

Fyrirtæki í Nýja Sjálandi hefur sett vín fyrir gæludýr á markað. Vínið er alkóhóllaust og ekki með vínberjum, sem eru eitruð fyrir hunda og ketti.
Miðillinn AFP greinir frá þessu.
Brugghús í borginni Auckland í Nýja Sjálandi, Muttley´s Estate, er byrjað að selja vín fyrir gæludýr. Er um að ræða ýmsar tegundir sem kallast nöfnum á borð við „Pawt“, „Champawgne“, „Purrno Noir“ og „Sauvignon Bark.“ Allt sniðugar útfærslur á heiti alvöru víns.
Kemur fram að vínið innihaldi hvorki vínber né alkóhól. En vínber eru eitruð fyrir hunda og ketti og geta valdið þeim alvarlegum nýrnabilunum, jafn vel dauða. Einungis efni sem eru góð fyrir dýrin eru í víninu, og er það einnig afar bragðgott.
Eigandi brugghússins, John Roberts, ákvað að slá til eftir að hafa séð bjór fyrir hunda á ferðum sínum erlendis. „Þetta er gott gegn stressi,“ sagði hann. Til að mynda þegar dýrin verða hrædd við flugelda. „Það var ekkert heilbrigt til á markaðinum fyrir gæludýrin annað en að lyfja þau niður.“
Þegar er byrjað að selja vínið í Nýja Sjálandi og Ástralíu. Stefnan er sett á að koma því á markað í Asíu, Norður Ameríku og Evrópu síðar meir.