„Það er eitthvað að … mér. það er eina skýringin,“ segir Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir ritstjóri Kvennablaðsins í tregablöndnum pistli í sama miðli. Pistillinn ber heitið Aðventujátning og hefur hann vakið nokkra athygli vegna einlægni höfundar. Steinunn hefur staðið eins og klettur við hlið eiginmanns síns, Stefáns Karls Stefánssonar leikara sem hefur, líkt og alþjóð ætti að vera kunnugt um, tekist á við alvarleg veikindi. Dropinn holar steininn og ljóst að veikindin hafa tekið á fjölskylduna.
„Ég fann að þetta yrði ekki skemmtilegt áður en ég fór að setja kransinn saman,“ segir Steinunn og við tók einn og hálfur tími í kvöl og pínu sem börnin á heimilinu höfðu engan áhuga á. Þau lögðu á flótta en kransinn minnti helst „á Goodyear hjólbarða í þeirri yfirstærð sem karlmenn með veika sjálfsmynd kjósa sér.“
Í byrjun kveðst Steinunn ekki viss um af hverju hún geri sjálfri sér þetta. Hún svarar svo spurningunni sjálf neðar.
„Kannski er ég bara að reyna að gleyma því hvað mér líður illa og hvað ég er hrædd. Ég er hrædd um manninn minn og fyllist angist vegna veikinda hans oft á dag. Þegar maður óttast að tíminn verði tekinn frá manni verður kyrrðin svo þrúgandi. Til að forðast kyrrðina er best að vera önnum kafin og þá á ég við – að gefa sér aldrei augnabliks séns til að draga andann.“
Hún kveðst vera eirðarlaus og vill hafa sem mest læti í kringum sig. Sársaukinn er í þögninni.
„Ég vil enga kyrrð og enga andskotans þögn – því þar býr sársaukinn – og ein leið til að hafa hemil á honum er að kasta sér á bálið og fuðra upp í snarkandi jólaskreytingavítinu.“