fbpx
Þriðjudagur 26.ágúst 2025
Fókus

Kraftlyftingarnar breyttu lífi Barónsins

Hóf nýtt líf eftir fertugsafmælið

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 6. nóvember 2016 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Snorri Barón Jónsson varð fertugur í fyrra. Hann vaknaði á afmælisdaginn sinn og fannst sem það vantaði talsvert upp á að hann hefði nýtt fyrstu fjörtíu árin nægjanlega vel. Honum fannst hann ekki vera að nýta hæfileika sína til fulls og að væri orðinn of þungur á sál og líkama. Ári síðar er hann aldeilis búinn að vinna sig út úr „fertugskrísunni“ og vill meina að það sé meira og minna kraftlyftingum að þakka.

Hefði fengið greiningar

„Ég vex úr grasi sem venjulegur, feitlaginn krakki sem er alltaf til í að gera einhvern óskunda. Hefði líklega fengið einhverjar greiningar ef það hefði verið í boði á þeim tíma. Fljótt kom í ljós að ég hafði umtalsverða tónlistarhæfileika, gítarinn lá afar vel fyrir mér og ég setti stefnuna á að verða rokkstjarna. Rokklífernið tók sinn toll og ég vann mér fátt til frægðar þar annað en bindast áfengis- og fíkniefnadjöflinum nánum böndum. Ég fór í meðferð 19 ára og varð að manni upp frá því. Ég lauk ekki menntun að neinu marki umfram grunnskóla en hef verið duglegur við að gera mistök og læra af þeim, stundum strax og stundum eftir nokkrar tilraunir.“

Snorri er ekki lengi að renna í gegnum rúmlega fjörtíu ára langa ævisögu sína. Hann tekur sjálfan sig ekki of hátíðlega og hefur skýra sýn á bæði kosti sína og galla. Um tvítugt leiddist Snorri út í útgáfu götutímaritsins Undirtóna ásamt félaga sínum. Það var einmitt þar sem hann myndaði ástríðu sína fyrir auglýsingagerð og hefur hann allar götur síðan starfað í þeim iðnaði. Í dag rekur hann auglýsingastofuna Maura sem staðsett er í Skipholti. Jafnframt er Snorri hamingjusamlega kvæntur faðir tveggja drengja.

„Ég hef alltaf sett mína orku í að klára verkefnin í vinnunni en það gerir það svo að verkum að ég sit sjálfur stundum á hakanum. Það er fyrst og fremst þess vegna sem ég hóf kraftlyftingabröltið í febrúar. Ég fann að ég þurfti að hafa eitthvað sem væri algjörlega á mínum forsendum. Ég fann strax að þetta passaði við mig og fljótlega tók ég ákvörðun um að keppa á Íslandsmóti.“

Sumir hefðu látið sér látlausari markmið nægja en Snorri setur markið hátt og talar mikið um það.

„Til þess að setja pressu á sjálfan mig setti ég dramatískan status á Facebook með yfirlýsingu um að ég ætlaði á mótið. Það var mín leið til þess að tryggja að ég myndi ekki hætta við, og frá og með þeim tímapunkti hvarflaði ekki að mér að bakka út.“

Meira sjálfstraust og sterkari sjálfsmynd

Snorri er óðamála um kosti kraftlyftinga. Hann getur hvorki hrósað sportinu nægilega mikið né komið að því orðum hvað þessi della hefur gert mikið fyrir hann.

„Í tuttugu ár hef ég verið að sprikla í tækjasal en hef gert svo margt bæði rangt og illa. Margt af því sem ég hef verið að gera hefur hreinlega gert mér ógagn. Ég tók þess vegna meðvitaða ákvörðun um að fá mér þjálfara sem vissi hvað hann væri að gera. Sá heitir Rúnar Geirmundsson og hann er í einu orði sagt magnaður. Hann hvetur mig áfram en heldur mér samt á jörðinni. Ég mæti til hans 3–4 sinnum í viku og hlýði því sem hann segir. Í kjölfarið er allt í einu allt að ganga upp. Ég er búinn að styrkjast mjög mikið, brjóskloseinkennin eru horfin og bakið er orðið eins og það sé splunkunýtt. Ég lærði að beita mér rétt, kílóin runnu af mér og spegilmyndin varð eitthvað sem ég kann miklu betur að meta. Héðan í frá verður ekki aftur snúið.“

Og það leynir sér ekki að árangurinn er ekki bara líkamlegur því Snorra líður miklu betur. Hann segist oft hafa verið blúsaður á þessum árstíma áður en að hann finni einfaldlega ekki fyrir skammdegisdepurðinni í ár.

„Þetta gjörbreytir hvernig mér líður með sjálfan mig. Kannski er ég búinn að vera að breiða yfir lítið sjálfstraust eða skerta sjálfsmynd í mörg ár án þess að gera mér grein fyrir því. Ég hef allavega fundið að sjálfstraustið kemur með því að setja sér markmið og standa undir þeim. Sjálfstraust mitt hefur snaraukist sem lýsir sér helst í því að ég á auðveldara með að samgleðjast og hrósa öðrum. Ég er ekki stöðugt að bera mig saman við aðra. Án þess að ég hafi verið meðvitað að því, en djöfull held ég að ég hafi verið mjög ómeðvitað að gera þetta.“

Íslandsmeistaramótið fór fram um síðustu helgi og Snorri segir að sér hefði getað gengið betur. Hann stefnir þó á áframhaldandi keppnir næstu þrjátíu árin og ætlar að vera tattóveraður gamall kall með grátt, sítt skegg sem lyftir meiru en allir hinir.

„Ég vaknaði á fertugsafmælinu og hugsaði: „Ætla ég að vera heilsuleysingi með áunna sykursýki og geta ekki hneppt efstu tölunni á gallabuxunum?“ og svarið var einfalt. Þetta er ekki spurning um fitufordóma heldur að líða betur. Og mér líður svo sannarlega betur í dag. Ég fann þarna eitthvað sem rúmast inni í lífi mínu samhliða fjölskyldu og vinnu og þetta er að gera líf mitt betra. Líf þeirra sem umgangast mig verður betra í leiðinni. Spyrjið bara hana Báru mína!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Serena Williams um af hverju hún byrjaði á þyngdarstjórnunarlyfi

Serena Williams um af hverju hún byrjaði á þyngdarstjórnunarlyfi
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ný plata með Laufeyju komin út

Ný plata með Laufeyju komin út
Fókus
Fyrir 4 dögum

Íslandsvinur lést í mótorhjólaslysi

Íslandsvinur lést í mótorhjólaslysi
Fókus
Fyrir 4 dögum

Hildur lýsir upplifun sinni hjá tannlækninum – „Sé tækin þeirra eins og monstertruck…einhver að tengja?“

Hildur lýsir upplifun sinni hjá tannlækninum – „Sé tækin þeirra eins og monstertruck…einhver að tengja?“