fbpx
Mánudagur 22.júlí 2024
Fókus

Grétar Lárus opnar sig um missinn – Aðeins annar tvíburinn kom með foreldrunum heim – „Takast allir misjafnlega á við sorgina“

Ragna Gestsdóttir
Fimmtudaginn 4. júlí 2024 15:30

Grétar Lárus Matthíasson Mynd: Facebook/Sólný Pálsdóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Grétar Lárus Matthíasson tónlistarmaður og vélfræðingur varð faðir í fyrsta sinn árið 2008 þegar hann og barnsmóðir hans eignuðust tvíburadætur. Aðeins önnur þeirra fór með foreldrunum heim af fæðingardeildinni þremur mánuðum seinna. Grétar Lárus samdi sitt fyrsta lag, Barnið mitt, við texta systur sinnar Kristínar, lagið fjallar um barnsmissinn.

„Hún fer af stað svolítið fyrir tímann, á 26. viku fæðast tvær stúlkur 14. febrúar. Við erum á vökudeildinni restina af meðgöngutímanum. Þegar þær eru rétt viku gamlar þá fá þær báðar sýkingu og læknarnir gera allt sem þeir geta til að bjarga þeim, unnu ótrúlegt kraftaverk á vökudeildinni, æðislegur staður. Ná að bjarga annarri stúlkunni, ekki hinni. Við fengum prest til að koma á vökudeildina og skíra þær þar, við skírum aðra stúlkuna Berta Sóley, og Elsa Björt, það var hún sem lést. Við komum heim þrem mánuðum seinna með eina stúlku,“

segir Grétar Lárus í viðtali við Dagbjörtu Rúriksdóttur söngkonu á streymisveitunni Pax Vobis. Dagbjört tekur þar viðtöl við fólk um trúna og kristileg gildi.

Aðspurður um hvort að andleg reynsla hafi hjálpað honum gegnum sorgina segir Grétar Lárus að Suðurlandsskjálftinn hafi riðið yfir stuttu eftir að litla fjölskyldan kom heim af vökudeildinni.

„Við erum með dótturina í bastvöggu, hún liggur sofandi í vöggunni og ég stend yfir henni og horfi á hana og langar svo að halda á henni aðeins. Ég tek hana til mín og sest í sófann með hana í fanginu. Og ég held á henni þegar Suðurlandsskjálftinn byrjar og það er bara eins og sé verið að berja undir húsið og svo fór allt á fleygiferð. Ég leggst yfir hana í sófanum til að verja hana af því það fór allt að hrynja úr hillum og af veggjum.“

Þegar skjálfanum lauk hljóp parið út og segir Grétar Lárus að á hlaupunum út hafi honum verið litið til hliðar inn í svefnherbergið:

„Þá lít ég inn og horfi á vögguna þar sem kommóðan hafði kastast upp í loft, og lent á vöggunni sem var í klessu. Það var eitthvað þarna sem sagði mér að taka hana upp úr vöggunni og fara með hana fram.“

Grétar Lárus segir erfitt að syrgja og gleðjast á sama tíma. „Það er mjög flókið að gleðjast með annarri stúlkunni en þurfa að syrgja hina á sama tíma. Hún var jörðuð á Eyrarbakka, við bjuggum á sveitabæ þar við hliðina á. Við tókumst misjafnlega á við þetta, bara eins og fólk gerir. Það takast allir misjafnlega á við sorgina. Mér finnst gott að fara bara út í kirkjugarð og aðeins að sitja hjá henni. Auðvitað veit ég að hún er alltaf hjá okkur. Systir hennar er svoddan gleðisprengja, það er aldrei lognmolla í kringum hana, hún er yndisleg. Þannig að það var ekki erfitt að gleðjast líka. Það er svo mikilvægt að leyfa sér að syrgja, að bæla þetta ekki inni, stundum þarf maður bara að gráta yfir þessu.“

Parið eignaðist þriðju dótturina einu og hálfu ári seinna, Elsu Kristínu. Grétar Lárus segist oft fara með dæturnar til systur sinnar, Kristínar sem búsett var í Grindavík. Þar eru þau systkinin uppalin og segir hann systur sína hafa gengið í gegnum sorgina með honum og barnsmóður hans.

Einn daginn hafi hann farið einn í heimsókn til systur sinnar, þau átt góðan dag saman og spjallað mikið. Hann hafi tekið gítarinn með og samið eitthvað stef og tekið það upp á símann eins og hann geri alltaf. Kristín taki fólk í heilun og hún spyrji hvort hún megi prófa hana á Grétari Lárusi.

„Á meðan er ég allan tímann að hugsa um Elsu Björt og pabba sem er líka dáinn. Þetta var magnað móment, það fóru að streyma tár og það losnar um einhvern hnút.“

Morguninn eftir sat Grétar Lárus út í skúr með gítarinn að spila, þegar systir hans Kristín hringir og segist þurfa að senda honum texta sem kom til hennar eftir heilunina. „Ég samdi þennan texta út frá þínu hjarta og þú verður að semja lag við þetta,“ segir hún.

„Ég las hann yfir og það hrundi allt, ég grét í hálftíma, las þetta aftur og aftur. Þegar ég hafði jafnað mig tók ég gítarinn upp og spilaði stefið sem ég samdi daginn áður heima hjá Kristínu. Það rann saman við þennan texta, lagið varð til á fjórum mínútum. Þetta var ótrúleg lífsreynsla. Þetta var svo mikil úrvinnsla úr þessari sorg. Mörg skipti á eftir var ég að reyna að spila þetta og sýna fjölskyldunni. Ég komst aldrei í gegnum það, eftir tvö erindi brotnaði ég niður og fór að gráta. Það þurfti nokkur skipti til að komast í gegnum það án þess að brotna niður. Þetta var rosalega góð úrvinnsla og gott fyrir hjartað að fá þetta lag.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Rómantísk stund þegar Jakob bað Gerðar – Sjáðu myndbandið

Rómantísk stund þegar Jakob bað Gerðar – Sjáðu myndbandið
Fókus
Fyrir 2 dögum

KALEO gefur út lag um skotárásir í Bandaríkjunum

KALEO gefur út lag um skotárásir í Bandaríkjunum
Fókus
Fyrir 3 dögum

Gjafabréf PLAY runnu út eins og heitar lummur og kláruðust fljótt

Gjafabréf PLAY runnu út eins og heitar lummur og kláruðust fljótt
Fókus
Fyrir 3 dögum

Gifting Bam í Hafnarhúsinu dæmd ógild – „Nicole vissi að við værum ekki gift frá fyrsta degi“

Gifting Bam í Hafnarhúsinu dæmd ógild – „Nicole vissi að við værum ekki gift frá fyrsta degi“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Ozzy er kominn með nóg af myndböndum Britney – „Hvern einasta helvítis dag“

Ozzy er kominn með nóg af myndböndum Britney – „Hvern einasta helvítis dag“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Falska söngkonan biðst afsökunar á að hafa slátrað þjóðsöngnum – „Ég ætla ekkert að skafa utan af því, ég var full“

Falska söngkonan biðst afsökunar á að hafa slátrað þjóðsöngnum – „Ég ætla ekkert að skafa utan af því, ég var full“