Hugleikur Dagsson grínisti og myndasöguhöfundur greinir frá því á Facebook-síðu sinni að hann sé á barmi þess að falla í ónáð og vera útilokaður frá samfélagsmiðlinum vegna ítrekaðra brota á reglum hans. Hugleikur segist hins vegar þá standa frammi fyrir þeim vanda að þurfa að draga verulega úr broddinum í sínu gríni. Það vilji hann ekki gera en hann vilji heldur ekki yfirgefa Facebook. Hugleikur ritar um þennan vanda sinn að sjálfsögðu á Facebook:
„Já, ég er formlega séð á hálum ís.“
Hann segist standa frammi fyrir þeim valkostum að hætta að birta efni á Facebook sem brjóti reglur miðilsins en það eigi við um 75 prósent af hans gríni, eða að halda sínu striki þar til hann verði útilokaður frá Facebook. Miðillinn virðist einkum gera athugasemdir við teikningar Hugleiks af nöktu fólki:
„Ég vil ekki fara af Facebook en ég vil ekki ritstýra sjálfum mér til dauða. Við sjáum til hvað gerist. Ef ég hverf skyndilega héðan þá er það út af þessu. Ég er hins vegar ekki fórnarlambið hérna, það eruð þið. Þeiri eru að taka grínið mitt frá ykkur.“
Loks bendir Hugleikur fylgjendum sínum og lesendum á að gerast áskrifendur hans á Patreon, kaupa bækur hans eða fylgjast með honum á Instagram. Facebook og Instagram eru raunar í eigu sama aðila en Hugleikur segir að á síðarnefnda miðlinum sé vissulega harðasta efnið hans fjarlægt en einfaldar teikningar hans þar sem kynfæri sjáist virðist enn leyfðar þar.