Karl Sigurðsson fyrrverandi Borgarfulltrúi er ósáttur við útreiðina sem vinur hans Óttar Proppé hefur fengið í samskiptamiðlum í dag. Karl var í Besta flokknum sem rann inn í Bjarta framtíð. Það ætti ekki að fara fram hjá neinum að Óttar hefur verið gagnrýndur fyrir að taka samtalið við Bjarna Benediktsson og Benedikt Jóhannesson með stjórnarmyndun í huga.
„Óttarr er einn besti maður sem ég þekki,“ segir Karl og bætir við: „Hann er vandaður, gáfaður, varkár, góðhjartaður og heiðarlegur.“
Segir Karl að Óttarr hafi alltaf talað um að setja almannahagsmuni umfram hagsmuni þröngra hópa. Það sé viðhorf sem hann hafi ekki vikið frá. Stjórn þessara þriggja flokka væri ekki óskastjórn Karls.
„Það sem mér svíður hins vegar alveg ofboðslega um þessar mundir er hvernig fólk leyfir sér að tala um Óttar bara vegna þess að hann leyfir sér að kanna möguleikann á samstarfi með þeim sem fengu stjórnarmyndunarumboðið frá forsetanum. Orðbragðið sem er notað víða er svo ósmekklegt að ég fæ bara illt í magann og er skapi næst fara í þá rassíu að henda sumum út af vinalistanum mínum.“
Segir Karl galið að segja þvert nei við því að skoða hvort forsenda sé fyrir samstarfi flokkanna. Karl ver vin sinn í lokin með þessum orðum:
„ … og ef svo er ekki, þá bara sleppa þessu. Við verðum allavega að vera viss um að þetta hafi verið skoðað til hlítar áður en við blásum þetta af. Hvort fólk er sammála þessu er eitt en það er annað ef á að fara úthúða fólki fyrir að tala saman. Það er bara fávitaskapur.“