fbpx
Miðvikudagur 04.desember 2024
Fókus

Guðrún Hafsteinsdóttir: „Tek það ekki nærri mér að vera kölluð útlendingahatari – Veit hver ég er“

Fókus
Miðvikudaginn 27. nóvember 2024 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir að Ísland hafi misst útlendingamálin algjörlega úr böndunum eftir þverpólitíska sátt um að Ísland færi aðrar leiðir en löndin í kringum okkur. Guðrún, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, segist ekki taka það nærri sér að vera kölluð rasisti eða sökuð um útlendingaandúð. Hún viti að það sé ekki satt og allt skynsamt fólki hljóti að sjá að grunnkerfin okkar verði að virka og kostnaðurinn geti ekki tugfaldast á nokkrum árum:

„Ég hef verið kölluð rasisti og útlendingahatari og þar fram eftir götunum, en ég tek það ekki nærri mér, af því að ég veit að það er ekki satt. Ég fór ekki inn í þetta ráðuneyti til að ala á útlendingaandúð. En grunnkerfin okkar verða að fúnkera. Ég hef ekki verið í þessu embætti nema í ákveðinn tíma og það var mér strax augljóst að það þyrfti að taka mikið til í þessum málaflokki. Lögin sem við höfum búið við í útlendingamálum voru samin þverpólitískt á alla flokka á þingi. Ég held að þar hafi fyrstu mistökin verið gerð. Hvað kemur út úr því þegar allir flokkar á þingi sammælast um eitt skjal? Til þess að ná þeim samnefnara þurfti að skrifa sérstakar íslenskar málsmeðferðarreglur sem gilda ekki í öðrum löndum. Við höfum verið með aðrar reglur en löndin í kringum okkur og það einfaldlega gengur ekki upp. Á mínu mati misstum við þennan málaflokk úr böndunum. Árið 2012 kostaði þessi málaflokkur 400 milljónir á ári, en núna er hann kominn vel yfir 20 milljarða. Aukningin var á leiðinni enn hærra upp áður en við náðum loksins í gegn breytingum. Við eigum þessa peninga ekki til og þetta er bara vitleysa. Sjálfstæðisflokkurinn hefur reynt að ná fram breytingum í þessum málaflokki á hverju einasta þingi í mörg ár, en það hefur bara ekki gengið. Við höfum verið staðföst í því að vilja afmá séríslenskar málsmeðferðarreglur, en Alþingi Íslendinga hefur bara ítrekað hafnað því,“ segir Guðrún, sem segir kerfið gjörsamlega stíflað og það hafi verið stórt verkefni að byrja að vinda ofan af því:

„Á allra síðustu árum hefur verið fordæmalaust magn af fólki sem hefur sótt um vernd hér. Stofnanirnar voru ekki búnar undir þetta og kerfin stífluðust og málsmeðferðartíminn lengdist óheyrilega. Það á að vera þannig að það fólk sem leitar eftir þjónustu þurfi ekki að bíða lengi eftir niðurstöðu. Það er óásættanlegt hvernig þetta þróaðist. Það talar inn í mitt sjálfstæðishjarta þegar fólk fer um langan veg til að leita sér að betra lífi. Ég ber virðingu fyrir því. En það gengur ekki að koma með tilhæfulausa umsókn hingað til lands. Staðan núna er sú að allir starfsmenn Útlendingastofnunar eru að vinna í umsóknum um alþjóðlega vernd og í hælisleitendakerfinu. Það þýðir það að fólk sem vill koma hingað í gegnum dvalarleyfiskerfið og er ekki að sækja um að fá neitt frá ríkinu mætir afgangi. Það er eins og við höfum verið að sturta niður og kveikja í peningum með því að vera með svona mikið af tilhæfulausum umsóknum inni í kerfinu sem stífla allt saman.“

Enginn þingmaður sem hún kann ekki vel við

Guðrún segist í grunninn sannfærð um að allir á Alþingi séu þar til þess að láta gott af sér leiða. En fólki greini á um leiðirnar að markmiðunum. Hún sjálf segist eiga góð samskipti og gott samstarf við alla þingmenn:

„Ég lagði mig fram um að kynnast öllum þingmönnum og það er enginn þingmaður sem ég kann ekki vel við. Þegar ég verð ráðherra, þá hafði það gert mér gott að hafa átt í mjög góðum samskiptum við alla þingmenn og mér líður eins og ég geti tekið upp símann og hringt í alla sem eru með mér í þinginu. Þetta er ótrúlegur staður með mikla sögu og ég trúi því að við sem sitjum á Alþingi séum öll með það markmið að láta gott af okkur leiða. En okkur greinir á um leiðina að markmiðinu.“

Guðrún þurfti mjög ung að taka við rekstri Kjörís eftir að faðir hennar varð bráðkvaddur aðeins 59 ára að aldri. Hún var þá aðeins 23 ára gömul, en tók engu að síður við rekstrinum. Þetta tímabil mótaði hana mikið.

Dagarnir undanfarið hafa verið langir í kosningabaráttunni og öllu því sem henni fylgir ofan í ráðherrastörfin. En Guðrún segist fá orku úr því að hitta fólk um allt land og segist brenna fyrir sín störf:

„Ég vaknaði klukkan 7 í morgun og er hérna hjá þér þegar það er komið kvöld og þannig eru dagarnir búnir að vera og þannig eru þeir gjarnan þegar maður er í ráðherraembætti. En þetta er svo skemmtilegt og gefandi að tíminn flýgur. Ég er í stærsta kjördæminu sem nær yfir mjög stórt svæði, þannig að þetta eru oft miklar keyrslur á milli landshluta líka, en mér finnst frábært að hitta fólk um allt land og það gefur mér orku. Þannig að þó að dagarnir geti verið mjög langir næ ég alltaf að hlaða mig og á ákveðinn hátt fæ ég orku af því að fá að hitta allt þetta fólk,“ segir Guðrún, sem ber þó ekki saman kosningabaráttuna á Íslandi við það sem gerist í Bandaríkjunum:

„Það er eiginlega ómannleg keyrsla á þeim sem bjóða sig fram til forseta þar. Flakk á milli tímabelta og stundum finnst manni eins og þau þurfi að vera á mörgum stöðum í einu og væntanlega ekki mikill tími fyrir svefn. Þess vegna var ég eiginlega mest hissa á því þegar það kom frétt um að það hefði verið reynt að ráða Trump af dögum í nálægt við golfvöll í miðri kosningabaráttu. Ég næ því ekki hvernig Donald Trump fann tíma til að vera í golfi þegar allt stóð sem hæst.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Móðir birti átakanlega mynd af syni sínum sinna heimanáminu

Móðir birti átakanlega mynd af syni sínum sinna heimanáminu
Fókus
Í gær

Rifjar tárvot upp líkamssmánun fjölmiðla

Rifjar tárvot upp líkamssmánun fjölmiðla
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vikan á Instagram – Lúðar að leika sér og skvísur í París

Vikan á Instagram – Lúðar að leika sér og skvísur í París
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sólveig notar vímuefni í æð alla daga – „Ég get ekki meira af þessu lífi“

Sólveig notar vímuefni í æð alla daga – „Ég get ekki meira af þessu lífi“