„Víðast hvar má núorðið greiða með kortum og gjaldeyrir því nánast orðinn óþarfi á ferðalögum. Stundum er þó skynsamlegt að vera með gjaldeyri á sér til öryggis. Skemmst er að minnast óvænts rafmagnsleysis á Spáni og í Portúgal sem varð til þess að ekki var hægt að greiða með kortum. Einnig geta komið upp aðstæður þar sem kortið bara virkar ekki eða söluaðilar vöru eða þjónustu kjósa frekar að fá greitt í peningum, til að mynda leigubílstjórar eða veitingastaðir. Margir kjósa einnig að gefa þjórfé með peningum,“ segir Svandís í pistli á Vísi.
Hún segir að maður ætti að forðast fjölfarna ferðamannastaði og flugvelli þegar gjaldeyrir er keyptur.
„Skoðaðu einnig vel hvaða gengi er í boði áður en erlendir seðlar eru keyptir því að kjörin geta verið mjög misjöfn. Allajafna er dýrt að kaupa seðla á flugvöllum, bæði hér heima og í útlöndum, og eins í „götubönkum“ erlendis. Oft bætast við þóknanir hjá slíkum aðilum sem eiga það til að vera mjög háar,“ segir hún.
Svandís segir að það sé betra að skipta á milli erlendra gjaldmiðla í viðkomandi löndum.
„Ef þú átt erlendan gjaldeyri, t.d. Bandaríkjadali (USD) sem þú vilt skipta í evrur (EUR), er sennilega best fyrir þig að skipta dollurunum beint í evrur í evrulandinu því þá er einvörðungu USD/EUR gengi notað. Ef þessi skipti eru framkvæmd hér á landi (eða í landi sem er með annan gjaldmiðil en evru eða dollara) þarf alltaf fyrst að selja dollarana og kaupa íslenskar krónur sem svo þarf að selja aftur til að kaupa evrurnar. Þetta þýðir að greitt er tvisvar fyrir gjaldeyrisviðskiptin. Því er betra að skipta á milli erlendra gjaldmiðla í viðeigandi löndum. Jafnframt er rétt að forðast að skipta á flugvöllum eða fjölförnum stöðum þar sem það er oft mun dýrara. Líklega er hagstæðast að nýta bankaútibú ef kostur er,“ segir hún.
Hvað með þegar maður er að versla með kort, hvaða mynt á að velja?
„Stundum er hægt að velja á milli þess að greiða í íslenskum krónum eða gjaldmiðli þess lands sem þú ert í þegar verslað er erlendis [með korti]. Berðu saman kjörin áður en þú ákveður í hvaða mynt viðskiptin eiga að fara fram. Oftast er mun hagkvæmara að versla í erlendu myntinni,“ segir hún.
Hún deilir fleiri góðum ferðaráðum í pistlinum sem má lesa hér.