Morð og messufall, sprenghlægileg glæpasaga, full af eftirminnilegum persónum og óviðjafnanlegum uppákomum, kemur út í dag. Barnabókahöfundarnir Arndís Þórarinsdóttir og Hulda Sigrún Bjarnadóttir hafa getið sér gott orð fyrir bækur sínar og hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín innanlands og utan. Nú taka þær höndum saman og gefa út sína fyrstu bók fyrir fullorðna.
Útgáfuhóf verður í Eymundsson Kringlunni, í dag kl 16:30. Léttar veitingar í boði, upplestur og áritanir og bókin á útgáfutilboði.
Sif hefur einföld markmið í lífinu. Hún vill bara halda foreldrum sínum á – eða að minnsta kosti nálægt – mottunni og hreppa prestsembætti svo hún geti tryggt syni sínum örugga framtíð. Fyrsta atvinnuviðtalið eftir útskriftina úr guðfræðinni endar þó með ósköpum þegar þau séra Reynir ganga fram á lík í altariströppunum. Í óðagotinu sem fylgir er Sif ráðin í tímabundið starf kirkjuvarðar og einsetur sér að sanna sig svo hún hljóti prestsvígslu í kjölfarið. En organistinn er hættur, bókhaldið í óreiðu og í ofan á lag virðist piltur úr ungmennastarfinu vera horfinn sporlaust. Hvað í ósköpunum var hinn látni, Kormákur Austfjörð, sérlegur aðstoðarmaður Reynis, að bralla á elliheimili hverfisins? Og hversu mörg boðorð er eiginlega hægt að brjóta í einni og sömu kirkjunni?
Hér fyrir neðan má lesa fyrsta kafla bókarinnar með góðfúslegu leyfi Forlagsins:
„Við erum fjarskalega lánsöm hér í kirkjunni,“ sagði presturinn ábúðarfullur. „Við höfum alltaf laðað að okkur afburðafólk. Það er nefnilega þannig, væna mín, að gott fólk laðar til sín gott fólk!“
Sif sat bein í baki, reyndi að muna allt sem maður átti að muna í atvinnuviðtölum, kinkaði kolli og reyndi að líta út eins og gott fólk sem laðaðist að séra Reyni.
Hún beit á jaxlinn til að hrista af sér þessi óheppilegu hugrenningatengsl og reyndi að láta skakkt bindi prestsins ekki trufla einbeitinguna. Út um gluggann á bak við séra Reyni sá hún kirkjuna, aðeins spölkorn frá safnaðarheimilinu, litla hvíta byggingu með kubbslegum litlum turni. Kirkjuna sem gat orðið kirkjan hennar ef allt gengi vel.
„Trúarhitinn hér í holtinu er slíkur að til okkar hefur kallast mikilvægt fólk úr atvinnulífinu!“ Séra Reynir brosti út að eyrum. „Ég reikna með að þú kannist við hann Kormák Austfjörð?“
Sif íhugaði að þykjast kannast við téðan Kormák en ákvað að það gæti skapað meiri vandræði en það myndi leysa. „Ég held að ég kannist við nafnið,“ sagði hún, „en kem ekki alveg fyrir m …“
Reynir brunaði áfram eins og eimreið á fullum dampi. „Á aðeins nokkrum mánuðum, get ég sagt þér, hefur hann Kormákur orðið algjör lykilmaður hér í sókninni, enda hefur hann aldeilis ýmsa kunnáttu sem við lærum ekki í guðfræðideildinni! Þaulreyndur maður!“
„Já,“ sagði Sif varlega. „Einmitt.“ Hún hikaði. „Hvað sagðir þú að hann gerði hérna?“
„Ó, hann Kormákur minn, hann er allt í öllu!“ sagði séra Reynir kátur. Hann hallaði sér yfir borðið og spennti greipar. „Það væri nær að spyrja hvað hann geri ekki!“
„… Hvað gerir hann ekki?“ spurði Sif.
„Tja, hann giftir ekki og jarðar ekki,“ sagði séra Reynir.
„Hvorki fermir né skírir. En það er bara spurning um pappírana! Ég get trúað þér fyrir því að hann Kormákur myndi alveg hiklaust geta afgreitt þessi mál með miklum sóma!“
Sif kinkaði kolli – enn engu nær.
„Hann Kormákur hefur af alveg einstakri ósérhlífni helgað frítíma sinn kirkjunni. Hann er orðinn, þér að segja, ómissandi í öllu okkar starfi. Að ekki sé talað um seiglu hans í að koma upp kertastjakasafninu okkar.“ Séra Reynir bandaði hendi að pappa- kössum sem stóðu í stæðu í horni skrifstofunnar.
„Frítíma?“ spurði Sif. „Er hann sem sagt í sóknarnefnd? Eða er hann
sjálfboðaliði?“
„Sjálboðaliði?“ spurði séra Reynir hneykslaður. „Hann Kor mákur?“
„Nei, ég spyr,“ flýtti Sif sér að segja, „af því þú minntist á frítíma. Er hann … kirkjuvörður?“
„Hann Kormákur,“ sagði séra Reynir með alvöruþunga, „er orðinn hjartað í þessari kirkju, það er ekkert öðruvísi. Þér að segja þá ræddi ég við biskupinn um það hvort við þyrftum nokkuð prest, hvort það væri ekki nær lagi að ráða Kormák sem sérlegan framkvæmdastjóra kirkjunnar. En auðvitað vantar alltaf fleiri hendur á dekk. Æskulýðsprestur gæti létt ýmsu af Kormáki og gefið honum meiri tíma í sín mikilvægu störf.“ Séra Reynir horfði rannsakandi á Sif. „Segðu mér, væna, ert þú til dæmis lunkin við að hreinsa veggjakrot? Eða losa stíflur úr klósettum?“
„Ha?“ sagði Sif, eins og bjáni. „Er ekki einhver sem er umsjónarmaður fasteignarinnar? Kirkjuvörður? Sem sæi um slíkt?“
„Sjáðu til,“ sagði séra Reynir og hallaði sér aftur í skrifborðsstólnum. „Hann Kormákur er auðvitað sterkefnaður maður og þarf engin veraldleg laun frá kirkjunni, en engu að síður fannst okkur rétt að koma honum á launaskrá til þess að hann væri hér í formlegu hlutverki og gæti komið fram fyrir hönd kirkjunnar þegar þörf krefði.“
„Svo hann er kirkjuvörður?“ spurði Sif. Það var svolítið erfitt að fylgja séra Reyni og hún fann að hún var byrjuð að svitna.
Séra Reynir starði á hana með vanþóknun sem gat ekki boðað gott. „Heyrir þú ekkert sem ég segi, stúlka? Kormákur er allt í öllu í þessari sókn. Og augljóslega gengur ekki að slíkur maður þurfi að djöflast hér með drullusokka.“ Hann hvessti augun enn á hana. „Þetta er náttúrulega lifandi kirkjustarf! Sóknarpresturinn veit aldrei hverju dagarnir fleygja að honum. Stundum er það veggjakrot unga fólksins og þá stekkur fólk út með málningarpensil sama hvaða starfsheiti það ber! Stundum er það fermingarbarn með magapest! Ég þarf að vita hvort þér gæti verið treystandi fyrir drullusokknum ef svo bæri undir!“
Sif kyngdi. Það orð fór af séra Reyni að hann væri svolítið sérstakur. Risaeðla, var raunar orð sem hún hafði ítrekað heyrt notað.
„Ég er vön að leysa úr þeim verkefnum sem mér eru fengin,“ sagði hún ákveðin. „Stífluð klósett eru mér ekki ofviða.“
Séra Reynir kinkaði ánægður kolli. Hann leit á úrið. „Hann Kormákur minn ætlaði nú að koma,“ sagði hann, „taka viðtalið með mér. En eitthvað hefur honum seinkað. Við getum ekki ætlast til að maður eins og Kormákur sé þræll klukkunnar.“ Hann horfði alvarlegur á hana. „Mér finnst bara rétt að hugsanlegur nýr prestur skilji,“ sagði hann, „að hann – eða hún – á ekki bara að aðstoða mig.“
Sif kinkaði kolli og brosti til að sýna að hún skildi hvað hann væri að meina – sem hún gerði þó alls ekki.
Nýi æskulýðspresturinn átti sem sagt að vera aðstoðarmaður … kirkjuvarðarins?
Fótatak bergmálaði á flísalögðum gangi safnaðarheimilisins og hurðinni að skrifstofu Reynis var svipt upp. Inn gekk maður, eitthvað eldri en hún, í gallabuxum og blárri skyrtu, með hár sem féll yfir ennið í sveip og kringlótt gleraugu. Þótt hann væri snyrtilegur til fara var hann lemstraður á andliti – næstum eins og hann væri með glóðarauga. Sif fannst hún kannast við hann en áttaði sig ekki alveg á hvaðan. Sennilega úr fjölmiðlum?
„Fyrirgefið mér,“ sagði Kormákur og brosti til Sifjar. Ósjálfrátt brosti hún á móti. „Ég festist aðeins í símanum. Takk fyrir að koma, Sif. Við urðum strax mjög spenntir þegar við sáum ferilskrána þína, ekki satt, Reynir?“
Reynir virtist alveg geta hamið spennu sína en kinkaði samt kolli til Kormáks.
„Það er alltaf bitist um brauðin hér á höfuðborgarsvæðinu,“ sagði Reynir og klappaði á bunka af starfsumsóknum sem lá á borðinu. „Sjálfum finnst mér að það ætti að vera hluti af guð fræðináminu að þjóna í nokkur ár í smærri sóknum úti á landi, eins og ég gerði sjálfur, við heimskautsbaug!“
„Heimskautsbaug?“ át Sif upp eftir honum.
„Já, heldur betur, ég starfaði í marga mánuði á Raufarhöfn eftir útskrift, í fallegu litlu kirkjunni hans Guðjóns Samúelssonar. Hefurðu athugað, væna mín, hvort það vanti kannski prest á Raufarhöfn? Það er bráðnauðsynlegt fyrir nýjan prest að kynnast okkar minnstu bræðrum í dýpstu og dimmustu dölunum.“
„Bræðrum, systrum, systkinum, já, já, en aðstæður fólks eru alls konar og bjóða ekki alltaf upp á það að flytja út á land,“ greip Kormákur fram í og Sif kinkaði þakklát kolli. Hún efaðist um að fólkið á Raufarhöfn kynni að meta þessa lýsingu Reynis. Og hún gat ekki flutt út á land. Matti átti pabba og föðurfjölskyldu í borginni.
„Þetta er frábær sókn, verð ég að segja,“ sagði Kormákur ákafur. Augun tindruðu af áhuga og hann baðaði út höndum um leið og hann tyllti sér á skrifborðsenda Reynis. „Kirkjan sjálf er að vísu ekki alveg í toppstandi – ég slasaði mig aðeins hérna í gær þegar skökk skáphurð hrökk framan í mig!“ Hann hló og benti á glóðaraugað. „En við Reynir erum með margt á prjónunum og okkur veitir ekki af ferskum liðsauka! Ég var sérstaklega spenntur að sjá hvað þú hefur fjölbreytta reynslu í gegnum sumarstörf. Útfararstofan, lögreglan, hjúkrunarheimilið, leikskólinn – þetta er allt þarna! Og svo varstu formaður Félags guðfræðinema? Það bendir nú til leiðtogahæfileika, ekki satt, Reynir?“
Ólíkt Reyni virtist Kormákur ekki bara hafa lesið ferilskrána hennar heldur þótt mikið til koma. Sif rétti úr sér og leið betur. Hún hafði klætt sig snyrtilega um morguninn, í dökkbláan kjól og ljósa peysu sem hún hafði keypt á nytjamarkaði og verið dálítið ánægð með. Hún var ekki vön að láta mikið á sér bera en nú fannst henni hún næstum óþarflega látlaus þegar hún mætti þessum jákvæðu viðbrögðum Kormáks.
Kormákur fór að þylja upp ýmis verkefni sem verið var að ýta úr vör í sókninni. Sif kinkaði kolli á meðan hann lýsti nýjungum í ungmennastarfi, aukinni þjónustu við foreldra ungra barna og tengingu við hjúkrunarheimili hverfisins. Hún greip inn í með orði og orði þegar henni fannst hún geta lagt eitthvað gagnlegt til málanna en séra Reynir lét nægja að rymja öðru hverju og kinka kolli.
„Kirkja á auðvitað að vera meira en bygging og bjalla,“ sagði Kormákur og brosti. „Við eigum að vera hjarta hverfisins!“
Sif skildi nú vel hvað Reynir hafði talað fallega um Kormák. Sennilega hafði kirkjustarfið hér verið dálítið trénað en nú var að koma inn nýtt fólk með nýjar hugmyndir sem gat tosað séra Reyni upp úr hjólförunum.
Og hún var uppfull af ferskum hugmyndum og vildi svo sannarlega verða eitt af þessu nýja fólki.
Hún gaut augunum aftur á hvíta kirkjubygginguna. Einhvers staðar hringdi sími og það reyndist vera í rassvasa
Kormáks sem stóð upp frá borðshorninu og horfði á skjáinn með hleyptum brúnum. „Ég verð víst að taka þetta,“ sagði hann.
„Gott að sjá þig, Sif! Við sjáumst örugglega aftur!“
Sími Reynis hringdi um leið og dyrnar lokuðust á eftir Kormáki. Hann leit á númerið og stundi, virtist íhuga að hunsa símtalið en hætti svo við. „Afsakaðu mig augnablik,“ sagði hann svo og sneri sér 180 gráður í leðurklæddum skrifborðsstólnum.
„Sæl vertu, Kolbrún,“ sagði hann í símann. „Ég er á fundi …“ Hann þagði stutta stund og Sif heyrði óm af kvenmannsrödd sem greinilega var mikið niðri fyrir. „Já. Já, já, en þú verður að skilja að hér er mjög mikið að gera og drengurinn telst nú orðinn fullorðinn og þótt hann komi ekki heim yfir nótt … Já. Já. Nei, nei. Hefur þú íhugað að hringja í vinalínu Rauða krossins, Kolbrún mín? Það mætti reyna það svona á meðan þú bíður. Ég heyri í þér á eftir. Kíki kannski í kaffi!“
Hann lagði á án þess að kveðja og leit svo mæðulegur á Sif.
„Eins og þú sérð er gríðarlega mikið áreiti hér hjá okkar starfsfólki,“ sagði hann með alvöruþunga. „Mæður með áhyggjur af uppkomnum börnum fram eftir öllum aldri. Og stundum finnst mér, væna mín, að það verði ekki nokkrum karli hér í hverfinu misratað á vegi dyggðarinnar án þess að frúin hringi í mig til þess að fá aðkomu þjóðkirkjunnar að því máli.“
„Ég skil,“ sagði Sif og var strax farin að sakna Kormáks. „Þessi hluti starfsins hefur auðvitað breyst mikið á síðustu árum og áratugum?“
„Breyst! Heldur betur!“ sagði séra Reynir. „Sóknarbörnum hefur kannski fækkað og fólk nennir ekki í messu nema að vígt vatn og barnshöfuð komi við sögu. En þau sem eftir standa eru heldur betur kröfuharðir neytendur!“ Hann hristi höfuðið.
„Þegar ég var ungur þá var fólk ekki að ónáða sinn sóknarprest nema eitthvað hefði farið verulega úrskeiðis. Andlát þá helst.“ Hann andvarpaði þungan. „En fólk er orðið gríðarlega tilætlunarsamt í seinni tíð.“ Hann bandaði hendinni í átt til Sifjar.
„Þú treystir þér væntanlega í allt svoleiðis?“ spurði hann. „Að hugga mæður þegar unglingarnir þeirra láta sig hverfa yfir nótt? Að útskýra sjöunda boðorðið fyrir mönnum sem detta í það á íþróttabörum?“
Sif taldi á puttunum undir borðinu. Hún mundi ekki nákvæmlega röðina, þótt samhengið gæfi sterkar vísbendingar hérna.
„Jú, ég hef auðvitað reynslu af …“ Hún þagnaði.
Þessar drunur? Voru þær eðlilegar? Kannski eitthvað í loftræstingunni eða þungavinnuvél að keyra fram hjá?
„Engar áhyggjur, væna mín,“ sagði séra Reynir glaðlega.
„Þetta gerist á bestu bæjum. Við erum víst öll hold, það er fátt eðlilegra en heilbrigðar þarmahreyfin …“
Þá kom höggið.
Jarðskjálfti. Og hann var stór. Ekki einn af þessum sem var búinn um leið og maður hafði áttað sig á að hann hefði byrjað. Séra Reynir var aðeins lengur að kveikja á perunni en svo spratt hann upp úr stólnum sínum. Sif sat hins vegar sem fastast, læsti fingrunum um stólarmana og skimaði um skrifstofuna. Hún sat undir burðarvegg. Það var gluggi nálægt henni sem gæti sprungið, það var áhætta en varla neitt sem yrði verulega hættulegt.
Matti. Hvar var Matti?
Tilfinningin blossaði upp innra með henni, eitthvað frumstætt eðli sagði henni að hún ætti að vera með ungann sinn undir vængnum einmitt núna.
Frumstætt eðli séra Reynis virtist hins vegar segja honum eitthvað allt annað, hann hafði tekið stefnuna út úr skrifstofunni og stóð nú áttavilltur í gættinni.
Skjálftinn magnaðist og Sif fann hvernig jörðin skalf og hún skalf sjálf. Hryggjarliðirnir nötruðu. Úti tóku kirkjuklukkurnar að slá óreglulegt stef.
Ætlaði aldrei að hætta að skjálfa? Eitthvað hafði verið um skjálftavirkni undanfarið og veðurstofan reglulega sent út tilkynningar um að sennilega styttist í nýtt eldgos, en skjálftarnir höfðu hvorki verið svona stórir né langir.
Loksins stilltist jörðin að nýju.
Í bili. Eflaust kæmu eftirskjálftar.
Sif andaði frá sér og rétti varlega úr krepptum fingrunum.
„Vá,“ hvíslaði hún. Hún hafði aldrei upplifað svona stóran skjálfta áður.
Það vældi eitthvað í séra Reyni sem stóð fölur í dyrunum að skrifstofunni og virtist enn ekki vita í hvora áttina hann stefndi.
„Við ættum að fara út,“ sagði Sif og fálmaði í kjólvasann eftir símanum sínum. „Ef það kemur annar skjálfti væri sennilega betra að vera úti á lóðinni. Og ég verð að hringja í strákinn minn.“
„Einmitt,“ tafsaði Reynir. „Ég er að hugsa um, sjáðu til, að hringja á Veðurstofuna til þess að kanna hvers eðlis þessi viðburður var, þetta málefni er þannig að við kirkjunnar þjónar þurfum að geta svarað fyrirspurnum ef …“
Hringja á Veðurstofuna? Sif vissi að þjóðin fór alltaf öll sem ein á vef Veðurstofunnar um leið og eitthvað skalf til að fá að vita upptök og styrk skjálftanna. Hún hafði ekki kynnst fólki sem hringdi þangað áður. Ekki hafði hún heldur heyrt um að fólk hringdi í sinn sóknarprest við þau tilefni.
Hún reyndi að hringja í Matta en náði ekki í gegn. Sennilega var yfirálag á símkerfinu. Vonandi bara það. Hvar hafði sumarnámskeiðið hans aftur átt að vera í dag? Í Húsdýragarðinum?
Þau séra Reynir gengu saman út á stétt safnaðarheimilisins. Hann hélt símanum við eyrað en náði engu sambandi við Veðurstofuna. Sif horfði yfir hverfið og var næstum því hissa að sjá öll húsin standa enn. Hún sá moldarstróka í hlíðum Esjunnar – grjóthrun. Vonandi hafði allt göngufólk sloppið.
Hún gafst sjálf upp á að reyna að hringja og sendi Matta skilaboð. Er allt í lagi, elskan?
Svarið kom ótrúlega fljótt, eins og Matti hefði verið með símann í höndunum. Þetta var GEÐVEIkt! Á eftir fylgdu fjölmörg tjákn sem virtust eiga að túlka spennu hans yfir skjálftanum. Enginn hræddur kall og enginn slasaður kall. Allt í góðu þá?
Ætti hún að hringja í foreldra sína? Það var ýmislegt sem hefði getað hrunið yfir mömmu hennar og ef hún þekkti pabba sinn rétt þá var hann sennilega í, undir eða ofan á einhverri bíldruslu með skiptilykil á lofti. Ef hann var þá ekki áfengisdauður á sófanum.
Hún lét nægja að senda þeim báðum: Allt í góðu hjá ykkur? Bætti svo við: Eßir skjálßann, meina ég? Það var svo sem sjaldnast „allt í góðu“ hjá foreldrum hennar.
Hversu slæmt hafði þetta verið?
Var skjálftinn kannski minni en henni hafði fundist hann vera þarna inni í ókunnugu safnaðarheimilinu þar sem kertastjakar skulfu á krókum um alla veggi?
Hún opnaði fréttamiðlana í símanum sínum en þeir gátu ekkert sagt henni annað en að stór skjálfti hefði orðið á suðvesturhorninu en engin merki væru samt um gosóróa. Beðið væri eftir nákvæmum tölum og frekari upplýsingum frá Veðurstofu og Almannavörnum.
„Já,“ sagði séra Reynir og virtist vera að ná sér. „Við getum kannski bara klárað viðtalið hér undir berum himni, það er ekkert því til fyrirstöðu, er það nokkuð?“
Sif leit í kringum sig. Á milli kirkjunnar og safnaðarheimilisins var fallegur garður, sem bar þess þó vitni að her vinnuskólans ætti eftir að koma þar við, setja niður sumarblóm og jafnvel kíkja á arfann í beðunum undir smávöxnum trjánum. Þótt það væri komið fram í júní hefði hún viljað hafa peysuna sína en hún hafði gleymst inni á skrifstofu prestsins.
„Ástæðan fyrir því að ég kallaði þig inn í viðtal, þótt þú sért auðvitað óvígð og óreynd, já, svona aðalástæðan …“
Sif beið spennt eftir að heyra hvað af ferilskránni hafði náði til Reynis, og jú, Kormáks. Hún hafði lagt mikið á sig til að vera sem bestur kandídat í svona starf. Hún hafði staðið sig vel í námi, unnið sjálfboðavinnu tengda starfinu, byggt upp gott tengslanet og sumarstörfin höfðu markvisst snúið að undirbúningi fyrir hinar margvíslegu hliðar prestsstarfsins.
Séra Reynir skimaði í kringum sig og hún fékk á tilfinninguna að hann væri að leita að borði og stólum til að halda viðtalinu áfram.
„Þú, væna mín,“ sagði hann svo þegar hann sneri sér að henni aftur. „Þú spilar á gítar, segir þú, í umsókninni þinni.“
Sif brosti. Yfirmaður hennar á leikskólanum hafði líka gripið þetta tiltekna atriði upp úr ferilskránni þegar hún var ráðin þangað og hún spilaði undir söng leikskólabarnanna flesta daga.
„Já, ég er sjálflærð á gítar en hef spilað síðan ég var krakki,“ sagði hún. „Svo tók ég allt sem ég gat í sálgæslu og aukakúrsa í sálfræði og uppeldisfræði. Ég hef unnið sjálfboðastarf með jaðarhópum í gegnum allt námið og eins og þú hefur kannski séð þá var lokaverkefnið mitt um mikilvægi −“
„Gott mál, gott mál,“ sagði Reynir. „Við eigum nefnilega þennan fína gítar. Keyptan fyrir samskot sóknarinnar, get ég sagt þér. Ég réð svo hingað gutta síðasta vetur til að sjá um sunnudagaskólann, sá sagðist geta glamrað eitthvað, en það varð nú ekki mikið úr því hjá honum, blessuðum, og þetta datt allt saman upp fyrir.“
„Svo, Kormákur, hann spilar þá ekki á gítar?“ missti Sif út úr sér.
Séra Reynir starði á hana með vanþóknun. „Ég held að við getum nú ekki beðið mann eins og Kormák að taka að sér að gutla á gítar,“ hnussaði í honum. „Kanntu á Fésbók?“
„Jú, jú …“ svaraði Sif. „Er virkni á samfélagsmiðlum sem sagt hluti af starfinu?“
„Æ, hann Kormákur segir mér að kirkjan þurfi að eiga Fésbókarsíðu,“ andvarpaði séra Reynir. „Fyrir tilkynningar, auglýsingar og jafnvel …“ hann hryllti sig, „skemmtisögur og skrípómyndir eða eitthvað slíkt. Ég vil ekkert með þetta hafa, þú skilur, en ef þetta er nauðsyn fyrir kirkjuna okkar – og ekki ætla ég að neita því að þjóðkirkjan sé aðþrengd, samanber ræðu mína á síðustu prestastefnu, minntu mig á að afhenda þér eintak á eftir – þá vil ég frekar að þessi apparöt séu í höndunum á einhverjum sem ég get treyst.“
„Ég gæti vel haldið utan um síðu sóknarinnar,“ sagði Sif. „Við höfum líka möguleika á að nýta aðra samfélagsmiðla, sérstaklega ef markmiðið er að ná til unga fólksins. Ég hef góð tök á hinum ýmsu miðlum og þekki ágætlega til þess sem unglingarnir eru að fást við.“ Þetta var kannski ofmælt en hún hlaut að geta horft á einhver kennslumyndbönd á kvöldin.
Séra Reynir var þögull um stund en horfði svo stíft á hana að Sif var næstum búin að missa kurteislegt brosið af andlitinu. Hún átti óskaplega bágt með að gera sér grein fyrir hvert þetta viðtal væri að fara og hvernig hún stæði sig í augum prestsins.
Aftur heyrðist daufur ómur frá kirkjuklukkunum. Sif leit í kringum sig. Eftirskjálfti. Það var eitthvað svo fjarstæðukennt að halda viðtalinu áfram við þessar aðstæður.
Séra Reynir virtist ekki hafa tekið eftir neinu. Hann horfðist í augu við hana undan þungum brúnum. „Sif. Prófskírteinin þín líta vel út. Starfsreynsla þín er fjölbreytt og með ágætum. En til að vera alveg heiðarlegur – þið eruð öll með góðar einkunnir. Þið hafið öll fjölbreyttan bakgrunn. Umsóknir eins og þína er ég með í bunkum.“
Sif dró andann djúpt. Vonbrigðin stungu sárt. „Ég geri mér grein fyrir að það er mikil ásókn í starfið …“
Séra Reynir var ekki búinn. „En Sif. Kæra Sif. Hann brosti breitt. „Ég verð að trúa þér fyrir einu. Það er fátt sem jafnast á við klerk sem leikur á gítar.“
Sif starði skilningsvana á prestinn í nokkrar sekúndur en mætti svo breiðu brosi hans. Hún átti enn möguleika. „Já,“ sagði hún, „ég spila, ég meina, leik á gítar!“
„Segjum þetta bara gott í bili,“ sagði séra Reynir. „En áður en þú ferð skal ég sýna þér kirkjuna mína. Þú þarf nú að hafa rekið nefið aðeins inn.“ Hann leit í kringum sig. „Það hlýtur að vera óhætt, það kemur varla annar skjálfti úr þessu, ha? Við kíkjum inn.“
Anddyri kirkjunnar var stórt, greinilega hugsað til að þar gæti fólk safnast saman að athöfn lokinni. Enn fleiri kertastjakar í öllum stærðum og gerðum tóku þó óþarflega mikið pláss. Sumir þeirra lágu á gólfinu og höfðu greinilega oltið um koll eða hrunið af veggjum í jarðskjálftanum.
Séra Reynir tók eftir að hún horfði á þá. „Mér þykir vænt um kertastjaka,“ sagði hann hreykinn. „Alltof margir hafa fórnað þeim á altari rafmagnsins vegna eldhættu og kirkjunnar menn vita að þá má senda til mín. Við Kormákur erum að vinna að umsókn um styrk til að fá byggt utan um safnið. Það væri alveg prýðilegt að fá smáhýsi hér á lóðina. Kormákur stakk upp á glerhýsi, svo söfnuðurinn gæti notið þess að horfa á stjakana á göngutúrum sínum um hverfið.“
Reynir ýtti upp tvöföldum dyrum sem lágu inn í kirkjuskipið á meðan hann talaði. Hátt var til lofts í kirkjunni og miklir þakgluggar hleyptu birtu inn í rýmið. Kirkjan rúmaði greinilega fjölmennar athafnir.
Sif horfði í kringum sig á meðan hún flýtti sér á eftir Reyni og leyfði sér að láta sig dreyma, þótt hún væri enn skekin eftir skjálftann.
Kirkjan hennar?
Einhvers staðar heyrðist lágt suð. Sif fálmaði eftir símanum sínum en hann var þögull. Að lokum kom hún auga á uppsprettu suðsins, hvítan ryksuguróbóta sem læddist rólega á milli öftustu sætaraðanna.
„Já, þetta var nú ein hugmyndin hans Kormáks,“ sagði séra Reynir þegar hann sá hvert hún horfði. „Þegar hún Svala okkar gamla var látin hætta í skúringunum nú fyrir páska, aðeins sjötíu og átta ára gömul,“ hélt séra Reynir áfram, „og í hennar stað kom alls konar óhæft fólk frá ræstingafyrirtæki með háværar ryksugur og moppur sem aldrei var hægt að treysta á … Blessaður drengurinn er svo lausnamiðaður! Hann mætti bara einn daginn með kassann í fanginu! Þetta er hátækniapparat, ryksugar teppin og skúrar flísarnar og við gátum snarfækkað heimsóknunum frá ræstingafyrirtækinu, get ég sagt þér.“ Hann horfði á ryksuguvélmennið með velþóknun. „Hann Kormákur getur skipað henni til verka beint úr símanum sínum! Hún er auðvitað indæliskona hún Svala okkar, en ég verð að segja það að hún Marta tekur öllu styttri kaffipásur og hefur minni áhuga á kjaftasögum um einkalíf sóknarbarna!“
„Marta?“ sagði Sif.
Presturinn bandaði í átt að ryksugunni. „Nú, tækniundrið er nefnt eftir henni Mörtu úr Lúkasarguðspjalli,“ sagði hann. „Þú manst eftir Mörtu, ekki satt?“
Sif fór að svitna undan þessu óvænta Biblíuprófi. „Jú, auðvitað, ég …“
„Marta. Systir Lasarusar? Þú manst kannski versin?“ sagði séra Reynir. „Um Mörtu og systur hennar, Maríu? María sat við fótskör Krists og hlustaði á hann tala. Á meðan var Marta að sinna gestunum, sjálfsagt var hún að taka til mat og leggja á borð og svona sem konur gera …“
„Ha …?“ hvíslaði Sif. „Svona sem konur …“ En jú, sennilega höfðu karlar lítið lagt á borð þarna í kringum árið 30?
„Manstu versið, væna mín?“ kvakaði séra Reynir. Hann ruggaði sér fram og aftur og virtist hinn ánægðasti með að reka hana á gat.
„Ekki kannski orðrétt en auðvitað þekki ég söguna,“ sagði Sif. „Marta kvartaði við Jesú, henni fannst ósanngjarnt að hún þyrfti að sjá ein um allt saman.“
„Hárrétt, góða. Marta var að sjá um allt saman á meðan María sat og hlustaði á Jesú. Marta bað Jesú að segja Maríu systur sinni að hjálpa sér. En Drottinn svaraði henni og sagði …?“
Sif stóð á gati en séra Reynir lét hana ekki svitna lengi áður en hann brýndi raustina og vitnaði í ritninguna.
„Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu.“ Presturinn brosti breitt. „Þess vegna fannst mér, já, okkur Kormáki, alveg tilvalið að nefna þessa indælu tækniskepnu Mörtu. Hún mæðist vissulega í mörgu!“
Ryksugan brunaði í áttina að þeim og pípti þrisvar, sennilega að kvarta yfir að þau stæðu í vegi hennar. Sif sá að einhver hafði límt tvö plastaugu ofan á kollinn á henni. Sennilega Kormákur? Hún gat ekki ímyndað sér að það hefði verið séra Reynir.
„Skírnarfonturinn okkar er sérsmíðaður af listakonu eftir einhverja samkeppni sem var haldin þegar kirkjan var byggð. Lindu eitthvað, minnir mig,“ sagði séra Reynir sem hafði stigið yfir Mörtu og strunsað af stað inn í kirkjuna. Hann virtist alltaf vilja vera nokkrum skrefum á undan henni. „Og altaristöfluna smíðaði merkismaðurinn Guðmundur Markússon, það vill svo til að hann er náfrændi hans Kormáks skal ég segja þér, tengdasonur langafasystur ef ég man rétt …“ Hann skimaði í kringum sig og tók upp símann. „Ég sé hann Kormák minn hvergi – ég hringi bara í hann, hann hlýtur að vera hérna einhvers staðar … Hann getur sagt þér meira um þetta.“
Reynir beið með símann við eyrað og starði einbeittur fram fyrir sig á kertastjaka sem sat skakkur á súlu rétt fyrir framan nefin á þeim. Sif kreppti hnefana til að hindra sig frá því að rétta hann við. Það var ekki búið að ráða hana enn. Út undan sér sá hún ryksuguna stefna í hleðslu undir bekk aftast í kirkjunni.
Klassískt stef sem henni fannst hún eiga að þekkja hljómaði einhvers staðar að. Séra Reynir brosti. „Sko!“ sagði hann. „Hann Kormákur er sennilega of upptekinn til að svara, blessaður! Nú rennum við bara á hljóðið!“
Hann þrammaði af stað inn kirkjugólfið og Sif elti. Hún mændi í kringum sig á steindu gluggana og útskorna kirkjubekki. Og, jú, hér voru líka kertastjakar. Út um allt, og fóru kirkjunni ekki vel. Hún hugsaði hlýlega til Kormáks. Þetta var lúmsk hugmynd hjá honum, að byggja hýsi undir þetta sérviskulega verkefni séra Reynis og koma stjökunum þar með burt úr kirkjunni.
Séra Reynir stoppaði snöggt og starði fram fyrir sig. Sif rak nefið næstum í bakið á honum en náði að sveigja frá og tölta upp að hlið hans. Og starði líka.
Kormákur lá á tröppunum vinstra megin við altarið. Risastórt sár var á gagnauganu og blóðtaumar höfðu lekið niður tröppurnar. Augun voru opin. Við hlið hans lá risastór kertakróna sem hafði greinilega hrunið niður úr loftinu við jarðskjálftann.