„Það var alltaf verið að segja við mig í höfðinu: „Af því að þú yfirgafst börnin þín Ágústa, þá skaltu sanna það núna hvað þú elskar þú heitt,“ segir Ágústa Ísleifsdóttir, fjögurra barna móðir sem barist hefur við þunglyndi, geðhvörf og geðklofa í fjölda ára með tíðum innlögnum á geðdeild. Þegar Ágústa fór í geðrof fylgdu því margvíslegar ranghugmyndir eins og hún lýsir í viðtali við sjónvarpsþáttin Bara geðveik á Stöð 2.
Á tímabili í geðrofi hélt Ágústa til að mynda að sjónvarpið sitt talaði til hennar.
„Ég heyrði alltaf, undir niðri í annarri vídd um hvað fréttin var. Það voru allar einhverjar svona „leynifréttir,“ segir hún en hún var jafnframt sannfærð um að íbúðin hennar væri í maganum á djöflinum og að hún þyrfti að sannfæra djöfulinn um að hún elskaði börnin sín.
„Þetta var í marga, marga mánuði, eitt, tvö ár. Það var alltaf verið að segja við mig í höfðinu: „Af því að þú yfirgafst börnin þín Ágústa, þá skaltu sanna það núna hvað þú elskar þú heitt. Þú átt að gera þetta, annars fer djöfullinn í börnin þín,“ segir hún síðan og bætir við:
„Og ég gerði allt, ég sýndi á mér brjóstin hérna úti í Þórufelli, á bensínstöðinni.“