fbpx
Þriðjudagur 26.ágúst 2025
Fókus

Sandra Sigrún: „Þú ert bara númer hérna og ekkert annað“

Lýsir lífinu í kvennafangelsi í Bandaríkjunum – Dagarnir langir og erfiðir – Ofbeldi og misbeiting valds af hálfu fangavarða

Auður Ösp
Þriðjudaginn 1. nóvember 2016 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég fyllist oft vonleysi, sérstaklega þegar að ég hugsa til þess hvað ég á eftir að vera hérna lengi. Ég verð afskaplega hrædd þegar ég hugsa um hvernig allt verður þegar að ég losna. Það er ekki einu sinni víst að mamma og pabbi verði á lífi,“ segir Sandra Sigrún Fenton sem afplánar 37 ára fangelsisdóm í Bandaríkjunum vegna tveggja bankarána sem hún tók þátt í árið 2013 í Virginíuríki. Lífið innan veggja fangelsisins, eins og Sandra lýsir því, snýst um það eitt að lifa af. Fangaverðir hika ekki við að beita líkamlegu ofbeldi og slagsmál og kúgun á meðal fanga eru tíð. Þá er allt annað en sjálfsagt að föngunum sé veitt læknisþjónusta, og jafnvel nauðsynleg lyf. Því hefur Sandra sjálf fengið að kynnast.

Viðtal DV við móður Söndru, Möggu Fenton vakti gríðarlega athygli í ágúst síðastliðnum, þá ekki síst hvernig mál Söndru var meðhöndlað fyrir bandarískum dómstólum. Hún hafði um árabil barist við fíkniefnaneyslu þegar ránin voru framin og ekki var tekið til greina að samverkamaður Söndru í ránunum, heróínsalinn hennar, hótaði henni og barni hennar lífláti ef hún tæki ekki þátt. Þá voru mál þeirra aðskilin fyrir dómi með þeim afleiðingum að Sandra var dæmd á þeim forsendum að hún hefði sjálf skipulagt og framið vopnað rán, þó svo að hún hefði hvergi notast við skotvopn eða verið með það á sér.

Sandra bindur nú allar vonir við að mál hennar verði tekið upp á ný og nýr dómur falli sem verði í samræmi við hennar þátt í málinu en líkt og fram kemur í viðtali við Möggu, móður hennar í DV í dag, hefur fjölskyldan nú hrundið af stað söfnun fyrir þeim lögfræðikostnaði sem hlýst af því að sækja um svokallaða náðun hjá ríkisstjóra Virginíufylkis. Ef Sandra situr af sér allan dóminn verður hún rúmlega sextug þegar hún getur um frjálst höfuð strokið. Sandra hefur búið í Bandaríkjunum frá þriggja ára aldri með móður sinni en hún heimsótti Ísland á hverju ári þegar hún var yngri og hefur því sterk tengsl við land og þjóð.

Sandra í eldhúsinu hjá frænku sinni í einni af hinum fjölmörgu Íslandsheimsóknum
Elskar Ísland Sandra í eldhúsinu hjá frænku sinni í einni af hinum fjölmörgu Íslandsheimsóknum

„Ég er mest hrædd um að þurfa að vera án sonar míns og foreldra minna í áratugi,“ segir hún en sonur hennar Rylan er fimm ára gamall og hefur búið hjá ömmu sinni og afa frá fæðingu. „Ef málið verður ekki tekið upp og dómurinn styttur þá hef ég ekki mikið til að lifa fyrir. Ég get ekki séð sjálfa mig hér í 35 ár til viðbótar.“

Er bara númer

Aðstæðunum í Fluvanna Correctional Center for Women, þar sem Sandra afplánar dóm sinn, var lýst í fyrrnefndu viðtali í DV. Í fangelsinu eru hýstir á bilinu 3.500 til 5.000 kvenfangar sem hlotið hafa langtímadóma, sumar fyrir hrottalega glæpi á borð við morð og líkamsárásir. Á tímabili deildi Sandra klefa með ungri konu sem drap yfirmann sinn, skar líkið í búta og kveikti í. Fyrir þann verknað, sem hún framdi ásamt kærasta sínum, hlaut hún 17 ára dóm. Fangelsið rukkar fanga um leigu fyrir vistina, 30 dollara á mánuði, og þá þurfa fangarnir að greiða aukalega ef þeir vilja auka nærföt eða undirföt til að klæðast undir fangabúningnum. Allar nauðsynjavörur á borð við sápu og tannkrem þurfa fangarnir að greiða sjálfir dýru verði.

„Það er mjög mikið um kúgun á milli fanga og það eru alltaf nokkrar sem „ráða“ öllu“

Minna er um eiturlyfjaneyslu en gengur og gerist almennt í fangelsum enda eftirlitið gífurlegt. Reglulega eru gerðar rassíur þar sem klefum er snúið við og leitað á öllum föngum. Sömuleiðis er föngum gert að berhátta sig eftir hverja heimsókn sem þeir fá og leitað á líkömum þeirra. Niðurlægingin er mikil.

Aðspurð um lífið innan veggja fangelsisins segir Sandra það vera lítilfjörlegt og lýsir því þannig að hún þurfi sífellt að vera á verði.

„Lífið er frekar tilgangslaust. Við erum vaktar klukkan 4.30 til að borða morgunmat. Svo höfum við ekkert að gera til 9.00 þegar kveikt er á símanum og sjónvarpinu. Ég fer í skóla á virkum dögum frá 11.00 til 14.00 og geri lítið eftir það nema ef konan sem að ég hjálpa þurfi eitthvað. Dagarnir eru langir og erfiðir. Það er svo mikið af konum hérna sem eru geðbilaðar og láta mig aldrei í friði. Ég þarf að passa mig á að leyfa þeim ekki að koma mér í vandræði. Það er mjög mikið um kúgun á milli fanga og það eru alltaf nokkrar sem „ráða“ öllu. Ég reyni að halda mig frá öllum.“

Hún segir réttindi fanganna oft hlunnfarin. „Þú ert bara númer hérna og ekkert annað. Það er öllum sama um okkur og við fáum engu ráðið. Fangar verða að berjast fyrir sínum rétti til læknisaðstoðar og yfirleitt bara öllu. Okkur er úthlutað því sem við nauðsynlega þurfum á að halda eins og mat og fatnaði. Annað fáum við ekki.“

Sandra kveðst hafa verið undir það búin að þurfa að sitja af sér dóm en hana grunaði þó aldrei að hún myndi verða lokuð inni þar til hún væri komin á sjötugsaldur. Áfallið var ólýsanlegt þegar dómurinn var kveðinn upp.

„Ég brotnaði algjörlega niður. Ég er nokkuð viss um að ég fékk taugaáfall. Ég var sett í einangrun af því að þeir voru svo hræddir um að ég myndi reyna að fremja sjálfsmorð. Það var ömurlegt að vera í einangrun. Ég var ein í klefa í tíu daga, allsber, bara í pappírskjól og með pappírsteppi til að breiða yfir mig. Það sat manneskja og góndi á mig allan sólarhringinn til að passa upp á að ég gerði ekkert af mér.“

„Við erum ekki barðar á hverjum degi en það kemur fyrir“

Allir hafa rétt á sinni skoðun

Dómstóll götunnar getur verið afskaplega harður. Einhverjir kynnu að koma með frasann „Don’t do the crime if you can’t do the time.“ Finnst þér óréttlátt að þú þurfir yfirhöfuð að afplána refsingu – burtséð frá hversu langur dómurinn er?

„Nei, alls ekki. Ég braut af mér og á skilið að afplána refsingu.“

Ef einhver myndi segja við þig að þú hafir sjálf komið þér í þessar aðstæður og getir þar af leiðandi sjálfri þér um kennt – hverju myndir þú þá svara?

„Sú manneskja hefur rétt á sinni skoðun og ég virði það en manneskjan hefur aldrei verið í mínum sporum og veit ekkert hvernig mínar kringumstæður voru.“

Erfitt að horfa upp á barsmíðar

Sandra segir margt vera keimlíkt með lífinu í fangelsinu og því sem fólk kannast við að hafa séð í bandarískum kvikmyndum, eða í sjónvarpsþáttunum Orange is the new black.

„Við erum ekki barðar á hverjum degi en það kemur fyrir. Það er mikið um að verðirnir komi með eiturlyf inn fyrir fanga. Það er alltaf mjög mikið drama og rifrildi milli fanga. Það er líka mjög mikið um að fangar steli hver frá öðrum og þá verður slagur og allt verður vitlaust.“

Hún segir flesta fangaverðina ekki hika við að misnota vald sitt, en sumir séu þó vinsamlegir í framkomu.

„Þeir læsa okkur oft inni í klefunum okkar á daginn þegar að við eigum að vera frammi í sameiginlegu stofunni. Þeir læsa okkur inni að ástæðulausu og segjast ekki vilja horfa á okkur. Annars eru flestir verðirnir góðir við mig af því að ég sýni þeim virðingu og geri ekkert af mér til að gera þá reiða. Margir verðir lemja sumar konurnar þegar þær gera eitthvað sem reitir þá til reiði. Það finnst mér erfitt að horfa upp á.“

Hún segir misbeitingu varðanna meðal annars lýsa sér í því að neita föngunum um að fara inn í klefa að sofa á kvöldin og láta þá í staðinn hanga frammi á ganginum fram á nótt. Eins neiti þeir föngum um lyf.

„Við verðum að vera virkilega lasnar til að fá að sjá lækni og það tekur yfirleitt um viku að komast til læknis, það er að segja ef þeir trúa því að maður sé veikur. Mjög oft vilja verðirnir ekki kalla á hjálp þegar fangi þarf virkilega á hjálp að halda,“ segir hún og nefnir tvö persónuleg dæmi. „Ég fékk einu sinni sykurfall og missti meðvitund. Þá reyndu verðirnir að troða mat upp í mig í staðinn fyrir að kalla á hjálp. Annar fangi kallaði loks á hjálp fyrir mig. Núna er ég búin að vera með tannpínu í meira en sex mánuði og læknirinn neitar að senda mig til tannlæknis. Hann segir að hann „megi ekki vera að svoleiðis rugli.“

Sandra deilir pínulitlum klefa með öðrum fanga. Þar er koja, tvö lítil skrifborð og tveir litlir kollar. „Við megum ekkert hengja upp hjá okkur. Við gerum það samt og tökum séns á að allt sé tekið niður og því hent. Eins og er þá er ég með margar myndir af syni mínum og myndir sem að hann hefur teiknað handa mér. Ég er með neðri koju og lími myndirnar undir efri kojuna svo að ég sjái hann Rylan minn um leið og ég vakna.“

Fær sendan matarpakka

Hún segir matinn í fangelsinu vera misgóðan og af skornum skammti. Eftir að ný kona tók við eldhúsinu skánaði maturinn heilmikið að sögn Söndru og hætti að verða „ógeðslegur“ eins og hún orðar það.

„Við fáum ekki nóg að borða, við fáum aldrei nóg á diskinn og það má aldrei fara aftur í röðina. Sem betur fer sendir mamma mér pening svo að ég geti keypt meiri mat. Þann mat get ég pantað vikulega. Frænka mín á Íslandi hefur líka sent mér matarpakka sem hún pantaði á netinu. Það var æðislegt.“

„Dagsdaglega líður mér yfirleitt mjög illa“

Sandra segir útivistartímann í fangelsinu sömuleiðis afar takmarkaðan og þar er engin líkamsræktaraðstaða.
„Við fáum að fara út á körfuboltavöll og ganga um eða bara sitja og spjalla í 30 mínútur, tvisvar til þrisvar í viku. Við eigum samt engan körfubolta.“

„Hann er það besta sem ég á í lífinu“
Mæðgin á góðri stundu „Hann er það besta sem ég á í lífinu“

Þunglyndi og kvíði

Lífið innan múranna er að sögn Söndru Sigrúnar ansi tilgangslaust. „Dagsdaglega líður mér yfirleitt mjög illa. Ég er bæði þunglynd og með ofsakvíða sem ég tek meðul við en þau virka misvel. Til dæmis, ef mamma svarar ekki í símann þá fer ég í algjört panik. Heilinn fer á hundrað með alls konar hugsanir, eins og að þau hafi lent í slysi eða að eitthvað hrikalegt hafi komið fyrir þau.

Ég bara get ekki hætt að hugsa þannig. Oft er ég alveg að fara á taugum þegar að mamma loksins svarar. Mamma þarf náttúrlega að vinna og annað þannig að hún getur ekki alltaf svarað símanum. Það er mjög erfitt að vera svona.“

Tilhugsunin um að þurfa að sitja inni næstu áratugina vekur upp hjá henni kvíða og ótta.

„Ég hef lofað mömmu að gera enga vitleysu. En ef ég þarf að vera hérna allan þennan tíma þá er ég ekki viss um að ég geti haldið það loforð.“

Aðspurð hvað henni finnist erfiðast við að vera innilokuð í fangelsi stendur ekki á svari hjá Söndru. Það er að vera fjarri syni sínum og fjölskyldunni. Rylan er fimm ára og fær aðeins að hitta móður sína einu sinni í mánuði.

„Það er það erfiðasta sem ég hef nokkru sinni upplifað. Hann er það besta sem að ég á í lífinu.“

„Ég hef alltaf litið á mig sem Íslending og er svo hreykin af því að vera íslensk“

Sandra kveðst þrátt fyrir allt vera nokkuð vongóð um að mál hennar verði tekið upp aftur. Hún bindur vonir við að allar hliðar málsins verði skoðaðar og nýr úrskurður kveðinn upp í kjölfarið. Og hún veit af stuðningi og velvild fólksins sem stendur henni næst.

„Ég er svo þakklát foreldrum mínum fyrir að gera þetta fyrir mig. Og ég er svo þakklát fyrir alla hjálp sem fólk veitir.“

Sandra hugsar oft heim til Íslands. Þar dvaldi hún árlega sem barn. Nú dreymir hana um að láta gott af sér leiða. Nýta reynsluna. En til þess að það rætist þurfa yfirvöld að milda refsingu hennar.

Óska eftir hjálp

Í Bandaríkjunum hafa almennir þegnar ekki alltaf efni á réttlæti. Fjölskyldan hefur þegar varið nokkrum hundruðum þúsunda í undirbúningsvinnu lögfræðingsins en þarf nú að reiða fram rúmlega tvær milljónir íslenskra króna í lögfræðikostnað svo hægt sé að halda vinnunni áfram og taka málið alla leið.

Til þess þurfa þau hjálp og hafa því komið á laggirnar söfnun undir nafninu Réttlæti fyrir Söndru. Hægt er að leggja Söndru og fjölskyldu hennar lið með því að leggja inn á söfnunarreikning 0565-26-130260, kt. 081062-5879. Hér má jafnframt finna facebooksíðu söfnunarinnar.

Hvað langar þig að gera ef þú losnar?

„Mig langar að fara í nám og verða ráðgjafi. Vonandi getur mín reynsla hjálpað einhverjum öðrum að lenda ekki í því sama.“

Frá Íslandi á Sandra óteljandi góðar minningar: eins og vera hjá ömmu sinni og frænku, fara út á róló að leika sér og fara upp í sveit til frænku sinnar, en þaðan á Sandra margar skemmtilegar minningar um reiðtúra og nýborin lömb.

„Uppáhaldsmaturinn minn er soðin ýsa með kartöflum, og svo jólamaturinn, hamborgarhryggur og meðlæti. Svo finnst mer grænu frostpinnarnir algjört æði, já og bland í poka! Allur íslenskur matur er svo góður og amma mín og frænka kunna sko að elda,“ segir hún.

„Ég hef alltaf litið á mig sem Íslending og er svo hreykin af því að vera íslensk. Mig hefur alltaf langað að búa á Íslandi og hef oft og mörgum sinnum grátbeðið mömmu að flytja með mig til Íslands.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Vikan á Instagram – Var farið að gruna að kærastinn ætlaði á skeljarnar

Vikan á Instagram – Var farið að gruna að kærastinn ætlaði á skeljarnar
Fókus
Fyrir 2 dögum

Bretar loks að fatta það sem Íslendingar hafa vitað árum saman

Bretar loks að fatta það sem Íslendingar hafa vitað árum saman
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sydney Sweeney svarar fyrir sig – Segir aðallega konur gagnrýna hana

Sydney Sweeney svarar fyrir sig – Segir aðallega konur gagnrýna hana
Fókus
Fyrir 4 dögum

Lína Birgitta borðar alltaf það sama í morgunmat – „Ástæðan er mjög einföld“

Lína Birgitta borðar alltaf það sama í morgunmat – „Ástæðan er mjög einföld“
Fókus
Fyrir 5 dögum

„Ég er bara með þetta uppáskrifað frá Kristrúnu Frosta. Vertu ekki að æsa þig yfir þessu“

„Ég er bara með þetta uppáskrifað frá Kristrúnu Frosta. Vertu ekki að æsa þig yfir þessu“
Fókus
Fyrir 5 dögum

„Ég hef verið kölluð barnaníðingur því kærasta mín lítur út eins og 13 ára drengur“

„Ég hef verið kölluð barnaníðingur því kærasta mín lítur út eins og 13 ára drengur“