fbpx
Mánudagur 22.júlí 2024
Fókus

Klara ákvað ung að verða söngkona og gaf út sitt fyrsta lag 12 ára – „Allt sem ég geri í lífinu tengist tónlist“

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 6. júlí 2024 12:00

Klara Einars

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Klara Einarsdóttir er 18 ára Verzlunarskólanemi, söngkona og söngkennari, sem ákvað sem barn að aldri að hún ætlaði að verða söngkona þegar hún yrði stór. Klara hefur þegar staðið við framtíðaráformin þrátt fyrir ungan aldur, hún hefur verið í kór frá tíu ára aldri, gaf út sitt fyrsta lag 12 ára, stundar nám í klassískum söng, tók þátt í sýningunni Níu líf í Borgarleikhúsinu síðustu fjögur ár, og vann söngkeppnina Verzlóvæl í nóvember.

Í fyrra gaf hún út jólalagið Handa þér og núna í júní kom lagið Þú er svo sem er fyrsta lagið sem hún semur sérstaklega fyrir sinn feril. Næstu helgi þann 11. – 13. júlí  kemur Klara fram á bæjarhátíðinni Kótilettan á Selfossi ásamt fríðu föruneyti; Dj Rakel Gísla, trommaranum Bjarka Bómarz Ómarssyni og hópi dansara.

„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á tónlist og eiginlega allt sem ég geri í lífinu tengist tónlist. Ég vinn sem söngkennari í Söngskóla Maríu en þar kenni ég börnum að syngja uppáhaldslögin þeirra og það veitir mér svo mikinn innblástur vegna þess að þau minna mig svo mikið á það þegar ég var yngri á söngnámskeiðum að segja kennurunum mínum að mig langi að verða söngkona þegar ég verð stór. Það hvetur mig svo mikið til þess að elta draumana mína og gera þá að veruleika, og líka til þess að sýna börnunum að þau geta gert það líka,“ segir Klara. 

Klara er á viðskiptabraut í Verzlunarskólanum og var að klára sitt annað ár þar.  

„Þegar ég var í þriðja bekk í grunnskóla þá tók mamma vinkonu minnar okkur stelpurnar á fyrsta Verzló leikritið okkar og frá því augnabliki var ég gjörsamlega heilluð af Verzló. Hún fór með okkur á fleiri Verzlóleikrit og við stelpurnar hlustuðum á öll lögin og horfðum á alla þættina sem komu frá 12:00 og Rjómanum,“ segir Klara sem hefur síðustu fjögur staðið sjálf á sviðinu í Borgarleikhúsinu. 

„Ég var í Níu líf og að hafa fengið að vera með í sýningunni var svo mikill draumur og ég trúi ekki að við höfum verið að sýna síðustu sýninguna okkar. Það var fátt skemmtilegra en að standa á stóra sviðinu í Borgarleikhúsinu með besta fólkinu og leika í þessari fallegu sýningu. 

Ég byrjaði í Níu líf æfingaferlinu þegar ég var 13 ára og nú er ég orðin 18 ára sem mér finnst enn svo klikkað, mér líður alltaf eins og ég sé aðeins yngri vegna þess að mér fannst COVID stoppa alveg tímann. En þessi sýning hefur verið stór hluti af lífi mínu í mjög langan tíma og núna tekur nýr spennandi kafli við. “ 

Klara hefur verið í kór frá því að hún var tíu ára og er ein af þeim sem er stöðugt að syngja eða humma laglínur og það mætti segja að hún hafi byrjað að syngja áður en hún byrjaði að tala.

„Ég er í kammerkórnum Aurora en ég hef verið í Stúlknakór Reykjavíkur hjá Möggu Pálma og Siggu Soffíu síðustu átta árin. Mig langaði síðan að fara að æfa á gítar eða píanó en það var ekki laust pláss í nám en þá var ég spurð hvort mig langaði til þess að æfa á bassa. Ég hugsaði: „Hvað er bassi? “ en ég sló til og nú spila ég á bassa og syng með og finnst fátt skemmtilegra. Ég stunda líka nám í klassískum söng í Tónlistarskóla Garðabæjar og það er sjúklega gaman að mæta á æfingar því ég er alltaf að læra nýja tækni sem gerir mig betri með hverjum degi.“ 

Hvað kom til að þú fórst í kór í staðinn fyrir aðrar tómstundir sem barn? 

„Þegar ég var yngri passaði stelpa sem heitir Jana Björg mig og bróður minn og í dag er hún eins og stóra systir mín. Á þessum tíma var hún í Stúlknakór Reykjavíkur og hún vissi hvað mér fannst gaman að syngja þannig hún fékk að taka mig með sér á nokkrar kóræfingar. Mér fannst þetta svo ótrúlega gaman og ég heillaðist alveg af Möggu Pálma kórstjóra þannig að ég byrjaði í kórnum og hef ekki hætt síðan. 

Annars var ég líka að æfa allt þetta klassíska eins og fótbolta með Breiðablik og fimleika í Gerplu en kórinn og tónlistarnámskeiðin fannst mér alltaf skemmtilegust.“ 

Hvenær byrjaðir þú að syngja fyrst? 

„Pabbi segir alltaf að ég hafi byrjað að syngja áður en ég byrjaði að tala og ég held það sé rétt hjá honum. Þegar ég var yngri og kom heim úr skólanum þá fór ég beint á YouTube og byrjaði að syngja karaoke og lét eins og ég væri að koma fram á Wembley,“  segir Klara og hlær.

„Ég hitti mömmu æskuvinkonu minnar um daginn og hún sagði mér frá því þegar hún hitti mig í fyrsta skipti. Ég og vinkona mín fórum heim til hennar eftir skóla og mamma hennar tekur á móti okkur og ég kynni mig: „Hæ ég heiti Klara og ég ætla að verða söngkona þegar ég verð stór.“  Mér fannst þetta ekkert eðlilega fyndin saga.“  

Klara hefur verið í kór frá því að hún var tíu ára og er ein af þeim sem er stöðugt að syngja eða humma laglínur og það mætti segja að hún hafi byrjað að syngja áður en hún byrjaði að tala.

Gaf út fyrsta lagið 12 ára

Klara gaf út sitt fyrsta lag aðeins 12 ára gömul og snerti hjörtu fólks með einlægum flutningi sínum á Síðasta sumar. Lagið er endurgerð af gömlu Nylon lagi sem kom fyrst út árið 2004.

„Ég hef alltaf verið að leika mér að því að semja lög, skrifa texta í notes og taka þá upp í voice memos í símanum og geyma þá. Þegar það gerist eitthvað stórt í lífi mínu alveg sama hvort það er eitthvað gott eða slæmt, sem ég alltaf einhvern smá texta um atvikið. Lagið Þú ert svo sem ég gaf út í júní sömdum ég, Ingimar Tryggva og pabbi saman, bæði lag og texta. Lag númer tvö heitir Ætti ekki og kemur út 12. júlí. Það sem var mjög fyndið við þetta ferli var að semja lög um stráka með pabba mínum en það sem kom mér mest á óvart var hvað pabbi minn var góður í því.“  

Það er ljóst að Klara hefur komið víða við þrátt fyrir ungan aldur og er bara rétt að byrja. Aðspurð um hvað henni finnist skemmtilegast af því sem hún hefur gert og er að enn að vinna að segir hún: 

„Það stendur alltaf upp úr að hafa unnið söngkeppnina Vælið í Verzlunarskólanum. Ég hef oft tekið þátt í söngkeppnum og var þetta í fjórða eða fimmta skiptið sem ég tók þátt í söngkeppni. Mér hefur alltaf fundist gaman að taka þátt í þeim vegna þess að það skemmtilegasta sem ég geri er að koma fram og þegar ég var búin að taka þátt nokkrum sinnum þá fór ég að læra hvernig atriði mér finnst skemmtilegast að vera með. Ég bætti við dönsurum í atriðin mín og bakröddum, og síðan fór ég að dansa sjálf með í atriðinu. 

Þannig það að taka oft þátt í söngkeppnum hefur kennt mér ótrúlega margt og undirbúið mig mjög vel fyrir framtíð mína sem söngkona. 

Vælið var virkilega skemmtilegt vegna þess að það var stærsta atriði sem ég hef sett saman. Ég fékk fjórar geggjaðar söngkonur til að syngja bakraddir og fjóra hæfileikaríka dansara með mér í lið. Við vorum með alls konar leikmuni og stemningu á sviðinu og aðalmarkmiðið var að æfa mig að koma fram og hafa gaman. Ég hlakka ótrúlega mikið til þess að setja fleiri atriði saman í framtíðinni.“  

Klara kemur fram á Kótelettunni sem haldin verður á Selfossi helgina 11. – 13. júlí. „Ég er búin að vera vinna í því að setja saman atriðið mitt í smá tíma núna og ég er með frábært fólk með mér í liði, dansara, DJ og trommara. Ég er sjúklega spennt fyrir þessu.“  

Klara vann söngkeppnina Vælið í Verzlunarskólanum.

Sköpunargleðin mest heillandi

Aðspurð um hvað heilli hana mest við tónlistarbransann svarar Klara. „Sköpunargleðin. Ekki bara það að semja lögin og syngja þau heldur líka það að búa til ákveðna upplifun með því að setja saman atriði þegar ég er að syngja lögin, að leyfa fólki að fá innsýn inn í heiminn sem lagið var búið til úr.“  

Hún segir tónlistina mikilvæga. „Tónlistin er eitthvað sem allir í heiminum geta tengt við á sinn eigin hátt og eitthvað sem sameinar okkur öll. 

Ég hlusta sjálf á alla tónlist og það sem ég hlusta á fer mjög mikið eftir skapinu mínu. Ég held upp á marga flytjendur en sú sem ég lít mest upp til er klárlega Laufey. Mér finnst svo skemmtilegt að fylgjast með öllu því flotta sem hún er að gera og mér finnst svo gaman að hugsa til þess að þegar hún var á mínum aldri var hún í sama skóla og ég og vann Vælið líka,“ segir Klara.

Klara rifjar upp þegar móðir hennar fór í kveðjuhóf Laufeyjar eftir tónleikana hennar hér á Íslandi. „Mamma vissi að mig langaði ótrúlega mikið til þess að hitta hana þannig hún fór með plakat af mér frá Vælinu og Laufey áritaði það og skrifaði: „Til hamingju! Frá einni vælskonu til annarrar, Laufey“. 

Mér þótti ótrúlega vænt um þetta og ég les þessi skilaboð mjög oft þegar mig vantar smá hvatningu. Þetta bara sýnir að það skiptir ekki máli hvort þú ert frá svona litlu landi eins og Íslandi, þú getur samt gert hvað sem þú vilt ef þú leggur hart að þér og að sjá Laufey blómstra svona mikið út í heimi gaf mér ótrúlega mikla hvatningu til þess að byrja að láta draumana mína rætast,“ segir Klara.

Faðir Klöru er Einar Bárðarson, sem þekktur er sem Umboðsmaður Íslands meðal annars, hann hefur komið víða við, samið lög og texta, stofnaði Nylonflokkinn á sínum tíma og samdi lagið Angel sem tók þátt í Eurovision. Aðspurð um hvort hún sjái fyrir sér að taka þátt í Eurovision einn daginn segir Klara:

„Ég hef alltaf elskað Eurovision og fyrir mér er þetta eins og að horfa á Heimsmeistaramótið Í fótbolta. Ég lifi mig alltaf sjúklega mikið inn í keppnina og dæmi atriðin eins og ég sé að fá borgað fyrir það. Ég hef ekki gert ráð fyrir því að taka þátt í Eurovision en maður veit aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér.

Klara var að gefa út nýtt lag á Spotify sem heitir Þú ert svo sem hún syngur og samdi með upptökustjóranum Ingimari Tryggvi. 

„Ingimar stjórnaði einnig upptökum. Það var rosalega gaman að vinna með honum og þetta gekk rosalega hratt. Ég hlakka mikið til að sjá viðbrögð hlustenda við laginu. Svo erum við með tvö önnur lög tilbúin en það er ekkert búið að ákveða neitt með framhaldið.

Jólalaginu mínu var mjög vel tekið og það var alveg geggjað að heyra það spilað í útvarpinu. Reyndar alveg magnað en auðvitað er ennþá meira spennandi fyrir mig að koma núna með mitt eigið lag og ekki bara í mínu nafni heldur lag sem ég er sjálf að taka þátt í að semja.

Textinn er bara svona augnablik af upplifun þegar spaðalæti í einhverjum gaur sem gæti alveg verið spennandi verður beinlínis bara pirrandi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Afmæliskaka Trump eykur á ríginn milli Taylor Swift og Kim Kardashian

Afmæliskaka Trump eykur á ríginn milli Taylor Swift og Kim Kardashian
Fókus
Fyrir 2 dögum

Rómantísk stund þegar Jakob bað Gerðar – Sjáðu myndbandið

Rómantísk stund þegar Jakob bað Gerðar – Sjáðu myndbandið
Fókus
Fyrir 5 dögum

Stórleikarinn kominn með nýja kærustu upp á arminn – Þremur árum eldri en dóttir hans

Stórleikarinn kominn með nýja kærustu upp á arminn – Þremur árum eldri en dóttir hans
Fókus
Fyrir 5 dögum

Fatnaður fegurðardrottningar falur

Fatnaður fegurðardrottningar falur