fbpx
Þriðjudagur 16.ágúst 2022
Fókus

Dagur í lífi Kjartans Atla

Körfubolti, hádegiskría og kostir þess að setja símann á „silent“

Margrét Gústavsdóttir
Mánudaginn 22. janúar 2018 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Körfuboltakappinn Kjartan Atli Kjartansson fæddist á Landspítalanum þann 23. maí árið 1984. Hann er sonur þeirra Ásu Steinunnar Atladóttur, hjúkrunarfræðings hjá Landlæknisembættinu, og Kjartans Sigtryggssonar, f.v. lögreglumanns.

Kjartan ólst upp á Álftanesi hjá foreldrum sínum og yngri bróður, Tómasi Karli, en fyrir átti faðir hans tvær dætur, þær Barböru og Steinunni, og eina fósturdóttur, söngkonuna Rut Reginalds. Kjartan Atli lauk menntaskólanámi frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ á þremur og hálfu ári. Þaðan lá leiðin í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og um svipað leyti steig hann sín fyrstu spor í fjölmiðlabransanum, þá sem blaðamaður í hlutastarfi hjá DV.

Kjartan Atli spilaði einnig körfubolta með úrvalsdeildarliði Stjörnunnar samhliða starfi og háskólanámi og þjálfaði jafnframt ungmenni í þessari íþrótt sem á hug hans allan. Eftir að hafa starfað bæði sem grunnskólakennari, körfuboltaþjálfari og blaðamaður sneri hann sér svo alfarið að fjölmiðlastarfinu árið 2012 en undanfarið hefur hann, ásamt Hjörvari Hafliðasyni, sinnt morgunþættinum Brennslan á FM957, verið hluti af Ísland í dag-teyminu og síðast en ekki síst lætur hann ljós sitt skína í þættinum Dominos Körfuboltakvöld sem er á dagskrá Stöðvar 2 Sport í hverri viku. Kjartan býr í Kópavogi ásamt unnustu sinni, Pálínu Maríu Gunnlaugsdóttur, og dóttur þeirra, Klöru Kristínu, sem er átta ára.

06.00

Ég byrja daginn snemma enda hefst útsending klukkan sjö. Ég drekk hvorki kaffi né borða morgunmat en hins vegar gerist ég svo syndsamlegur að fá mér Pre-Workout orkudrykk, hlaðinn koffíni, til að negla mig í gang á morgnana meðan ég horfi á það helsta úr NBA-fréttum næturinnar. Ég lifi nefnilega samkvæmt nýjustu rannsóknum sem segja að morgunmaturinn sé ekki mikilvægasta máltíð dagsins, enda má rekja þá lygi til manna sem framleiða morgunkorn.

07.00

Það sem skilur Brennsluna frá öðrum morgunþáttum er kannski það að við reynum að sjá spaugilegu hliðarnar á þjóðmálunum. Hlustendahópurinn er fólk á öllum aldri en ætli það eigi það ekki sameiginlegt að vera fremur glaðsinna? Svo erum við með alls konar dagskrárliði sem höfða til mismunandi hópa, til dæmis bílahorn, tískuhorn, þrifahorn og annað sem tengist lífsstíls- og samfélagsmálum. Þátturinn stendur til tíu og eftir það taka við verkefni með Íslandi í dag.

10.00

Stundum förum við beint í tökur og erum í þeim fram undir hádegi eða lengur, en umfjöllunarefnin í þættinum eru eins mismunandi og þau eru mörg. Svo fer bara eftir því hvaða vikudagur er uppi á teningnum hvað ég geri að því búnu.

12.00

Ég hef þá reglu í heiðri að reyna að eiga algjöra griðastund með sjálfum mér í hádeginu. Þá fer ég heim, set ég símann á „silent“, fæ mér eitthvað gott að borða, horfi á sjónvarpið og legg mig jafnvel. Með því að loka mig svona aðeins frá umheiminum næ ég að hlaða batteríin fyrir kvöldið því oft er ég að vinna mjög lengi fram eftir og þarf á orkunni að halda.

15.00

Upp úr hádegi tekur oftast við hugmyndavinna fyrir útvarpið, klippivinna fyrir sjónvarpið og ýmsir fundir. Svo er ég yfirleitt að þjálfa hjá Stjörnunni milli þrjú og fimm. Mér finnst ótrúlega gott að skipta svona um gír og fara í allt annað vinnuumhverfi. Á körfuboltaæfingum er ég í essinu mínu, nýt þess að kenna krökkunum þessa frábæru íþrótt og reyni að vera góð fyrirmynd.

18.30

Eftir æfingar hitti ég fjölskylduna en kvöldmatinn borðum við gjarna með tengdaforeldrum mínum sem búa í sama húsi. Verkefni kvöldsins eru svo aftur mismunandi eftir dögum en þau snúast aðallega um að horfa á körfuboltaleiki og fylgjast með þjóðfélagsmálum til að geta fjallað um í þættinum næsta morgun. Svo reyni ég líka að fara á æfingar með félögum mínum, ýmist körfubolta eða fótbolta.

23.00

Það næst síðasta sem ég geri áður en ég sofna er að heyra í Hjörvari svo allt sé á hreinu fyrir næsta morgun og síðasta mál á dagskrá er svo að sofna út frá sjónvarpinu. Einhverjir lífsstílssérfræðingar halda því reyndar fram að það sé ekki hollt að hafa sjónvarp í svefnherbergjum en þar verð ég að vera ósammála, enda erum við Pálína vanalega sofnuð út frá einhverju bandarísku sjónvarpsefni upp úr klukkan tíu.

Hvað er besta ráð sem þér hefur verið gefið?

Fyrir bikarúrslitaleik Stjörnunnar gegn KR árið 2009 sagði körfuboltagoðsögnin Jón Kr. Gíslason við mig að eftir leik myndi ég ekki vilja horfa til baka, vitandi það að ég hefði getað gert betur og lagt mig meira fram. Við unnum leik og eftir það urðu þessi orð hans að eins konar lífsmottói hjá mér enda hef ég lagt mig 100 prósent fram í öllu sem ég hef tekið mér fyrir hendur eftir það.

Besta ráð sem þú getur gefið öðrum?

Þegar ég var um tvítugt tók ég meðvitaða ákvörðun um að einbeita mér að því skemmtilega í lífinu, bæði í leik og starfi. Þar sem þetta hefur reynst mér vel vil ég deila þessu ráði: Reyna að hafa það gaman og horfa á björtu hliðarnar eftir bestu getu.

Hvað vildir þú að þú hefðir vitað fyrr?

Sá er sæller sjálfur um álof og vit meðan lifir.Því að ill ráðhefir maður oft þegiðannars brjóstum úr.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Þetta heita ryksugur Íslendinga

Þetta heita ryksugur Íslendinga
Fókus
Í gær

Atvik úr morgunþætti vekur reiði – Reyndi að ýta henni tvisvar í burtu

Atvik úr morgunþætti vekur reiði – Reyndi að ýta henni tvisvar í burtu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Þetta er sagan á bak við hinn meinta vælubíl

Þetta er sagan á bak við hinn meinta vælubíl
Fókus
Fyrir 4 dögum

Mögnuð stemming í Húsi Máls og menningar – Frakki reif sig úr við mikinn fögnuð

Mögnuð stemming í Húsi Máls og menningar – Frakki reif sig úr við mikinn fögnuð