
Kristinn lýsir spilafíkn sem manískri þráhyggju sem fylgir mikil skömm, lygar og fjárhagslegt hrun. Sjálfsvígstíðni meðal spilafíkla er með þeirri hæstu í heiminum.
Vandamálið er líka hvað þetta er samþykkt. Kristinn bendir á að veðmál séu orðin allsráðandi í íslensku samfélagi; rapparar, útvarpsmenn, hlaðvarpsstjórnendur, áhrifavaldar og fleiri þekktir menn og fyrirmyndir ungra drengja eru að auglýsa veðmál í miklum mæli.
Í viðtalinu gagnrýnir Kristinn slíka aðila en líka fyrirtækin sem styrkja þessa menn samhliða veðmálafyrirtækjunum. Hann segir að það sé tvennt í stöðunni að hans mati; að annað hvort loka alfarið á veðmálasíður eða opna markaðinn undir ströngu regluverki og nota skatttekjurnar í öflugt meðferðarúrræði.
Hlustaðu á þáttinn á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum. Textabrot úr þættinum má lesa hér að neðan.
„Það er erfitt að að setja punktinn á hvar þetta byrjaði, en þetta byrjar af því að þetta er spennandi. Það er kannski einfaldasta skýringin, þetta er spennandi. Fólk í kringum mig var að veðja, fólk í kringum mig var að segjast ná árangri í þessu,“ segir Kristinn.
„Ég man að áður en ég fór að veðja og drakk, ég er edrú í dag, að þá fannst mér langmest spennandi að fara í hjólin á English Pub, mér fannst það miklu meira spennandi en að fara bara á barinn og kaupa mér einn bjór. Það heillaði mig að geta borgað X og fengið meira.“
Kristinn byrjaði ekki að þróa með sér veðmálafíkn fyrr en eftir þrítugt, þegar veðmál urðu aðgengilegri.
„Þetta byrjaði voða saklaust og umræðan í kringum þetta saklaus, engin vitneskja um afleiðingar. Engin vitneskja um hvað þetta getur gert fyrir andlega heilsu þína eða fjárhagslega heilsu að sama skapi. Ég var ekki meðvitaður um að ég gæti orðið fíkill, að eitthvað sem þú innbyrðir ekki geti haft þessi áhrif á þig.“
Kristinn var orðinn háður veðmálum um 2018. „Ég náði alveg að pása mig. Gat sett reikninginn í hlé en alltaf þegar ég opnaði hann aftur fór allur minn tími í þetta,“ segir Kristinn og bætir við að það sé auðveldara að taka sér hlé ef maður veit að það sé tímabundið.
„En ég fór svo í meðferð árið 2020. Ég var búinn að þróa með mér aðrar hliðarfíknar, áfengi og eiturlyf að hluta til, ekki í þannig magni að það var eitthvað stórt vandamál hjá mér en ég ákvað þarna að þetta væri vendipunktur.“
Kristinn hefur verið edrú síðan, af áfengi, fíkniefnum og veðmálum. Hann segir að hann líti svo á að þetta haldist allt í hendur og hann geti ekki haldið einhverju einu og losað sig við annað. Hann vildi líka ekki taka sénsinn að halda áfram að drekka og missa stjórn. „Ég er skíthræddur við veðmálin, ég er skíthræddur við að falla inn í spilafíknina aftur. Ég er skíthræddur við það þannig að ég bara leyfi mér ekki einu sinni að hugsa út í að drekka.“

„Þetta er þráhyggja, manísk þráhyggja. Þetta eru lygar, þetta er nákvæmlega eins og aðrir fíknisjúkdómar. Eini skilgreiningarmunurinn á þessu og eiturlyfjum eða áfengi er að það innbyrðu en þetta þarftu ekki að innbyrða. En þetta getur haft nákvæmlega sömu áhrif og að mínu mati hugsanlega skaðlegri áhrif því skömmin er svo miklu meiri,“ segir Kristinn.
„Þú getur ekkert falið… hvernig ætlarðu að koma fram og segja: „Heyrðu, ég spilaði öllu frá fjölskyldunni þennan mánuðinn af því að ég missti mig í í spilakössum á netinu,“ og réttlæta það fyrir maka þínum og fjölskyldu að þið eigið ekki pening út af þessu? Ég veit um hátekjumenn sem hafa spilað öllum mánaðarlaunum sínum frá sér. Sjómenn, sem fá kannski uppgert eina og hálfa milljón.“ Kristinn segist vita um einn íslenskan sjómann sem hefur nokkrum sinnum spilað öllum laununum, yfir milljón, sama dag og hann fékk útborgað.
„Hvernig á maður að geta réttlætt þetta fyrir fólki í kringum mann, ef maður er góður í grunninn en gerir þetta? Það er enginn sem samþykkir þetta því enginn skilur þetta.“
Kristinn bendir á að sjálfsvígstíðni meðal spilafíkla sé með þeim hæstu meðal fíkla í heiminum. „Yfir helmingur spilafíkla sem ánetjast þessu íhuga að taka sitt eigið líf,“ segir hann.
Kristinn segir að sem betur fer fór hann ekki á þann stað en hann hafi verið orðinn mjög örvæntingarfullur þegar hann leitaði sér aðstoðar. „Ég vissi að það væri hægt að fara í meðferð við þessu og ég á hluti sem mér er annt um í lífinu, eins og fjölskyldu mína og börn, sem ég vil vera til staðar fyrir. Því ég hef einu sinni áður verið á þessum stað að vilja taka eigið líf og áttaði mig á því þegar ég rankaði við mér eftir, við skulum segja lélega tilraun fyrir mörgum árum síðan, að þetta væri ekki þess virði. Ég missti líka pabba minn úr slíku árið 2007, þannig ég veit að þetta er engin lausn. En stundum ertu bara kominn á þann stað að þetta allt í einu fer að vera lausnin í þínu lífi. Þráhyggjan er það mikil og þú bara nærð ekki utan um þetta, þú getur ekki stoppað,“ segir Kristinn.
„Það eru margir sem glíma við þennan vanda, mér finnst veðmál vera einhvern veginn út um alt. Ég er ekki að segja að allir séu fíklar, alls ekki. Ég er ekki að fullyrða að allir sem stunda veðmál séu endilega fíklar. En þeir eru líklegri til þess að verða fíklar, líklegri til að spila öllu frá sér, líklegri til að tapa andlegri heilsu og taka eigið líf.“

Aðspurður hvort einhver tími árs sé verri en annar segir Kristinn að það hafi ekki verið raunin í hans tilfelli, en nefnir pabbahelgarnar.
„Á tímabili skildi ég við barnsmóður mína og fór út af heimilinu og þetta hafði aðallega áhrif á pabbahelgarnar, hvernig þær myndu fara fór eftir hvernig veðmálunum gekk. Hvort við myndum gera eitthvað eða ekki,“ segir hann.
„Ég fann ekki fyrir pressu á einhverjum tíma árs, jólum, páskum og svo framvegis, en ég fann fyrir pressunni fyrir komandi pabbahelgar að það væri eins gott að þetta myndi ganga vel svo að maður gæti nú gert eitthvað með krökkunum. En það komu alveg helgar það sem það gekk ekki neitt og þá gerðum við ekki neitt, bara hanga upp í sófa.“
Kristinn fær alltaf sama svarið þegar hann spyr fólk sem stundar veðmál hvað sé svona frábært við það.
„Ég fæ alltaf sama svarið: Að þegar þú ert að horfa á leik sem er ekki spennandi, það er ekkert að gerast, þá er þetta góð leið til að gera leikinn spennandi.
Hversu tilgangslaust og ömurlegt er líf þitt? Ef þú þarft raunverulega að sitja fyrir framan einhvern leik, sem er nota bene leiðinlegur, þú horfir kannski á lið sem þú heldur ekki einu sinni með. Þú ert að fara að setja peninga á þetta til þess að fá eitthvað smá adrenalín út úr þessum tiltekna viðburði. Af hverju slekkurðu bara ekki á sjónvarpinu og kveikir á einhverri bíómynd, gerir eitthvað allt annað við lífið? Farðu í ræktina eða göngu, talaðu við fjölskylduna, bara hvað sem er. Hversu leiðinlegt er líf þitt ef þetta er eina leiðin fyrir þig til þess að það sé eitthvað virði í lífi þínu? Að setjast fyrir framan sjónvarp, horfa á eitthvað sem þú hefur engan áhuga á og setja peninga á það svo það mögulega, hugsanlega gæti orðið áhugavert.“
Kristinn segir líka að ágóðinn skili sér aldrei. „Þetta er skyndigróði. Þannig að þú lítur á þennan pening sem skyndigróða. Þú berð enga virðingu fyrir þeim peningum sem þú færð út úr þessu,“ segir hann og bætir við:
„Maður les fréttir um fólk sem hefur unnið stóra lottóvinninga. Það er komið á kúpuna nokkrum árum seinna, er búið að sólunda öllu frá sér.“
Hlustaðu á allt viðtalið við Kristinn hér.