„Ég vildi að ég hefði verið að taka þetta upp á myndband, þetta var eins og í bíómynd,“ segir Íris Kristinsdóttir söngkona og leikkona í samtali við DV.is en hún deildi frásögn af hlýhug ókunnugs manns á facebooksíðu sinni fyrr í dag. Deildi hún frásögninni með það í huga að hvetja aðra til að hugsa um náungann.
Í færslu sinni ávarpar Íris manninn sem stóð fyrir framan hana í Bónus á völlunum í Hafnarfirði síðdegis í dag:
„Vegna þín verður stelpan á kassanum sem var með „í þjálfun“ spjald um hálsinn ekki skömmuð fyrir að það vanti 8 þúsund í kassann. Þú varst góð fyrirmynd fyrir litla drenginn þinn sem var með þér í þessari búðarferð, vegna þín fór ég með vörurnar mína í bílinn minn brosandi og með hlýju í hjarta.
Ég veit að stelpan var svo stressuð yfir því að gera alla hluti rétt, verandi í þjálfun, að hún fattaði ekki hversu stórt góðverk þetta var en ég veit að hún á eftir að fatta það þegar hún kemur heim til sín í kvöld og slakar á og fer yfir daginn.
Þú leiðréttir hana þegar hún gaf þér til baka. Hún rétti þér tvo fimm þúsundkalla í staðin fyrir tvo þúsundkalla. Margir hefðu stungið þeim í vasann og hrósað happi, en ekki þú, þú leiðréttir hana.
Ég veit ekkert hver þú ert en ég veit hvað þú ert, þú ert góður maður sem leyfðir mér að verða vitni af þessum atburði. Fyrir það er ég þakklát. Nokkur góðverk slegin á einu bretti. Vel gert.“
Í samtali við DV.is segist Íris gjarnan vilja hvetja aðra til fylgja í fótspor ókunnuga mannsins, enda ófáir sem hefðu nýtt tækifærið og hirt aurana ef þeir hefðu lent í hans stöðu. Þó svo að vissulega muni einhverjum finnast góðverk hans lítið og ómerkilegt, þá þurfi hins vegar oft ekki mikið meira til að bæta heiminn í kringum sig.
„Það er greinilega til gott fólk í þessum heimi, enda sagði ég við hann hvað mér fannst þetta fallegt af honum. Í raun hefði ég viljað segja miklu meira og helst taka utan um hann, en það var ekki alveg viðeigandi,“ segir Íris að lokum hlæjandi.