Dansparið og hjónin Hanna Rún Óladóttir Bazev og Nikita Bazev eru í efsta sæti heimslista Alþjóða dansíþróttasambandsins (WDSF) í latíndönsum í flokki atvinnudansara.
Í frétt Dansíþróttasambands Íslands (DSÍ) segir að þetta sé í fyrsta sinn sem íslenskt danspar trónir á toppi stigalista WDSF, en hjónin eru með 4337 stig í efsta sæti listans, 273 stigum meira en kínverska dansparið Li Mingxuan og Zhou Wanting sem eru í öðru sæti heimslistans.
Árangur hjónanna á alþjóðlegu móti í Róm um síðustu helgi skilaði þeim fyrsta sæti heimslistans.
Latíndansar samanstanda af samba, cha cha cha, rúmba, paso doble og jive.
Næsta keppni hjá Hönnu Rún og Nikita er heimsmeistaramót í Leipzig í Þýskalandi.