fbpx
Laugardagur 18.maí 2024
Fókus

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Fókus
Mánudaginn 15. apríl 2024 20:48

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég held að það sé aldrei neinn endir því endir er alltaf upphaf einhvers nýs” segir Valgeir Skagfjörð, viðmælandi Mumma í nýjasta þætti Kalda Pottsins. Valgeir er fjölhæfur listamaður, hann er til að mynda bæði leikari og leikstjóri en einnig rithöfundur, tónlistarmaður og markþjálfi. Hann segist kunna mjög vel að vera í krísu því þannig ástand hafi mótað hann sem einstakling frá barnsaldri en hann hafi lært að takast á við það á uppbyggjandi hátt og í dag nýtur hann hvers dags til fullnustu. Í þættinum ræða þeir Mummi meðal annars hvaða áhrif það hafði á Valgeir sem lítinn föðurlausan strák að alast upp við mikla óreglu og vera öðruvísi en skólafélagarnir, hvað dró hann í leiklistina, andlegu vakninguna og ástina á lífinu.

Karlmaðurinn á heimilinu

Valgeir rifjar upp hvernig það fór ekki framhjá jafnöldrum hans að hann var af blönduðum uppruna. Pabbi hans var tónlistarmaður sem hafði komið með hljómsveit sinni til landsins að spila og tók upp samband við móður hans, sem þá var táningur. Þó þau hafi gift sig þá entist það ekki betur en svo að þau voru skilin þegar Valgeir kom í heiminn og ólst hann upp föðurlaus.

Lengi dreymdi Valgeir um að eiga föður og móðir hans var dugleg að lofa honum að þessi og hinn kærastinn væri að fara að ganga honum í föðurstað. Það gekk þó ekki eftir en þó bættust systkini hans í fjölskylduna. Móðir hans glímdi við áfengisfíkn og undirliggjandi persónuleikaröskun svo Valgeir þurfti ungur að verða „karlmaðurinn á heimilinu“ eins og móðir hans kallaði það, og sjá fyrir yngri systkinum þegar móðir hans lét sig hverfa.

Valgeir lýsir því að það hafi verið happ og glapp að koma heim úr skólanum á daginn því hann vissi aldrei inn í hvaða aðstæður hann væri að stíga.

„Svo bara kem ég mér inn og maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn. Stundum var bara best þegar hún var ekki heima. Hún var ekki bara venjulegur alkóhólisti hún var með persónuleikaraskanir, undirliggjandi, sem hún drekkur ofan í, og ekki bara áfengi heldur tók hún töflur og allskonar svona dóp. Og hún þjáðist af fyrirbæri sem er kallað Munchausen syndrome.

Hún var alltaf að ljúga einhverjum sjúkdómum upp á sjálfa sig og okkur börnin. Þannig þegar ég var að ég held 3-4 ára þá hringdi hún út um allar trissur í fjölskylduna, systur sína, ömmu og afa, vinkonurnar og út um allt, til að segja þeim að ég væri með hvítblæði. Fékk athygli út á það. Síðan kannski fékk hún hvítblæði eða krabbamein – hún var alltaf að búa til svona sögur.“

Óheilbrigt samband mæðgina

Á miðvikudögum kom svo frú Snyder frá Félagsmálayfirvöldum. Þá setti fjölskyldan sig í stellingar. Börnin ruku til að ryksuga og koma heimilinu í stand svo þegar þýski barnaverndarfulltrúinn mætti á svæðið var heimilið eins og klippt úr tímariti um fyrirmynda fjölskyldu.

„Það er dálítið gaman að geta séð þetta úr fjarska. Ég held ég hafi verið átta níu ára þegar ég fór að fatta þetta leikrit. Allar lygarnar…,“ segir Valgeir. Yngri systkini hans fengu hlé frá vanrækslunni og dramanu um helgar þegar þau fóru til föður síns. Valgeir hins vegar var föðurlausa barnið og sat einn eftir með móður sinni.

„Þetta væri áhugavert sem efni í bók. Skoða hvernig samband móður og sonar verður sjúkt í þessum aðstæðum, þegar ég er í raun bæði fórnarlamb vanrækslu en er á sama tíma bjargvættur og farinn að gegna hlutverki í lífi móður minnar sem er algjörlega óheilbrigt og hefur ekkert með það að gera að vera sonur.“

Gerðist óvart sek um tvíkvæni

Valgeir beið ekki boðanna eftir 16 ára afmælið og flutti að heiman. Fljótlega eftir það ákvað hann að finna pabba sinn. Móðir hans reyndist honum þá vel enda hafði hún heimilisfang lögfræðings sem faðir hans hafði ráðið til að gæta hagsmuna sinna í samskiptum við móður Valgeirs, sem hafði ítrekað reynt að stefna honum til að fá meðlag.

„Það er þessi réttlætiskennd einstæðrar móður sem vildi fá einhverja peninga út úr þessum manni sem hún hafði átt þetta barn með,“ segir Valgeir en bætir við að sökum veikindanna hafi móðir hans þó ekki ætlað sér að nota peningana til halda syni síum uppi.

Tilraunir hennar til að draga barnsföður fyrir dóm fóru þó fyrir lítið þegar í ljós kom að hún hafði gift sig aftur áður en hún var formlega skilin. Hún var því sek um tvíkvæni og þetta vissi faðir Valgeirs. Eins hafði hún logið á hjúskaparvottorði þar sem hún sagðist eldri en hún var.

Vissi að þetta yrði þeirra seinasti fundur

En Valgeir náði sambandi við föður sinn og 17 ára gamall hélt hann til London að hitta hann og yngri systur sínar. Sú heimsókn var þó ekkert til að hringja heim vegna heldur þvert á móti ákvað Valgeir að nýta sér lygasýki móður sinnar og fékk hana til að senda skeyti út um að afi Valgeirs væri á banalegunni, svo hann hefði afsökun til að koma aftur heim.

Eftir þetta hugsaði Valgeir lítið til föður síns. Ekki fyrr en hann var orðinn fullorðinn og átti sjálfur börn og fékk símtal frá kunningjum sem höfðu fyrir tilviljun rekist á föður hans úti. Þá fann Valgeir þörf til að hitta föður sinn aftur, og þrátt fyrir annir ákvað hann að fara út fyrr frekar en síðar.

Faðir hans var þá kominn á sjúkrahús við slæma heilsu. Þegar þeir hittust féllust þeir grátandi í faðma og lofuðu að hittast fljótt aftur. Engu að síður sagði eitthvað Valgeiri að þetta yrði þeirra seinasti fundur og fór það svo að skömmu síðar lést faðir hans. Hefði Valgeir frestað því um nokkrar vikur að fara út hefði það verið of seint.

Hlusta má á viðtalið við Valgeir og fyrri þætti Kalda pottsins á tyr.is eða á Spotify.

Kaldi Potturinn er spjallþáttur þar sem Mummi fær til sín á sviðið heima alls konar fólk úr öllum kimum samfélagsins, með fjölbreytta lífsreynslu, djúpa sýn á tilveruna og sterkar skoðanir á lífinu. Fólk sem fer sínar eigin leiðir. Mummi hefur sjálfur sterkar skoðanir og er óhræddur við að tjá sig um hvað sem er, svo allt fær að flakka á sviðinu. Kaldi Potturinn hefur ekkert að fela.

Dagskrárgerð Kalda pottsins er í höndum Mumma og stjórn upptöku er í höndum Gunnars Bjarna en upptökur fara fram á heimili Mumma og eiginkonu hans, Þórunnar Wolfram, á Gömlu Borg í Grímsnesi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Fann smokkapakka í tösku eiginkonunnar: „Þá vissi ég að eitthvað væri í gangi“

Fann smokkapakka í tösku eiginkonunnar: „Þá vissi ég að eitthvað væri í gangi“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Saknaðarilmur með flestar tilnefningar til Grímuverðlauna í ár

Saknaðarilmur með flestar tilnefningar til Grímuverðlauna í ár
Fókus
Fyrir 3 dögum

Haukur Morthens 100 ára – Heiðurstónleikar í Hörpu sunnudaginn 26. maí

Haukur Morthens 100 ára – Heiðurstónleikar í Hörpu sunnudaginn 26. maí
Fókus
Fyrir 3 dögum

Landafræðin heldur sumum Íslendingum erlendis

Landafræðin heldur sumum Íslendingum erlendis
Fókus
Fyrir 3 dögum

Svona leit hún út fyrir breytingarnar

Svona leit hún út fyrir breytingarnar
Fókus
Fyrir 3 dögum

Flutti í sumarbústað við Meðalfellsvatn eftir stórleik í þýskum þáttum

Flutti í sumarbústað við Meðalfellsvatn eftir stórleik í þýskum þáttum
Fókus
Fyrir 4 dögum

Frænka kærustunnar minnar er ólétt – og ég er pabbinn

Frænka kærustunnar minnar er ólétt – og ég er pabbinn
Fókus
Fyrir 4 dögum

Viðurkenndi loksins að hafa notað megrunarlyf – „Allir halda að þetta sé Ozempic, þetta er annað lyf“

Viðurkenndi loksins að hafa notað megrunarlyf – „Allir halda að þetta sé Ozempic, þetta er annað lyf“