Árlegt kótilettukvöld Samhjálpar fer fram næstkomandi miðvikudagskvöld klukkan 18:30 á Hilton Reykjavík Nordica hótelinu. Framkvæmdastjóri Samhjálpar segir viðburðinn mikilvægan bæði í fjáröflunarskyni en einnig til að fagna árangri skjólstæðinga samtakanna sem náð hafi bata í baráttu sinni við fíknisjúkdóminn.
Samkvæmt upplýsingum frá Guðrún Ástu Guðmundsdóttur framkvæmdastjóra Samhjálpar mun dagskrá kvöldsins verða full af góðri tónlist, frásögnum og happdrætti. Veislustjóri verður Signý Guðbjartsdóttir, forstöðumaður í Hlaðgerðarkoti, meðferðaheimilis Samhjálpar. Meðal þeirra sem koma fram eru Samhjálparbandið, Óskar Einarsson ásamt fríðu föruneyti og Finnbjörn Hv. Finnbjörnsson.
Klúbbur matreiðslumeistara úr kokkalandsliði Íslands matreiðir kótilettur og meðlæti en helstu stuðningsaðilar kvöldins eru Hilton, Kjarnafæði, Garri, Ölgerðin og fleiri.
Guðrún segir að viðtökurnar við kótilettukvöldinu hafi alltaf verið góðar og miðar á kvöldið séu enn og aftur á góðri leið með að klárast.
Miða á kótilettukvöldið er hægt að kaupa hér.
Guðrún segir um þennan árlega viðburð:
„Kótilettukvöldið er okkur afar mikilvægt bæði sem fjáröflunarkvöld og bara njóta dásamlegrar kvöldstundar saman. Einskonar uppskeruhátíð. Á Kótilettukvöldin kemur alveg ótrúlega fjölbreyttur hópur fólks saman, borðar dýrindis mat og á skemmtilega stund saman. Þetta er líka frábært tækifæri til að fagna árangri fjölda fólks sem náð hefur bata frá fíknisjúkdómnum og byggt upp líf án vímuefna.“
Kótilettukvöldið er þar af leiðandi áfengislaus viðburður.
Í kynningu á kvöldinu segir enn fremur að allur ágóði af því renni til starfsemi Samhjálpar. Í rúma hálfa öld hafi Samhjálp staðið vörð um jaðarsetta hópa sem lifi við fátækt og félagslega einangrun, sem oft sé afleiðing af langvarandi glímu við fíkn. Samhjálp reki meðferðarheimilið Hlaðgerðarkot þar sem pláss sé fyrir 30 einstaklinga í meðferð við fíknisjúkdómum, kaffistofu Samhjálpar sem gefi um 100 þúsund máltíðir á ári, ásamt áfanga- og stuðningsheimilum í Reykjavík og Kópavogi.
Hér fyrir neðan má sjá myndir frá einu af fyrri kótilettukvöldum Samhjálpar.