Þann 1. júlí síðastliðinn lést bandarískur maður að nafni Dan Pelzer, 92 ára aldri. Dan var mikill bókaunnandi alla tíð en árið 1962 fór hann að skrá samviskulega á lista hverja einustu bók sem hann las. Þetta gerði hann allt til ársins 2023 þegar hann gat ekki lengur lesið vegna sjóndepru. Nú hefur fjölskylda Dan birt listann, sem telur á fjórða þúsund bóka, á netinu. Listinn hefur vakið mikla athygli vestan hafs og orðið mörgum hvatning til að lesa meira.
Fjallað er listann sem ber einfaldlega titillinn Það sem Dan las (e. What Dan Read) í tímariti Smithsonian stofnunarinnar. Listinn telur alls 3.599 bækur en ljóst er að Dan las á allri ævi sinni töluvert fleiri bækur enda var hann um þrítugt þegar hann byrjaði að skrá á listann.
Listinn er nú aðgengilegur á vefsíðunni what-dan-read.com en dóttir hans og guðsonur hennar komu síðunni á laggirnar.
Fyrst átti listann að vera bara fyrir nánustu vini og aðstandendur en vefsíðan var gerð aðgengileg í gegnum QR-kóða á grafskriftinni, í útför Dan. Dóttir hans, Marci Pelzer, deildi síðan listanum á LinkedIn þar sem hún kallaði hann dýrmætustu eign fjölskyldunnar. Listinn vakti hins vegar fyrst athygli víða um Bandaríkin þegar sagt var frá honum á Facebook-síðu bókasafnsins í heimaborg Dan, Columbus í Ohio. Þá fóru fjölmiðlar að veita listanum athygli og vitneskjan um hann fór að breiðast út.
Megnið af bókunum á listanum voru einmitt fengnar að láni á bókasafninu í Columbus en með færslunni um listann fylgdi með frásögn Marci sem minnti á að í dánartilkynningunni hafi fjölskyldan hvatt fólk til að lesa góða bók Dan til heiðurs.
Safnið setti upp sýningu í því útibúi sem Dan heimsótti oftast honum til heiðurs en á sýningunni var að finna sýnishorn bóka af listanum.
Dan las allt milli himins og jarðar, jafnt fræðibækur og skáldskap, en hann las ekki bara ánægjunnar og fróðleiksfýsninnar vegna. Hann las einnig töluvert af bókum sem tengdust starfi hans sem félagsráðgjafi.
Á listanum er ekki að finna bók bókanna, Biblíuna en sonur Dan, John Pelzer, segir föður sinn hafa lesið hana í á annan tug skipta.
Marci segir föður sinn hafa alltaf verið með opna bók við höndina. Hann hafi lesið í vinnunni, strætó og alls staðar þar sem tími og ráðrúm gafst til og bækurnar hafi oft komið af stað áhugaverðum samræðum við fólk.
Síðasta bókin á listanum er hin sígilda skáldsaga David Copperfield eftir Charles Dickens en Dan hafði alltaf þá reglu að klára bók sem hann var byrjaður á sama þótt honum þætti hún ekki skemmtileg. Skýrasta dæmið um það er hin torlesna skáldsaga Ódysseifur eftir James Joyce en um bókina sagði Dan í viðtali árið 2006:
„Þraut og pína.“
Dan lét ekki bara nægja að lesa sjálfur. Hann hvatti bæði börn sín og barnabörn eindregið til lesturs. Hann fór með börnin á bókasafnið á hverjum laugardegi og skráði þau í sumarlestur á hverju einasta sumri. Þegar barnabörnin komu til sögunnar las hann fyrir þau og svo með þeim þegar þau fóru sjálf að lesa.
Marci segir að eftir að fregnir af listanum hafi spurst út hafi margir komið að máli við hana og rætt við hana um eigið yndi af lestri og rifjað upp heimsóknir í æsku með foreldrum sínum á bókasöfn. Listinn hefur einnig varpað sterkara kastljósi á lestur almennt og hvatt fólk til þess að fara að fordæmi Dan, að umvefja bóklestur og lesa meira. Ljóst er því að áhrif hins látna bókaunnanda, til eflingar lesturs, hafa náð út fyrir gröf og dauða.