September hefur verið skemmtilegur mánuður hjá Guðrúnu, en hún varð 32 ára og í afmælisferðinni fór kærasti hennar til fimmtán ára, Steinar Örn, á skeljarnar. Honum tókst að koma henni alveg á óvart og sagði Guðrún að sjálfsögðu já. Þau eiga tvö börn, dóttur fædda árið 2020 og son fæddan árið 2022.
Guðrún og Steinar fóru til London í byrjun september til að fagna afmæli Guðrúnar og fara á Post Malone tónleika, en því miður var tónleikunum frestað vegna verkfalls starfsmanna neðanjarðarlestakerfisins í borginni. Parið fór í staðinn út að borða.
„Svo komum við aftur upp í íbúð og þá var hann búinn að taka rósavönd og svona taka laufblöðin og henda þeim út um allt,“ segir Guðrún og hlær að því þegar Steinari fannst þetta ekki hafa komið alveg nógu vel út, þetta minnti helst á blóðslettur.
Steinar fór svo á skeljarnar og Guðrún sagði já. Hún segist ekki muna mikið eftir atvikinu sökum þess að vera í svo mikilli geðshræringu. „Svo hringdum við í alla,“ segir hún hlæjandi.
Guðrún var sautján ára þegar hún og Steinar byrjuðu saman, hann var nítján ára. Þau ákváðu að fara rólega í hlutina, vera saman en vera líka dugleg að rækta vináttur og áhugamál.
„Við fluttum ekki inn saman fyrr en eftir að hafa verið saman í átta ár, svo eignuðumst við börnin okkar.
Aðspurð hver lykillinn sé að langlífu sambandi nefnir Guðrún samskipti.
„Svo erum við náttúrulega bara bestu vinir, okkur finnst gaman að vera með hvort öðru,“ segir hún.
Guðrún segir nánar frá trúlofuninni og byrjun sambands þeirra í þættinum, sem má hlusta á hér. Hún ræðir einnig um móðurhlutverkið, þegar hún fékk utanlegsfóstur sem varð til þess að fjarlægja þurfti annan eggjastokkinn og gleðina og kvíðann sem hún upplifði þegar hún varð fljótlega aftur ófrísk. Hún segir frá báðum meðgöngunum og fæðingunum og ræðir einnig á einlægan hátt um fæðingarþunglyndi, samfélagsmiðla og margt fleira.