Það verður fjölmargt um að vera á Borgarbókasafninu í haustfríi grunnskólanna dagana 24. – 28. október, þegar börnin líta upp úr skólabókunum og njóta samveru með vinum og vandamönnum í nokkra daga, áður en haldið er áfram menntaveginn fram að jólum.
Hrekkjavakan er rétt handan við hornið og verður tekið forskot á sæluna með veglegri hrekkjavökudagskrá í Borgarbókasafninu.
Hér er heildardagskrá haustfrísins, en dæmi um viðburðina í boði má kynna sér hér fyrir neðan.
Í Gerðubergi verður hægt að skiptast á hrekkjavökubúningum í Fríbúðinni, föndra og búa til grímur fyrir hrekkjavökuna og í Spönginni er meðal annars boðið upp á að gera skuggaleikhús, fara í föndurratleik og skapa hrollvekjandi hrekkjavökuföndur.
Í Grófinni gefst börnum svo tækifæri að búa til sitt eigið skrímsli með rit- og myndhöfundinum Alexöndru Dögg Steinþórsdóttur.
Fjörið er aldrei langt undan í Borgarbókasafninu Sólheimum þar sem Sunna Dís Másdóttir stýrir stórskemmtilegu fjölskyldu- og vinakvissi og í Kringlunni eru Bingó og brandarar í boði samkvæmt venju.
Þau sem kjósa rólegri stund geta mætt í Úlfarsárdal í smiðjuna Perlur og morskóði þar sem myndlistakonan Anna Júlía Friðbjörnsdóttir kennir hvernig hægt er að skrifa skilaboð í morskóða með perlum.
Hér er heildardagskrá hausfrísins
Ókeypis er á haustdagskrá Borgarbókasafnsins líkt og á alla viðburði safnsins.