
Kristinn bendir á að veðmál séu orðin allsráðandi í íslensku samfélagi; rapparar, útvarpsmenn, hlaðvarpsstjórnendur, áhrifavaldar og fleiri þekktir menn og fyrirmyndir ungra drengja eru að auglýsa veðmál í miklum mæli. Í viðtalinu gagnrýnir Kristinn slíka aðila en líka fyrirtækin sem styrkja þessa menn samhliða veðmálafyrirtækjunum. Hann segir að það sé tvennt í stöðunni að hans mati; að annað hvort loka alfarið á veðmálasíður eða opna markaðinn undir ströngu regluverki og nota skatttekjurnar í öflugt meðferðarúrræði.
Hlustaðu á þáttinn á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum. Textabrot úr þættinum má lesa hér að neðan.
Kristinn gagnrýnir rapparana, áhrifavaldana og aðra sem auglýsa veðmálafyrirtækin, en hann gagnrýnir einnig íslensk fyrirtæki sem styðja þá aðila. Segjum ef veðmálasíða eins og Coolbet sé að styrkja áhrifavald eða hlaðvarpsstjórnanda, þá á hann við hin fyrirtækin sem eru einnig í samstarfi með aðilanum. Kristinn vill sjá fyrirtæki neita að styrkja fólk ef það er í slagtogi við ólöglegar veðmálasíður.
„Þessir aðilar eru ekki að sýna mikla samfélagslega ábyrgð […] og að fyrirtækin haldi áfram að sponsa einhvern þátt sem ýtir undir veðmálafíkn, bara því manneskjan á bak við þáttinn er svo fræg,“ segir Kristinn.
„Ef að öll fyrirtæki á Íslandi myndu draga til baka alla styrki til þess að auglýsa þessa aðila nema það verði hætt að tala um veðmál, eiturlyf og áfengi, þá held ég að þetta myndi stoppa […] Ég held að fólk myndi átta sig á að þetta er verðmætara en styrkurinn frá Coolbet, Epicbet og öðrum veðmálafyrirtækjum,“ segir hann og spyr:
„Hver eru gildin í lífinu? Er allt til sölu?“
Hann ræðir þetta nánar í þættinum sem má hlusta á hér.
Sjá einnig: Veðmálin stjórnuðu hvernig pabbahelgarnar fóru:„Þá var eins gott að þetta myndi ganga vel“