Katrín Júlíusdóttir, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, ætlaði aldeilis að slá í gegn hjá nágrönnum sínum í Garðabæ á Hrekkjavökunni síðasta mánudag.
Ráðherrann fyrrverandi hafði þá fengið ábendingu um að krakkar úr hverfinu kynnu að koma í heimsókn til hennar og bjóða henni að velja grikk eða gott. Keypti hún tvö kíló af nammi og hengdi ógnvekjandi beinagrindur út í glugga. Ekki fór betur en svo að enginn krakki lét sjá sig. Katrín gerði sjálf grín að óvinsældum sínum á Twitter og benti á að þeim mætti líkja við gengi Samfylkingarinnar í alþingiskosningunum.