Grunnt hefur verið á því góða á milli bræðranna Liams og Noels Gallagher á síðustu árum en þeir hafa nú slíðrað sverðin, aðdáendum sveitarinnar til mikillar gleði.
Netverjar hafa nú grafið upp færslu sem Liam Gallagher birti á Twitter árið 2017 sem hefur ekki elst sérstaklega vel. Í færslunni hjólaði Liam í bróður sinn, Noel, fyrir að ætla að selja miða á tónleika sína í Bandaríkjunum fyrir 350 dollara, tæplega 50 þúsund krónur.
Færslan vekur athygli í því ljósi að miðar á tónleika Oasis á Bretlandseyjum eru ekki beint ódýrir. Þannig kosta miðar í stæði á tónleika sveitarinnar í Manchester 355 pund á vef Ticketmaster, eða 65 þúsund krónur. Miðar í sæti eru svo enn dýrari. Hátt miðaverð á síðum á borð við Ticketmaster skýrist af gríðarlegri eftirspurn eftir miðum.
Hvað sem því líður gagnrýndu netverjar Liam fyrir hræsni í þessu ljósi og sögðu að færslan hefði ef til vill ekki elst mjög vel.