Þorsteinn V. Einarsson er umsjónarmaður netmiðilsins Karlmennskunnar og heldur úti samnefndu hlaðvarpi. Í lok nóvember gaf hann út bókina Þriðja vaktin – jafnréttishandbók heimilisins ásamt eiginkonu sinni, sálfræðingnum Huldu Tölgyes. Bókin var skrifuð í nánu samstarfi við ritstjórann Hauk Bragason.
Þorsteinn fékk Huldu og Hauk sem gesti í nýjasta þætti af hlaðvarpinu Karlmennskan, en þátturinn er jafnframt fyrsti þáttur annarrar þáttaraðar.
„Í þessum þætti gefum við innsýn í ferlið á skrifunum, segjum frá því hvernig bókin þróaðist, segjum frá upplifun okkar af ofsafenginni en innihaldslausri gagnrýni og hvernig taugakerfi Huldu hrundi eftir að skrifunum lauk,“ kemur fram í lýsingu þáttarins á Spotify.
„Bókin kom út í lok nóvember og ég held að það hafi gengið vel á íslenskan mælikvarða í forsölu, við seldum nokkur hundruð eintök og upplagið var kannski stærra en almennt gengur og gerist hjá fyrstu höfundum,“ segir Þorsteinn.
Þau prentuðu 1500 eintök og segjast eiga innan við hundrað eintök eftir.
„Það gekk alveg vel. En Hulda, ef þú reynir að lýsa fyrir mér þessum eina og hálfa mánuði, frá því að bókin kom út. Hvernig upplifðir þú þetta?,“ spyr Þorsteinn.
„Ég náttúrulega upplifði svona einhver kulnunareinkenni og ég man eftir því, það var svolítið erfitt tímabil [eldri dóttir okkar var að skipta um skóla og sú yngri heima, rétt rúmlega eins árs.] Stundum, nokkra morgna, var ég eiginlega bara skjálfandi heima. Þú varst að spyrja hvað þú gætir gert en taugakerfið mitt var í rúst […] Ég bara keyrði mig út. Sem ég hef gert áður og sem ég er ekki stolt af. Ég veit ekki hvort þetta hefði líka gerst ef við hefðum ekki verið að skrifa bók [við þessar aðstæður og allt neikvæða umtalið],“ segir Hulda.
„Það sem gaf mér styrk í þessu ferli voru konurnar sem hafa sýnt mér þakklæti og sent mér persónuleg skilaboð: „Takk fyrir að berjast, við getum það ekki allar og við erum sumar í þannig samböndum að það er ekki sniðugt fyrir okkur að berjast.“ Og það var svona minn eldur, ég vil gera þetta fyrir þær. Þetta þarf að gerast og ég fann það líka, að þetta þurfti að gerast og þetta þurfti að gerast þarna. En ég borgaði fyrir þetta með taugakerfinu, það krassaði, sem gerist eftir langvarandi álag.“
„Svo fór fjölmiðlaumræðan af stað og við vissum alveg að það myndi gerast og erum svo sem vön því að það er talað alls konar um okkur en mér fannst svolítið óþægilegt þarna að fólk var að senda kannski á mig skjáskot að þessi væri að segja þetta og hitt en ég vildi hjúpa mig frá alheiminum. Bókin var komin í sölu […] ég vildi að fólk myndi láta mig í friði nema það hafði eitthvað gott að segja. Ég var bara svo buguð og fannst svo óþægilegt.“
Hulda segir að þetta hafi verið ótrúlega mikið áreiti.
„Ég held að fólk sem hefur ekki upplifað, til dæmis neikvæða umtalið í kommentakerfinu og fjölmiðlum, fólk sem hefur ekki upplifað þetta veit ekki hversu hellað þetta er. Þetta er ógeðslega hellað en ég veit það líka að það er sammannlegt fyrirbæri að við hræðumst það að fólki finnist eitthvað slæmt um okkur og tali illa um okkur. Svo er þetta fyrir allra augum og endurtekið og ítrekað, og þetta var bara erfiður tími. Mjög erfiður tími. En auðvitað var gott að sjá að bókin seldist vel og konur voru þakklátar og líka fullt af körlum.“
Sjá einnig: Snorri gerir stólpagrín að tilraun Þorsteins til að slaufa Ester bókhaldara Bónus
Þorsteinn rifjaði upp Bónus málið. Hann segir að kvöldið sem hann birti fyrstu færsluna um að Bónus væri ekki með bókina í sölu hafi hann verið þreyttur og pirraður.
„Okkur báðum langaði að flýja til útlanda á þessu augnabliki,“ segir Þorsteinn.
„Já, við pældum í því, við virkilega pældum í því hvað kostaði að leigja íbúð á Spáni eða Tenerife, til langs tíma,“ segir Hulda.
„Það voru bara svo margir að bíða eftir að þú, eða þið, myndir misstíga þig. Ég segi það alveg hreint út og stend með því,“ segir Haukur.
„Og við erum alltaf þar, það er alltaf einhver að bíða eftir því að við misstígum okkur,“ segir Hulda.
„Já, misstíga sig já, jú jú. Ég tek það svo sem á mig, það voru mistök að, æi ég nenni ekki að fara inn í þetta, krakkar,“ segir þá Þorsteinn.
„Þú ert líka búinn að tjá þig um þetta,“ segir Hulda.
Þau ræða næst um að gagnrýnin hafi aldrei snerist um innihald bókarinnar. „Efnislega er bókin mjög góð og ég veit það. Þannig það var líka styrkurinn, ókei, drullið yfir okkur eins og þið viljið og það mun hvort sem er vera og það hefur verið og verður áfram, en bókin er góð,“ segir Hulda.
Þá undrast Þorsteinn á því að enginn hafi skrifað ritdóm um bókina.
Þau ræða þetta nánar í spilaranum hér að neðan.