fbpx
Þriðjudagur 02.júní 2020
Fókus

„Mér fannst ég alltaf tilheyra annarri tegund“

Margrét Gústavsdóttir
Föstudaginn 12. janúar 2018 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eva Hauksdóttir hefur verið mjög áberandi í umræðunni síðasta áratuginn og skoðanir hennar, sem oft eru alveg á skjön við þær sem höfða til fjöldans, hafa stundum verið harðlega gagnrýndar. Eva hikar þó ekki við að bjóða þeim birginn sem eru ósammála henni enda segist hún hreinlega þrífast á átökum. En hver er þessi smávaxna, skelegga kona og hvaðan kemur þörf hennar til að vera „Advocatus Diaboli“, eða málsvari djöfulsins, ef svo mætti að orði komast? Margrét H. Gústavsdóttir kíkti í kaffi með upptökutækið og skrifblokkina og saman spjölluðu þær yfir Sprite og piparkökum, daginn áður en Eva stökk upp í flugvél með sínum heittelskaða og hélt aftur til Glasgow þar sem hún stundar nú meistaranám í alþjóðlegri mannréttindalögfræði.

Konan, sem nú heitir Eva, en var skírð Jóhanna Helga, leit dagsins ljós fyrsta dag júlímánaðar árið 1967. Hún er elst fjögurra systkina, á tvær yngri systur og einn bróður. Faðir hennar starfaði lengst af hjá álverinu í Straumsvík en móðir hennar var aðallega heimavinnandi.

Fjölskyldan var á miklu flandri og festi hvergi rætur en þegar Eva náði sextán ára aldri hafði hún verið í alls níu grunnskólum. Þegar stúlkan var níu ára skildu foreldrar hennar og þegar móðir hennar tók saman við annan mann flutti hún með barnahópinn frá Njarðvík til Akureyrar. Tveimur árum síðar fluttu þau í þorpið Hjalteyri í Hörgársveit. Á þeim tíma bjuggu þar aðeins fimmtíu manns, að börnum meðtöldum, og auðvelt að ímynda sér að það hafi verið flókið fyrir unglinginn að finna sína hillu þar.

Hún segir ástandið á heimilinu hafa verið mjög erfitt þegar hún var að alast upp. Móðir hennar glímdi við andleg veikindi og þegar unglingurinn lét af meðvirkni og fór að standa uppi í hárinu á henni varð spennan meiri. Í dag talast þær ekki við og hafa ekki gert í langan tíma. Eva fann mikinn létti þegar hún fór í heimavistarskóla en gagnfræðaskólagöngu sína hóf hún í Þelamerkurskóla.

„Mér fannst virkilega gott að komast í burtu frá heimilinu og tilheyra þessum unglingahópi í Þelamerkurskóla. Næsta vetur á eftir flutti ég til ömmu og afa og fór í Breiðholtsskóla en þar náði ég ekki sambandi við nokkurn mann svo ég var fegin að koma til baka og fara aftur í Þelamerkurskóla þaðan sem ég lauk níunda bekk – en sumrin á Hjalteyri voru hins vegar hundleiðinleg. Við vorum þarna bara einhverjir fimm unglingar en ég þurfti að vera heima hjá mér að passa litla bróður minn meðan hinir krakkarnir voru allir að vinna í fiski. Ég var auðvitað alveg að deyja. Skólafélagar mínir í Þelamerkurskóla björguðu þessu alveg og mér þykir enn mjög vænt um bekkjarsystkini mín þótt við höfum ekki verið í miklu sambandi í gegnum árin. Þetta er eina tímabilið frá minni skólagöngu þar sem mér fannst ég tilheyra hópi og eini skólinn sem mér finnst ég eiga rætur í,“ segir Eva, en af þessari frásögn er auðvelt að álykta hvernig fortíð hennar hefur gert það að verkum að hún sér stundum lífið og heildarmyndina frá öðru sjónarhorni en aðrir.

„Fannst ég tilheyra annarri tegund“

En varstu mikið öðruvísi en aðrir krakkar?

„Já, vafalaust var ég það. Í dag heitir þetta að vera nörd en þá var þetta kallað að vera „háfleyg“. Ég orti ljóð og hafði allt annan tónlistarsmekk en krakkarnir. Svo hafði ég áhuga á samfélags- og trúmálum sem öllum fannst bara ofsalega skrítið og að auki var ég eini krakkinn sem fermdist ekki. Ég átti engar nánar vinkonur en mér fannst gaman að tilheyra þessum hópi og við höfðum auðvitað félagsskap af hvert öðru. Mér leið alltaf eins og ég væri öðruvísi og fannst ég tilheyra annarri tegund en mér leið ekkert illa yfir því enda einfari inni við beinið,“ segir Eva sem segir áhuga sinn á göldrum hafa vaknað um þetta leyti. Hún gerir þó mikinn greinarmun á göldrum og fyrirbærum eins og draugatrú og spíritisma en móðir hennar var mjög upptekin af slíku.

Alin upp við draugatrú

„Andar hinna framliðnu voru uppi um alla veggi á heimilinu enda móðir mín á kafi í spíritisma. Hún fór í andaglas, sá drauga, var með ósjálfráða skrift og alls konar svona eitthvert rugl. Framan af trúði ég líka á þetta en ég man skýrt eftir þeirri stundu sem ég missti alla trú á drauga,“ segir Eva sem var hugrakkari en móðir hennar og var því stundum gerð út af örkinni til að kanna hvort draugar væru á ferðinni þegar framandi hljóð gerðu vart við sig.

„Hún var alltaf að heyra einhver skrítin hljóð. Til dæmis heyrði hún kirkjuklukkur hringja og fótatak í stiganum þótt enginn færi um. Kirkjuklukkurnar sem hún heyrði í reyndust til dæmis vera laus þakrenna sem slóst til í vindinum,“ útskýrir Eva en eftir að hafa í nokkur skipti komist að því að umhverfishljóðin tengust engri yfirnáttúru byrjaði unga stúlkan að efast stórlega – og svo fór að hún missti endanlega alla trú á drauga.

„Það var eitt kvöldið að ég heyrði skringilegt marr í snjónum fyrir utan kjallaragluggann minn sem hljómaði alveg eins og fótatak. Ég leit út um gluggann en sá ekki nokkurn mann, þrátt fyrir að heyra marrið mjög skýrt. Ég man að ég sat upprétt í rúminu mínu, alveg kaldsveitt, og beið eftir því að draugurinn kæmi, um leið og ég reyndi að berja saman vísu í kollinum. Ég hafði jú lesið það í þjóðsögunum að það væri alltaf best að svara draugum í bundnu máli, en ég vissi samt að ef hann kæmi með fyrripart þá gæti ég örugglega ekki botnað. Vonaði bara að ég gæti reddað mér einhvern veginn. Þarna var ég orðin alveg rosalega hrædd en svo allt í einu heyrast skruðningar og skyndilega hrynur svakaleg snjóhengja fram af þakinu og pompar niður beint fyrir utan gluggann. Þá hafði þetta marr ekkert verið á jörðinni heldur snjórinn að skríða fram af þakinu,“ segir hún en með þessari gusu fór draugatrú hennar endanlega.

Andar hinna framliðnu voru uppi um alla veggi á heimilinu enda móðir mín á kafi í spíritisma. Hún fór í andaglas, sá drauga, var með ósjálfráða skrift og alls konar svona eitthvert rugl.

Reynir að galdra vit í vinstrimenn og koma hægrimönnum frá

Galdratrúna hefur hún þó aldrei misst en Eva segir það líklegast stafa af því að galdrar eigi ekkert skylt við yfirnáttúru. Hún vill meina að menn eigi bara eftir að finna vísindalegu skýringuna sem liggi þar að baki.

„Ég held að maðurinn geti með galdri haft einhver áhrif á veruleikann og framgang ákveðinna mála en ég vil meina að þetta sé ekkert yfirnáttúrulegt. Ég get ekki útskýrt af hverju þetta stafar og ég ætla ekki að reyna að rökræða það, enda er þetta bara mín trú,“ segir hún. „Það upplifa allir eitthvað skrítið af og til. Stundum höldum við að það sé huglestur, hugboð eða eitthvað slíkt, og vitum ekki af hverju það stafar eða hvernig þetta virkar, en ég held að vísindin eigi eftir að útskýra þetta síðar enda byrja öll vísindi í galdri. Stærðfræðin á rætur sínar í galdri og það sama gilti um efnafræðina. Ég held að það sé eins með sálarfræðin og það sem við upplifum sem óútskýranlegt í dag, það er eitthvað náttúrulegt sem liggur að baki, kannski á sálarfræðin eða taugasálfræðin eftir að leiða í ljós skýringar á mörgum undarlegum fyrirbærum,“ segir hún og bætir við að galdur sé tilraun mannsins til að hafa stjórn á veruleika sínum og láta eitthvað gerast.

„Ég er alltaf að galdra eitthvað. Sumt tekst en annað ekki. Ég er til dæmis alltaf að reyna að koma Sjálfstæðisflokknum frá völdum en það er erfiður galdur. Svo reyni ég að galdra vit í vinstrimenn en það hefur enn ekki tekist. Maður reynir samt,“ segir Eva og skellir upp úr.

Fann eiginmanninn á trúarsamkomu og gifti sig átján ára

Um leið og skyldunáminu lauk flutti Eva til föður síns í Hafnarfirði og fór í Flensborgarskóla. Fljótlega eignaðist hún kærasta sem síðar varð eiginmaður hennar og barnsfaðir en leiðir þeirra lágu saman á trúarsamkomu hjá Bahá’í samfélaginu þar sem Eva var mjög virk um nokkurra ára skeið. Hún segir trúleysi sitt á endanum þó hafa orðið til þess að hún gekk af trúnni. „Það er eiginlega hálfvonlaust að vera í trúarsöfnuði þegar maður er ekki trúaður,“ segir hún og hlær sínum dillandi hlátri.

Í Bahá’í trú er lögð áhersla á að fólk stundi ekkert kynlíf fyrir hjónaband en Eva og fyrrverandi eiginmaður hennar, Hilmar Bjarnason, tóku því ekki mjög alvarlega enda gekk hún með eldri son þeirra þegar þau létu pússa sig saman. Þetta var árið 1986 en árið 1989 fæddist yngri sonur þeirra.

„Við vorum gift í um fjögur ár og svo var það bara búið en ég hef aldrei séð eftir þessu hjónabandi. Hins vegar get ég sagt það, svona eftir á, að ef ég fengi tækifæri til að fara aftur í tímann með þá þekkingu og þann þroska sem ég hef í dag þá hugsa ég að ég hefði lagt mig fram um að láta þetta ganga. Þetta var ágætis hjónaband en við vorum bæði ung og vitlaus og klúðruðum þessu. Hann hefur hins vegar alltaf verið frábær pabbi og mjög góður maður til að vera skilinn við,“ segir hún og skellir upp úr en bætir strax við að hann hafi alltaf reynst börnum þeirra góður faðir, og í loftinu liggur að það er engin kergja á milli þessara fyrrverandi hjóna.

Fékk Evu-nafnið frá fyrrverandi kærasta

Eins og áður segir var Eva upphaflega skírð Jóhanna Helga í höfuðið á afa sínum og langömmu. Evu-nafnið festist síðar við hana og er sú saga ákaflega rómantísk en nafnið kemur frá fyrrverandi eiginmanninum sem byrjaði að kalla hana Evu þegar hún gaf honum ávaxtakörfu.

„Ég var voðalega skotin í honum og hafði reynt sitt lítið af hverju til að vekja athygli á því en það var ekki fyrr en ég gaf honum ávaxtakörfu, sem innihélt meðal annars eitt rautt epli, að hann kveikti á perunni. Samt var engin hugsun á bak við þetta epli af minni hálfu. Ég valdi bara saman fallega ávexti og setti í körfu en hann túlkaði eplið sem tákn um að ég vildi sofa hjá honum og upp úr því byrjaði hann að kalla mig Evu,“ segir hún og skellihlær.

„Mér líkaði það ekki illa enda hafði ég aldrei kunnað almennilega við Jóhönnu-nafnið. Svo kynnti hann mig sem Evu fyrir öllu sínu fólki og ég leiðrétti það aldrei þannig að smátt og smátt varð þetta að nýja nafninu mínu. Ég lét hins vegar ekki breyta þessu í Þjóðskránni fyrr en amma mín var látin. Henni var alltaf eitthvað illa við nafnbreytinguna, fannst eins og ég væri að móðga afa með þessu en ég held að honum hafi verið skítsama,“ segir hún og bætir við að það hafi liðið nokkuð mörg ár þar til hún hætti að bregðast við nafninu Jóhanna.

„Ef einhver nefnir nöfn sona minna eða mannsins míns þá tek ég ósjálfrátt viðbragð en þegar einhver talar um Jóhönnu þá hugsa ég aldrei um sjálfa mig enda er þetta nafn ekki lengur hluti af mér. Það er frekar að ég sjái mynd af Jóhönnu Sigurðardóttur skjóta upp kollinum.“

“Hann virtist ekki vera í neinni geðveiki“

Eftir skilnaðinn átti Eva í nokkrum mislöngum ástarsamböndum. Tvö þeirra leiddu af sér stuttar sambúðir en það var ekki fyrr en hún kynntist núverandi ástmanni sínum, stærðfræðingnum Einari Steingrímssyni, að hamingjan fór að hossa henni almennilega í þessu samhengi. Einar hafði þá fylgst með henni á netinu, séð kvikmyndina „Guð blessi Ísland“ og reiknaði út að þeim myndi að öllum líkindum koma einstaklega vel saman.

„Ég hafði þá verið áberandi í bloggsamfélaginu um nokkurt skeið og menn sem lásu bloggið höfðu alveg átt það til að hafa samband og bjóða mér út. Ég hitti einhverja á þeim forsendum en þegar einhver játar manni nánast ást sína í tölvupósti þá eru auðvitað fyrstu viðbrögðin að halda að þetta sé einhver fáviti. Bréfið frá Einari var hins vegar langt og vel skrifað og hann virtist ekki vera í neinni geðveiki. Ég svaraði honum og eftir tíu þúsund línur, hann taldi, þá heimsótti hann mig til Danmerkur,“ segir hún.

„Einar er það besta sem hefur komið fyrir mig held ég. Þetta er frábært samband og það gengur ekki hnífurinn á milli okkar. Ég held að við verðum bara gömul saman og allt það. Þegar við hittumst fyrst þá var nýbúið að reka hann úr HR fyrir að rífa kjaft og mér fannst það auðvitað mjög heillandi. „Rekinn fyrir að rífa kjaft?“ Það hlaut bara að vera eitthvað æðislegt. Ég varð samt ekkert skotin í honum strax. Í millitíðinni fór ég meira að segja í einhverja sambúð með manni sem ég hafði verið að sofa hjá. Þvældist á eftir honum til Noregs og skildi Einar eftir í sárum. Þetta var algjör vitleysa enda bara einhver gredda,“ segir Eva og hristir höfuðið.

Hvorki undirlægja né karlremba

Tæpum tveimur árum síðar lágu leiðir þeirra Einars saman aftur. Hann var þá nýlega fluttur til Skotlands þar sem hann starfar enn sem prófessor við Strathclyde-háskóla í Glasgow. Einar lagði til að Eva prófaði að flytja til sín og sú tilraun tókst fullkomlega því síðan hafa þau búið þar saman, en Eva, sem lauk nýverið B.A.-námi í lögfræði fá HÍ vinnur nú að meistararitgerð um alþjóða mannréttindalögfræði og hefur þar með fundið sína fjöl.

„Einar setti dæmið þannig upp að ef vel tækist til þá myndum við eðlilega halda áfram að vera saman en ef ekki þá hefðum við engu að tapa. Í versta falli myndi mér leiðast. Ég ákvað að slá til og fór út til hans í janúar 2012.“

Síðan eru liðin sex ár og tíma Evu og Einars saman er ekki lokið. Þau eru sem eitt og hún segir að sér finnist mjög skrítið að hugsa sér lífið án hans. Áður en hún heillaðist af Einari, sem er tólf árum eldri, segist Eva vanalega hafa fallið fyrir töluvert yngri mönnum, eða „litlum sakleysislegum lopapeysum,“ eins og hún kallar þá.

„… svo hentar mér einhvern veginn miklu betur að vera með manni sem rífur kjaft enda eigum við svo margt sameiginlegt. Ég hafði alltaf þær hugmyndir að karlar skiptust í annaðhvort karlrembur eða mjúka, undirgefna menn. Með Einari komst ég hins vegar að því að það eru til raunveruleg jafningjasambönd milli karla og kvenna enda er hann hvorki undirlægja né karlremba.“

Varð fyrir barðinu á karlrembu og fór ein síns liðs í druslugöngu

Í netsamfélaginu hefur Eva vakið ómælda eftirtekt fyrir óháðar og ögrandi skoðanir, meðal annars á femínisma en þær hefur hún viðrað frá því hún byrjaði að blogga á slóðinni norn.is árið 2003.

Árið 2010 gaf hún svo út bókina Ekki lita út fyrir, sem hún kallar pönkaða sjálfsævisögu. Í bókinni gefur meðal annars að líta nektarmyndir af Evu undir yfirskriftinni: „Ég er ýlandi dræsa“ en þar má segja að Eva hafi verið með sína eigin druslugöngu og frjálsar geirvörtur, fimm árum áður en femínistar fylktu liði og þrömmuðu niður Laugaveg í sama tilgangi. Tjáningu hennar var þó ekki tekið sérlega vel enda töluvert á undan sinni samtíð í þessum efnum.

„Ég fékk sko að heyra að þetta væri nú ekki klassi, var úthrópuð fyrir sjálfsdýrkun og fleira í þeim dúr. En svo liðu nokkur ár og þá fengum við #freethenipple. Fimm þúsund konur saman í liði meðan ég var ein að berjast gegn drusluskömm sem enginn hafði áhuga á á þeim tíma,“ segir Eva svolítið pirruð og bætir við að sér finnist mjög hallærislegt að konurnar sem standa fyrir druslugöngunni sýni á sama tíma konum sem eru sjálfviljugar í kynlífsiðnaði mikla forræðishyggju en slíkt er eitur í beinum Evu. Bókin hennar var líka ádeila á karlrembu, eða forræðishyggju karla, sem hún segist hafa fundið fyrir í ríkum mæli þegar hún var hvað öflugust í blogginu.

Ókunnugir karlar að gefa ráð

„Ég hef ekki farið varhluta af karlrembu frekar en aðrar konur. Þarna voru alls konar ókunnugir, miðaldra karlar að senda mér tölvupóst þar sem þeir voru í raun að gefa mér, alveg óumbeðið, alls konar góð ráð og segja mér hvernig ég ætti að haga mér: „Þú svona hugguleg kona ættir að passa aðeins hvað þú segir og hvernig þú skrifar. Þú myndir hafa meiri áhrif ef þú myndir viðra skoðanir þínar á aðeins mildari hátt,“ og svo framvegis. Fyrst svaraði ég þessum hrútskýringum með gríni en smátt og smátt fór ég að upplifa karlfyrirlitningu. Þetta olli mér áhyggjum svo mér fannst ég verða að gera eitthvað í málinu,“ segir Eva sem segist einnig hafa verið í makaleit á þessum tíma en því hafi stundum fylgt vonbrigði og ástarsorg.

„Ég var tortryggin gagnvart körlum af því ég hafði verið særð. Bókin var einhvers konar uppgjör við sjálfa mig sem kynveru og á sama tíma uppgjör við bæði karlrembur og femínisma. Nektarmyndirnar voru engan veginn einhverjar „fótósjoppaðar“ skvísumyndir en engu að síður fékk ég það framan í mig að ég væri sjálfhverf og rugluð. Svo liðu örfá ár og allt í einu þótti það flott að sýna brjóstin á sér – svo lengi sem maður væri í hóp! Það er eins og samfélagið stilli sig inn á einhvern hópafemínisma sem allir verða að vera sammála en þegar ein manneskja stígur fram og segir eða gerir eitthvað, þá horfir þetta allt öðruvísi við,“ segir einfarinn, nornin og lögfræðingurinn Eva Hauksdóttir að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 3 dögum

Guðrún tók gamalt fellihýsi í gegn með glæsilegri útkomu

Guðrún tók gamalt fellihýsi í gegn með glæsilegri útkomu
Fókus
Fyrir 3 dögum

Flotta fólkið lét sig ekki vanta í opnunarpartý Bubblur og Beyglur

Flotta fólkið lét sig ekki vanta í opnunarpartý Bubblur og Beyglur
Fókus
Fyrir 6 dögum

Haukur deilir á foreldra sem hlífa börnum sínum of mikið

Haukur deilir á foreldra sem hlífa börnum sínum of mikið
Fókus
Fyrir 1 viku

Linda þótti of lágvaxin fyrir Lögregluskólann en annað kom á daginn

Linda þótti of lágvaxin fyrir Lögregluskólann en annað kom á daginn
Fókus
Fyrir 1 viku

Vikan á Instagram: „Í sumar ætla ég einungis að drekka kokteila með skvísunum“

Vikan á Instagram: „Í sumar ætla ég einungis að drekka kokteila með skvísunum“
Fókus
Fyrir 1 viku

„Mér finnst eins og við séum allt í einu hætt að vera par og frekar bara bestu vinir“

„Mér finnst eins og við séum allt í einu hætt að vera par og frekar bara bestu vinir“