Sneri blaðinu við og hefur verið edrú í níu mánuði – Á von á sínu öðru barni
„Ég byrjaði að drekka þegar ég var 13 ára og það gekk bara ágætlega í einhver ár. Ég byrjaði að missa tökin 19 ára gömul og þá bættust við margar aðrar tegundir af vímuefnum,“ segir Sveinhildur Rún Kristjánsdóttir, sem er 26 ára Vopnfirðingur, í einlægum pistli á Facebook-síðu sinni. Sveinhildur Rún, sem kölluð er Sveina Rún, segist hafa notað meðvirkni bróður síns til þess að fjármagna neysluna. Þá segist hún hafa verið frekar týnd í 1-2 ár þar til hún komst að því að hún bar barn undir belti. Hún segist hafa svifið um á bleiku skýi þegar sonur hennar kom í heiminn og fyrst um sinn taldi hún að allt væri breytt og hún gæti höndlað áfengið. Það reyndist hinsvegar vera blekking.
„Ég gat djammað af og til og í fyrsta sinn gerði ég engar gloríur á djamminu. En það var ekki lengi að breytast. Ég sá samt ekki að um einhvern vanda væri að ræða. Ég taldi mér trú um að þetta væri allt i lagi því ég væri ekki að nota neitt ólöglegt,“ segir Sveina Rún. Skemmtanalífið tók sífellt meiri tíma og toll af henni en samt hafi hún ekki íhugað að hætta að drekka. „Nei, alls ekki. Ég ákvað bara að hætta að djamma. Það var fyrir rúmum tveimur árum og fékk ég mér þá bara 2-3 bjóra á kvöldin, þegar ég var ekki að vinna. Svo fór ég í aðra vinnu þar sem ég vann 14.00-20.00, hversu mikill lúxus fyrir byttu? Ég drakk aldrei fyrr en stubburinn minn sofnaði, þannig að þetta var allt í lagi. Í um 10 mánuði þá drakk ég að minnsta kosti 8 bjóra á kvöldin. Alla daga var ég að drepast úr pirringi og þynnku, stundum tók það mig heila klukkustund að ná einum bjór niður því ég ældi svo mikið. Lykilatriðið var að gefast ekki upp, maður komst yfir það og þá rann bjórinn ljúft niður,“ segir hún.
Ástandið fór ekki framhjá fólki sem þótti vænt um hana. Aðstandendur byrjuðu að ræða við hana um drykkjuna og fylgjast með henni. Sveina Rún fann þó lausn á því. „Ég fór að geyma alla bjórana inní fataskáp og þvottahúsi, en hafði alltaf einn inní ískáp, drakk hann og svo bætti ég í. Þannig að alltaf var þessi ,,sami“ bjór til og ég ægilega áhugalaus um hann. Svo var ég alltaf svo ,,þreytt“ á kvöldin, þannig ég gat aldrei fengið fólk í heimsókn, ég slökkti öll ljós, dró fyrir gardínur og setti mig offline á spjallinu á Facebook til að fá frið. Öll þessi fyrirhöfn, bara til þess að sitja ein og drekka mig til dauða, öll kvöld,“ segir hún.
Loks kynntist hún kærastanum sínum sem einnig var virkur alkóhólisti. Hún taldi sig þarna loksins vera komin með mann sem væri ekki að fetta fingur út í drykkjuna hennar. Það varði ekki lengi. „Nema hvað, hann eyðilagði allt með því að segjast ætla í meðferð. Ég man að ég hugsaði: „djöfullinn, þarf ég þá að fara taka tillit til hans“,“ segir hún. Þetta setti hana í erfiða stöðu og loks sá hún fram að að hún þurfti að gera eitthvað í sínum málum. Svo fór að hún mætti á AA-fund. Eftir þennan fyrsta fund féll hún fimm sinnum fyrir Bakkusi. Hún hafi upplifað gríðarlega skömm yfir því og taldi sig vera fullkomin aumingja. Síðasta fylleríið hennar hafi siðan endað með skelfingi. „Ég ætla ekkert nánar út í það en ég mætti aftur á fund og sagði satt frá. Mánuðurnir eftir þennan fund voru gríðarlega erfiðir, en ég mætti aftur og aftur, og alltaf breyttist líðanin smátt og smátt,“ segir Sveina Rún. Í dag hefur hún verið edrú í níu mánuði og er ólétt af sínu öðru barni.
Sveina Rún var sjálf alin upp á heimili þar sem alkóhólismi hélt fjölskyldunni í heljargreipum. Faðir hennar glímdi við Bakkus en hafði loks sigur og hefur ekki snert áfengi í tíu ár. „Reiði mín var oftast gagnvart móður minni, þrátt fyrir að hún ætti það ekki skilið. Ég hef litið á mæður þannig að þær megi ekki vera mannlegar. Þær mega ekki díla við vandamál né gera mistök og það sé einungis á þeirra ábyrgð að börnin þeirra eigi gott líf,“ segir Sveina Rún. Þessi hugsanavilla hafi gert það að verkum að hún hafi sjálf sett gríðarlega pressu á sig. Pressu sem hún réð ekki við.
,,Ég hef notað næstum allar afsakanir í heimi og prufað allskonar aðferðir, en aldrei gat ég drukkið eins og venjulegt fólk. Ég verð alltaf snargeðveik en ég læri að lifa með því og þar af leiðandi átt allt það besta í lífinu. Mig grunaði aldrei, þrátt fyrir augljóslega byttu hegðun, að ég þyrfti hjálp, en eg þarf þess og mitt markmið núna, er að vinna á þessum fordómum og skömm,“ segir Sveina Rún að lokum.