
Unnið er ötullega að því að reist verði nýtt íþróttamannvirki á íþróttasvæðinu í Kópavogsdal. Það er Skautasamband Íslands sem hefur beitt sér fyrir þessu en á í samvinnu um það við fleiri aðila. Hugmyndin er að í húsinu verði fjórða skautahöll landsins en þar að auki aðstaða fyrir fleiri íþróttagreinar og þá ekki síst þær sem skortir sárlega betri aðstöðu. Þörf á höfuðborgarsvæðinu fyrir nýja aðstöðu fyrir ísíþróttir er sögð mikil þar sem sú aðstaða sem fyrir hendi sé í Egilshöll og Skautahöllinni í Laugardal anni ekki eftirspurn og ekki komist lengur öll að sem vilji.
Þóra Gunnarsdóttir stýrir þróunar- og útbreiðslumálum hjá Skautasambandinu og hefur haft veg og vanda af verkefninu fyrir hönd þess. Hún segir þá tíma liðna að íþróttamannvirki séu byggð fyrir eina íþróttagrein. Mannvirkið muni tvímælalaust auka fjölbreytni í íþróttaflórunni á svæðinu og vonir standi til að Breiðablik stofni skautadeild þegar byggingin rísi. Þóra segir mikinn velvilja til staðar hjá Kópavogsbæ, tillögur, í væntanlegri samkeppni um frekari uppbyggingu á svæðinu, um svona mannvirki verði lagðar fram og minnir á að lengi hafi verið mikill áhugi fyrir því meðal íbúa í Kópavogi að koma upp aðstöðu í bænum þar sem hægt sé að skauta.
Eins og DV greindi frá í október síðastliðnum hafnaði skipulags- og umhverfisráð Kópavogs umsókn sem Þóra lagði fram fyrir hönd Skautasambandsins um breytingu á deiliskipulagi Kópavogsdals. Tillagan gekk út á að byggð yrði fjölnota íþróttamiðstöð á bílastæði á milli Smáraskóla, Kópavogsvallar og Sporthússins en að í staðinn yrði bílakjallari undir byggingunni. Samkvæmt tillögunni átti í mannvirkinu að vera í fyrsta lagi skautahöll með aðstöðu fyrir íshokkí, listhlaup á skautum, samhæfðan skautadans, skautahlaup og krullu. Hugmyndin gekk einnig út að í nýja húsinu yrði aðstaða fyrir „jaðaríþróttir“ og voru þá nefnd skylmingar, skotfimi, bogfimi, pílukast og keila. Jafnframt var gert ráð fyrir aðstöðu fyrir utan húsið fyrir bæði línuskauta og skautasvell.

Umsókninni um breytinguna á deiliskipulaginu var hafnað og þá einna helst með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa sem lagði til meðal annars að deiliskipulag Kópavogsdals yrði endurskoðað og á meðan væri ekki tímabært að taka afstöðu til einstakra umsókna um breytingar á því.
Á myndunum hér fyrir neðan úr umsókn Skautasambandsins má gera sér glöggari grein fyrir hugmyndum um hvernig nýja mannvirkið gæti litið út og samhengi þess við þau sem fyrir eru en það er arkitektastofan Yrki sem teiknaði myndirnar.


Þrátt fyrir synjunina í október virðast hins vegar þessar hugmyndir alls ekki hafa verið slegnar út af borðinu og engan uppgjafartón er að heyra frá áðurnefndri Þóru Gunnarsdóttur hjá Skautasambandinu.
Í samtali við DV segir Þóra að lítið sé eftir af byggingarlandi í Kópavogsdal en það sé hennar skilningur að Kópavogsbær hafi áhuga á því að reyna að auka fjölbreytni í þjónustu fyrir bæjarbúa, á þessu svæði:
„Það er svona mín tilfinning að það sé ekki stefnan að vera að fara að taka meira land undir fótboltavelli þarna niður frá, heldur kannski frekar einhvern veginn öðruvísi íþróttaiðkun.“
Þóra minnir á eins og gert var í umsókninni að starfshópur um framtíð Kópavogsdals lagði einmitt til á síðasta ári að skoða hugmyndir um að byggja skautahöll ofan á bílastæðahús, í dalnum. Síðan hafi Skautasambandið látið setja þessa hugmynd hópsins í myndrænt form.
Þóra segir að hún og samstarfsfólk hennar hafi hugsað til stöðu allra foreldra í Hafnarfirði, Kópavogi og Garðabæ sem þurfi að keyra börn sín sem stunda ísíþróttir til Reykjavíkur. Sjálf þurfti hún í mörg ár að keyra dætur sínar heiman frá þeim í Kópavogi á skautaæfingar í Reykjavík, stundum tvisvar á dag.
Vandinn sé líka sá að þegar börnin séu farin að komast lengra í skautaíþróttum en bara að læra grunnatriðin fari æfingar oft fram á þeim tímum dags sem foreldrar séu enn í vinnu. Skautafélögin séu flest ekki félög sem þjóni eingöngu tilteknu hverfi eins og flest íþróttafélög heldur mun stærra svæði og þegar börn af öllu höfuðborgarsvæðinu þurfi að fara í skautahallirnar tvær sem til eru sé fjarlægðin fyrir börnin og fjölskyldur þeirra orðinn töluverður þröskuldur. Þegar börnin séu komin lengra og æfingarnar á óheppilegum tíma sé orðið erfitt fyrir þau að halda áfram vegna álagsins á foreldranna.
Þóra segir að á bilinu 200-250 iðkendur úr Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ og Mosfellsbæ hafi verið að stunda ísíþróttir hjá félögum í Reykjavík á hverju ári síðustu ár. Það auki enn á fjölda iðkenda og aðstaðan í borginni standi vart undir iðkendafjöldanum og það hamli allri framþróun greinanna hér á landi ef aðstaðan sem sé til staðar anni ekki fjöldanum. Íþróttirnar sé ekki hægt að iðka án aðstöðu en engir iðkendur komi ef engin aðstaða sé fyrir hendi og bæjarfélög hefji ekki uppbyggingu nema til staðar séu iðkendur hjá félagi í viðkomandi bæ. Hvernig eigi hins vegar að fá iðkendur í viðkomandi félög ef engin ís sé til að skauta á? Þetta sé þó orðin ansi snúin staða og stjórnendur margra bæjarfélaga virðist oft sýna þessu lítinn skilning.
Þóra segir ljóst að þau íþróttafélög sem bjóði upp á ísíþróttir í Reykjavík, Fjölnir, Ösp og Skautafélag Reykjavíkur anni vart eftirspurn. Til að mynda séu á bilinu 500 til 600 iðkendur í listskautadeildinni í Skautafélagi Reykjavíkur og deildin taki ekki inn nýja iðkendur nema einhver hætti eða geti ekki borgað æfingagjöld:
„Það er náttúrulega bara alveg ömurlegt að í landi sem heitir Ísland, að það sé ekki hægt að iðka ísíþróttir.“
Ef ný aðstaða verði byggð upp í Kópavogi sem áðurnefndir iðkendur úr nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur geti nýtt sér muni það án efa stuðla að auknum fjölda iðkenda í ísíþróttum í bæjarfélögunum og um leið létta álaginu á félögunum í Reykjavík.
Þóra segist finna fyrir miklum velvilja hjá starfsfólki Kópavogsbæjar í garð hugmynda Skautasambandsins um mannvirki sem yrði skautahöll en einnig fyrir fleiri greinar. Kjörnir fulltrúar bæjarins þurfi þó meiri upplýsingar og undirbúning frá starfsfólkinu til að geta tekið afstöðu til hugmyndanna. Sambandið hafi þó fengið í gegnum verkefnið Betri Kópavogur fjármagn til að búa til skautasvell utandyra í Kópavogsdal fyrir næsta vetur og hún sé nú að vinna að því.
Þegar svellið sé komið sé hægt að sýna stjórnmálamönnum í Kópavogi að ísíþróttir eigi sannarlega heima í bænum.
Þóra telur það liðna tíð að fjármagn til uppbyggingar íþróttamannvirkja sé nýtt til að reisa byggingar fyrir aðeins eina íþróttagrein og segir þetta sjónarmið eiga sér hljómgrunn innan Íþróttasambands Íslands (ÍSÍ). Það verði að finna leiðir til byggja mannvirki sem nýtist sem flestum greinum og setja þar inn greinar sem séu mjög sérhæfðar og þurfi mjög sérhæfða aðstöðu, eins og til dæmis ísíþróttir. .
Þótt ísíþróttirnar standi næst hjarta Þóru og annarra hjá Skautasambandinu þá má ekki gleyma að hugmyndir þess ganga út á að fleiri íþróttagreinar fái rými í þeirri byggingu sem vonir standa til að rísi í Kópavogi. Hún segir aðspurð að önnur sérsambönd innan ÍSÍ, ekki að vera að vinna með Skautasambandinu að þessum hugmyndum nema þó Íshokkísamband Íslands en samböndin eigi í mjög nánu samstarfi um mannvirkjamál. Hvað varðar aðrar greinar byggi þetta mest á óformlegum samtölum en hún hafi til að mynda verið í góðu sambandi við aðila innan klifur- og hjólabrettahreyfinganna sem hafi mikinn áhuga á svona hugmyndum um uppbyggingu sameiginlegrar aðstöðu fyrir íþróttagreinar sem séu á jaðrinum og glími margar hverjar við skort á aðstöðu.
Þóra bætir við að aðstaða Sporthússins í Kópavogsdal gæti nýst vel fyrir allar greinarnar sem fengju aðstöðu í nýja mannvirkinu, ekki síst fyrir styrktarþjálfun.
Aðspurð um hvort Kópavogsdalur sé eina svæðið í Kópavogi sem komi til greina segir Þóra svo vera ef byggingin eigi að vera fjölnota en ef hún eigi bara að vera skautahöll sé hægt að reisa hana annars staðar. Hún ítrekar hins vegar þá skoðun sína að fjölnota íþróttamannvirki séu framtíðin og það sé peningasóun að hafa þau bara fyrir eina eða örfáar greinar:
„Við höfum ekkert af landrými og við höfum ekki aðstöðuna til þess, þá er alltaf fjölmennasta greinin að fara að vinna. Það eru alltaf þeir sem að ná flestum iðkendum inn að fara að fá mestu mannvirkin.“
Þá muni greinar eins og ísíþróttir sem þurfi mjög sérhæfða aðstöðu alltaf sitja eftir ef iðkendafjöldi sé alltaf látinn ráða og að fjölmennustu greinarnar fái mannvirki bara fyrir sig.
Glöggir lesendur vita eflaust hvaða íþróttagrein á Íslandi er með flesta iðkendur og hefur flest mannvirki á landinu sem sérstaklega eru ætluð henni.
Á fullveldisdaginn var tilkynnt hvaða íþróttamenn fá fyrstu úthlutun úr launasjóði íþróttafólks en sjóðurinn gerir íslenskum íþróttamönnum sem eru afreksfólk í einstaklingsgreinum kleift að fá greidd laun fyrir að stunda þær. Meðal þeirra sem fengu úthlutun eru Júlía Sylvía Gunnarsdóttir og Manuel Plazza sem munu keppa fyrir Íslands hönd á Evrópumeistaramótinu, í parakeppni, á listskautum í janúar næstkomandi.
Þau kepptu einnig á síðasta Evrópumóti og ekki hefur Íslendingum tekist áður að komast svona langt í þessari íþróttagrein. Þóra segir að það hafi tekið 30 ára þrotlaust starf skautahreyfingarnar að ná þessum árangri með þeirri aðstöðu sem hafi byggst upp á þeim tíma og með enn bættri aðstöðu sé mögulegt að gera enn betur.
Júlía Sylvía Gunnarsdóttir og Manuel Plazza stunda sína íþrótt á vegum Fjölnis sem er ungmennafélag með fjölda greina innan sinna raða, eins og Breiðablik. Það er von Skautasambandsins að Breiðablik, sem hefur sitt aðsetur í Kópavogsdal, horfi til Fjölnis sem hvatningar til að taka vel í hugmyndir sambandsins og að ísíþróttir fái sitt pláss innan félagsins.
Þóra segir málið ekki enn komið svo langt að viðræður séu hafnar við Breiðablik um að stofna skautadeild en það standi ekki til að stofna sérstakt skautafélag í Kópavogi. Það sé fyrst og fremst horft til þess að Breiðablik muni halda utan um ísíþróttirnar í Kópavogsdal enda verði félaginu líklega veittur forgangur að frekari uppbyggingu íþróttaaðstöðu í dalnum. Hún sé bjartsýn á að forsvarsfólk Breiðabliks sjái kostina við hugmyndir Skautasambandsins.
Hún minnir einnig á að hugmyndir Skautasambandsins gangi líka út á að í þessu nýja mannvirki yrði skrifstofuaðstaða sem Breiðablik gæti nýtt sér en fram hafi komið í þarfagreiningu félagsins að því vantaði slíka aðstöðu. Einnig ganga hugmyndirnar út á að koma nýrri stúku fyrir við Kópavogsvöll sem Þóra telur líklegt að félagið myndi styðja.
Til stendur að efna til hugmyndasamkeppni um framtíðaruppbyggingu í Kópavogsdal. Þóra segist fastlega eiga von á því að margar hugmyndanna sem lagðar verði fram muni innihalda mannvirki sem verði meðal annars skautahöll. Vísar hún þá til tillagna áðurnefnds starfshóps en ekki síður til yfirlýsts áhuga íbúa, sem fram hefur komið í íbúakosningum, á að hafa aðstöðu til skautaiðkunar í bænum. Bætir hún við að þegar hugmyndirnar komi fram vonist Skautasambandið til að áhugi Breiðabliks aukist, það sé framsýnt og skynsamt fólk sem stýri félaginu enda hafi það náð góðum árangri í mörgum greinum.
Þóra segist aðspurð að lokum að hún sé mjög bjartsýn á að af þessum framkvæmdum verði þótt ólíklegt sé að það verði í nákvæmlega sömu mynd og umsókn Skautasambandsins gekk út á. Sambandið og Íshokkísambandið séu í samstarfi við arkitekta sem iði í skinninu eftir því að senda sínar hugmyndir inn í þessa væntanlegu samkeppni. Arkitektarnir þekki vel til greinanna og muni án efa koma með góðar hugmyndir um nýtingu á svæðinu og samþættingu hins nýja mannvirkis við það sem fyrir sé á því.
Hún segir að til standi hjá Skautasambandinu að ræða frekar við sérsambönd þeirra íþróttagreina sem nefnd hafi verið í hugmyndum sambandsins og athuga hvort þau væru tilbúin til samstarfs. Nú þegar hafi hún rætt við Klifursamband Íslands sem hafi sýnt þessu áhuga.
Það virðist ljóst þegar rætt er að við Þóru að hún hafi mikla ástríðu fyrir þessum hugmyndum um uppbyggingu á fjölnota íþróttamannvirki í Kópavogsdal og ekki síst fyrir því að nýta það til að styrkja enn frekar grundvöll ísíþrótta á Íslandi. Það er ekki annað að heyra en að hún gangist fúslega við því:
„Þetta eru mínar ær og kýr.“