

Tónlistargoðsögnin Elton John segir að ein leið fyrir Donald Trump forseta Bandaríkjanna til að verða einn af bestu forsetum allra tíma sé að útrýma sjúkdómnum alnæmi (e. AIDS).

Poppgoðið lét þessa orð falla í viðtali við tímarítið Variety sem birt var í síðustu viku. Elton John heldur úti góðgerðarstofnun sem berst gegn alnæmi. Hann hvatti Trump og ríkisstjórn hans að vinna fullum fetum að því að útrýma alnæmi.
Elton John segir fullt tilefni til að stjórnmálamenn í báðum stjórnmálaflokkum í Bandaríkjunum vinni saman að útrýmingu alnæmis en framfarir í læknavísindunum séu orðnar slíkar að það sé vel mögulegt að ná slíkum árangri. Vilji Trump verða einn af bestum forsetum í sögu Bandaríkjanna myndi þetta stuðla mjög að því.
Síðastliðið sumar veitti lyfjaeftirlit Bandaríkjanna samþykki sitt fyrir því að sett yrði á markað sprauta frá fyrirtækinu Gilead Sciences. Nota þarf sprautuna tvisvar á ári en í rannsóknum náði sprautan næstum 100 prósent árangri við að koma í veg fyrir útbreiðslu HIV-veirunnar, sem orsakar alnæmi. Hefur aldrei náðst jafn góður árangur með öðrum lyfjum.
Ríkisstjórn Trump leitaðist hins vegar við fyrr á þessu ári að skera niður útgjöld bandaríska ríkisins til baráttunnar gegn alnæmi en samflokksmenn forsetans á þingi samþykktu aftur á móti ekki niðurskurðinn.
Í viðtalinu við Variety gagnrýndi Elton John Bandaríkin og önnur lönd við að hindra aðstoð við alnæmissjúklinga til að mynda með niðurskurði. Það sé virkilega svekkjandi að lönd neiti að hjálpa þegar raunverulega séu til staðar úrræði til að útrýma alnæmi.
Talsmaður Hvíta hússins tjáði hins vegar Fox News að Trump og ríkisstjórn hans væru að vinna hörðum höndum að baráttunni gegn alnæmi bæði innan og utan Bandaríkjanna. Utanríkisráðuneytið væri að vinna að því í samvinu við erlend ríki að bæta og nútímavæða baráttuna á heimsvísu við smitsjúkdóma eins og alnæmi og heilbrigðisráðuneytið sé að vinna að því að koma á framfæri nýjustu meðferðarúrræðum og bæta aðgengi að upplýsingum um sjúkdóminn.
Elton John og Trump eru ekki alveg ókunnugir en poppstjarnan hefur áður sagt að sá síðarnefndi hafi oft komið á tónleika hjá honum og því sýni hann honum vinsemd.