Það er ekki á degi hverjum sem innbrot í verslun telst jákvæður viðburður. Slíkt átti sér þó stað í morgunsárið hjá versluninni Ormsson í gær þegar sérlega djarft innbrot átti sér stað. Í tilkynningu segir að sjálf hvolpasveitin hafi gert atlögu og sent sinn besta mann sem kom á hundavaði að aðalinngangi með barefli í eftirdragi sem hann notaði til að brjóta gler í versluninni.
„Það var vart hundi út sigandi í morgun vegna kuldans en þessi lét það ekki á sig fá heldur reyndi að sækja sér eitthvað gott í versluninni,” segir Kjartan Sigurðsson framkvæmdastjóri Ormsson.„Svo sá hann reyndar að sér, enda brá honum við öll lætin, og hvarf með skottið á milli lappanna.”
Ormsson telur ekki rétt að gefa upp nafn innbrotsþjófsins að svo stöddu en starfsfólk Ormsson hefur þó gefið honum dulnefnið Snati Ormsson. „Þetta er auðvitað hundfúlt, en það er erfitt að vera reiður þegar um sætasta innbrotsþjóf landsins er að ræða. Hann lofaði líka að vera góður strákur í framtíðinni og fær bara nammi næst þegar hann kíkir til okkar,” segir Kjartan. „Það er ekki langt í svartan fössara og ég býst fastlega við honum þá með einhver hvolpalæti. Við förum bara strax af stað ef svo er.”