fbpx
Fimmtudagur 13.júní 2024
Fókus

Áttræður Hinrik kynntist systkinum sínum sem hann hafði aldrei vitað af – „Ég hefði vilja hitta blóðföður minn“

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 12. maí 2024 09:00

Lynn Arnerich, Hinrik Sigurðsson og Warren Smith loksins sameinuð. Mynd/aðsend

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í næstum áttatíu ár vissi Hinrik Sigurðsson ekki að hann ætti systkini og stóra fjölskyldu í Bandaríkjunum. Það var fyrir tilviljun að Hinrik og hálfsystkini hans sendu prufur í sama DNA bankann og þá kom sannleikurinn í ljós.

Hin bandarísku systkini og fjölskyldur þeirra hafa nýlokið ferð til Íslands til að kynnast Hinriki og hans fjölskyldu. Þrátt fyrir að hafa ekki vitað af hvor öðru í áttatíu ár var sem fjölskyldurnar hefðu ávallt þekkst. Tilfinningarnar voru þandar og tár féllu af hvarmi þegar kvatt var.

„Þetta er ákaflega almennilegt fólk. Ég var alveg hissa, það er eins og þau hafi alltaf verið hérna,“ segir Hinrik um systkini sín, Warren Smith og Lynn Arnerich, sem komu ásamt tólf mökum og börnum til Íslands. Hinrik er himinlifandi með heimsóknina og uppgötvunina en saknar þess þó að hafa aldrei fengið að hitta blóðföður sinn.

Blóðmóðirin fór með leyndarmálið í gröfina

Hinrik var fæddur í Reykjavík árið 1943 en alinn upp á Neskaupstað. Þegar hann var níu eða tíu ára gamall var honum sagt að hann hefði verið gefinn eftir fæðingu og að blóðmóðir hans, Guðný, væri systir kjörmóður hans. Guðný hafði orðið ólétt eftir stutt kynni og ætlaði að gefa Hinrik til ókunnugra. En það var ekki tekið í mál og þess í stað var farið með Hinrik austur.

Warren kom með heimagert vín í gjöf. Mynd/aðsend

Hinrik vissi hins vegar ekki hver væri blóðfaðir hans. Ungur fór hann á sjóinn og var á bátum fyrir sunnan. Þá kom hann stundum í land og talaði við blóðmóður sína, en þau voru þó ekki náin.

„Ég gekk á hana, hverra manna ég væri. Mig langaði til að vita það. En það var ekki nokkur leið að fá það upp úr henni,“ segir Hinrik. Fór Guðný því með þessa vitneskju í gröfina.

„Kjörmóðir mín sagði alltaf að þetta hafi verið Breti sem hafi farist í flugslysi á milli Íslands og Bretlands. Þá hætti kallinn bara að pæla í þessu,“ segir Hinrik. Áratugum saman var hann því algerlega grandlaus um að hann ætti fjölskyldu handan Atlantsála.

Sendu prufu í þrjá banka

Þetta tómarúm í fjölskyldusögunni var samt alltaf til staðar, og leitaði á. Það var fyrir tilstilli Guðbjargar Sævarsdóttur, barnabarns Hinriks, að hann fór loks í DNA próf í tilraun til þess að fylla upp í tómarúmið og komast að einhverju um föðurfjölskyldu sína.

Guðbjörg segist hafa fengið þessa hugmynd fyrir um þremur árum síðan, þegar hún lá fótbrotin heima og hafði mikinn tíma til að pæla í þessu.

Hinrik þegar hann sendi prufuna fyrir þremur árum síðan. Mynd/aðsend

„Við sáum í þáttunum „Leitin að upprunanum“ að það væri hægt að leita í gegnum DNA banka, 23andMe. Að panta DNA prófunarsett, taka munnvatnsprufu með pinna og senda til baka,“ segir Guðbjörg. Ef einhver skyldur manni hefði einnig sent prufu í bankann yrði manni gert viðvart.

„Við sendum á þrjá banka og framan af komu aldrei nein almennileg svör. Aðeins fjarskyldir ættingjar. Við náðum aldrei að þrengja hringinn. En í þriðja bankanum kom hálfbróðirinn Warren upp,“ segir Guðbjörg.

„Það var rosa spenningur yfir þessu. Við höfðum samband inn á forritinu Ancestry og spurðum hvort það gæti verið að faðir hans hafi verið hérna á Íslandi á þessum árum. Hann sagði hins vegar nei, hann hafi ekki vitað til þess. Við vorum mjög hugsandi yfir þessu. En seinna um kvöldið sendi hann aftur skilaboð. Þá var hann búinn að ræða við systur sína sem hafði sagt að faðir þeirra hefði komið við á Íslandi akkúrat á þessu ári sem afi minn var getinn.“

Það var fyrir algera tilviljun að bandaríska fjölskyldan hafði sent inn DNA prufur. Það var aðeins vegna ættfræðiáhuga sonar Warrens. „Þetta var bara heppni,“ segir Guðbjörg.

Eignaðist sjö börn

Þar með var gátan leyst. Faðir Hinriks hét Charles Edward Smith, kominn af bændum í Mississippi en búsettur í bænum Great Falls í Montana fylki í norðvestur hluta Bandaríkjanna.

Charles var giftur annarri konu í Bandaríkjunum þegar hann kom til Íslands með hernámsliðinu og eignaðist Hinrik með Guðnýju. Hann eignaðist Warren og Lynn með annarri eiginkonu sinni, um áratug eftir að hann eignaðist Hinrik.

Charles lést árið 2007. Mynd/aðsend

Charles átti reyndar eftir að giftast tvisvar sinnum í viðbót áður en hann lést á spítala fyrir uppgjafahermenn árið 2007. Hann var sæmdur purpurahjartanu fyrir framgöngu sína í stríðinu en lengst af starfaði hann sem vörubílstjóri.

Guðbjörg segir að það sé ekki vitað hvort að Charles hafi haft nokkurra vitneskju um að hann ætti son á Íslandi. En eftir því sem hún best veit hafi hann heldur ekki verið neinn fyrirmyndarfaðir eða fjölskyldumaður. Hann átti alls sjö börn.

Eins og hefði ávallt þekkt hann

Fjölskyldurnar hafa verið í reglulegum samskiptum á samfélagsmiðlum allar götur síðan. Warren býr í Great Falls, Lynn í Kaliforníu og börnin út um allt í Bandaríkjunum.

Það næsta sem gerðist var að Guðbjörg hitti Warren, eiginkonu hans og son þegar hún var á ferðalagi í Flórída um þar síðustu jól og þau fyrir tilviljun á sama svæði.

Guðbjörg Sævarsdóttir barnabarn Hinriks með Warren og Lynn. Mynd/aðsend

„Það var pínu skrýtið. En ég fann það strax að þessi maður væri góður og gott andrúmsloft í kringum hann. Mér leið eins og ég hefði alltaf þekkt hann,“ segir hún.

Loks ákváðu Warren og Lynn að koma til Íslands vorið 2024 með fjölskyldur sínar með sér, samanlagt fjórtán manns.

Samtvinnaðar fjölskyldur

„Við vorum svolítið stressuð að hitta þau. En svo féll þetta allt í stað,“ segir Guðbjörg um heimsóknina. „Þau voru strax partur af okkur.“

Bandaríkjamennirnir vildu ekki aðeins hitta sína íslensku fjölskyldu heldur einnig sjá landið þannig að leigð var rúta og farið með þá Gullna hringinn og að Jökulsárlóni.

37 manns úr báðum fjölskyldum hittust á Íslandi í vor. Mynd/aðsend

Hinrik segir sérstaklega gott að finna hvað þau voru ánægð með heimsóknina. Allt hafi verið svo eðlilegt.

Aðspurður um hvort það fylgdi því ekki söknuður að hafa átt systkini en ekki fengið að kynnast þeim í öll þessi ár segist Hinrik ekki finna fyrir því. „Ég neita því ekki að ég hefði vilja hitta blóðföður minn,“ segir hann.

Á miðvikudag var haldin veisla þegar Bandaríkjamennirnir voru að fara heim.

Leigð var rúta og farið Gullna hringinn og að Jökulsárlóni. Mynd/aðsend

„Þegar að kom að kveðjustund þá var grátið og okkur öllum þótti þetta frekar erfitt, sem er ótrúlega skrítin tilfinning. Okkur langaði ekkert að kveðja þau og við vitum ekkert hvenær eða hvort við myndum hittast öll aftur,“ segir Guðbjörg.

Hinrik sér fyrir sér að fjölskyldurnar verði samtvinnaðar til framtíðar. „Þau eru strax búin að bjóða okkur að koma. Við erum að spá í að þiggja það og fara til Montana,“ segir hann. Sú ferð gæti verið farin í sumarlok.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Draumateymið eru stjörnurnar sem hafa tröllriðið fyrirsögnum ársins – Fyrrverandi J. Lo, Baby Reindeer parið og Gypsy Rose

Draumateymið eru stjörnurnar sem hafa tröllriðið fyrirsögnum ársins – Fyrrverandi J. Lo, Baby Reindeer parið og Gypsy Rose
Fókus
Fyrir 2 dögum

Skömmunum rignir yfir RÚV – „Vér mótmælum öll“

Skömmunum rignir yfir RÚV – „Vér mótmælum öll“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Þakkar litlu Ellý fyrir að standa með sér – „Þú hefur sýnt það og sannað að þú trúir á okkur“

Þakkar litlu Ellý fyrir að standa með sér – „Þú hefur sýnt það og sannað að þú trúir á okkur“
Fókus
Fyrir 2 dögum

„Ég geri mitt besta til að lifa einn dag í einu og gera það besta úr hverjum degi sem mér er gefinn“

„Ég geri mitt besta til að lifa einn dag í einu og gera það besta úr hverjum degi sem mér er gefinn“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Skaftáreldar 1783–1784 – Voru þeir örlagavaldur í þróun vestrænna samfélaga?

Skaftáreldar 1783–1784 – Voru þeir örlagavaldur í þróun vestrænna samfélaga?
Fókus
Fyrir 3 dögum

Leikarinn segir það hjálpa ferli sínum að vera lögblindur

Leikarinn segir það hjálpa ferli sínum að vera lögblindur