Ef þú ert einn af þeim sem þambar drykki beint úr plastflösku þá er áhugavert að skoða niðurstöður rannsóknar sem nýlega birtist í tímaritinu Microplastics. Samkvæmt þeim getur það neikvæð áhrif á blóðþrýsting að drekka úr plastflösku út af örplastinu sem berst þannig inn í blóðrásina.
Eins og flestum ætti að vera kunnugt hefur örplast, eða litlar plastagnir, komið sér fyrir út um allt og finnst jafnvel í fylgjum ófæddra barna. Þessar agnir finnst líka flestum mat sem við borðum og í flestu drykkjarvatni. Þessar agnir geta svo komist inn í líffærin okkar og í blóðið. Áhrifin af þessu örplasti í líkamanum geta verið margskonar, einkum veldur það hormónaójafnvægi og vísbendingar eru um orsakasamhengi milli plastagna og tiltekinna tegunda krabbameins.
Samkvæmt framangreindri rannsókn virðist plastið einnig hafa áhrif á blóðþrýsting. Rannsóknin sem fór fram á vegum læknadeildarinnar við Danube háskólann í Austurríki sýndi marktæka lækkun á blóðþrýstingi þátttakenda sem hættu að drekka úr plast- og glerflöskum og drukku þess í stað beint úr krananum. Þessi áhrif komu fram á aðeins tveimur vikum.
„Niðurstöðurnar benda til þess, í fyrsta sinn, að með því að draga úr plastnotkun sé mögulega hægt að lækka blóðþrýsting, og þá líklega út af minna magni plastagna í blóðrásinni,“ segir í tilkynningu rannsakenda.
Fyrri rannsóknir hafa sýnt fram á að meðalmaðurinn neytir um 5 gramma af örplasti á viku, en til að setja það í samhengi þá vega greiðslukort jafnan um 5 grömm.
Rannsakendurnir við Danube háskólann telja niðurstöðu sína gefa skýrt til kynna að fólk ætti að forðast drykki í plastflöskum. Samkvæmt annarri rannsókn er svo hægt að draga enn meira úr plastögnum drykkjarvatns með því að sjóða kranavatn og sía.