilaáföll ef ég gæti ekki skrifað mig frá hlutunum, ef ég finn fyrir kvíða, reiði, spennu eða gleði þá hef ég alltaf þurft að skrifa og af því ég er svo heppin þá get ég núna þegar þörfin er mest skrifað mig frá kvíðanum og reiðinni og skrifað þegar ég er glöð. Ég hef alltaf haft það skýrt hvert ég vil stefna í lífinu og svo bý ég mér til markmið út frá því og skrái hjá mér litlu sigrana sem hafa unnist á leiðinni. Það gefur mér svo mikið að deila með ykkur litlu sigrunum sem eru unnir.“

Geta sofið með sæng og snúið mér á nóttunni

„Eins notalegt og kósý mér finnst það núna að kúra mig undir sænginni minni þá gat ég það ekki fyrir ári. Þegar sæng var sett ofan á mig þá leið mér eins og margra tuga kílóa sementspoka hefði verið komið fyrir ofan á mér, ég var svo veikburða að ég gat ekki hreyft mig undir sænginni. Þá svaf ég með sængurver og var snúið á tveggja klukkustunda fresti.“

Hægt er fylgjast nánr með lífi og sigrum Katrínar Bjarkar á bloggsíðu hennar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Serena Williams um af hverju hún byrjaði á þyngdarstjórnunarlyfi

Serena Williams um af hverju hún byrjaði á þyngdarstjórnunarlyfi
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ný plata með Laufeyju komin út

Ný plata með Laufeyju komin út
Fókus
Fyrir 4 dögum

Íslandsvinur lést í mótorhjólaslysi

Íslandsvinur lést í mótorhjólaslysi
Fókus
Fyrir 4 dögum

Hildur lýsir upplifun sinni hjá tannlækninum – „Sé tækin þeirra eins og monstertruck…einhver að tengja?“

Hildur lýsir upplifun sinni hjá tannlækninum – „Sé tækin þeirra eins og monstertruck…einhver að tengja?“