Inga er framan á forsíðu Vikunnar og gerir upp stóra skómálið svokallaða, þegar hún hringdi í skólastjóra Borgarholtsskóla vegna týnds Nike-skópars barnabarns hennar og var Inga sögð hafa minnt á áhrif sín í samfélaginu og tengsl við lögreglu. Skórnir fundust á endanum.
Málið vakti talsverða athygli í byrjun árs, en Inga segir að barnabarn hennar hafi ekki þorað að mæta í skólann síðan.
„Ég hefði getað keypt hundrað pör af skóm handa honum. Það snýst ekki um það. Það snýst bara um það hvort það megi stela af fólki og láta það átölulaust,“ segir Inga í Vikunni.
„Það hefur enginn fjölmiðill, enginn einasti fjölmiðill, farið í það hvaða afleiðingar það hafði fyrir 16 ára pilt að trúnaður í þessu persónulegu símtali var rofinn og það bitnaði eingöngu á þeim sem síst skyldi. 16 ára drengur sem langaði að verða pípari og var á annarri önninni sinni í framhaldsskóla hefur aldrei stigið fæti inn í skólann aftur. Aldrei. Þessi drengur var eyrnamerktur sem ömmustrákur ráðherrans sem hringdi í skólastjórann. Bite me Blondie eins og ég segi oft.“