fbpx
Sunnudagur 19.maí 2024
Fókus

Sneri heim þó að allir „hommarnir í skólanum væru tilbúnir að giftast mér“ 

Fókus
Mánudaginn 19. febrúar 2024 21:52

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Erla Ruth Harðardóttir, leikkona með meiru og leiðsögumaður er viðmælandi Mumma í nýjasta þætti Kalda Pottsins. Erla Ruth lærði leiklist á sínum tíma í London og starfaði svo um árabil við leikhús og kvikmyndaleik. Síðan stofnaði hún skóla fyrir börn þar sem hún kenndi söng og leiklist í 24 ár.

Síðustu ár hefur þó landið okkar átt hug hennar allan. Hún starfar við leiðsögn fyrir ferðamenn og segist í hvert sinn verða meira hugfangin að okkar fagra landi. Hún hefur í nógu að snúast og rekur sitt eigið leiðsögufyrirtæki en veigrar sér ekki við að taka þátt í sjónvarpsseríum þegar þau tækifæri banka á dyrnar. Hún segist mjög sátt við lífið eins og það hefur raðað sér en í þættinum ræða þau Mummi lífshlaup hennar, tækifærin sem opnuðust í London eftir leiklistarnámið sem hún ákvað að grípa ekki, og svo ákvörðunina að sleppa sviðshlutverki fyrir móðurhlutverkið, og allt hitt.

Fagnaði barni með börnum

Erla kemur úr stórum systkinahóp, en faðir hennar átti alls 11 börn sem er nokkuð vel af sér vikið. Hún segir skemmtilegt að segja frá því í dag, þó það hafi ekki verið sérstaklega skemmtisaga á sínum tíma, hvernig faðir hennar ákvað að fagna frumburði sínum með óhefðbundnum hætti.

„Ég er yngst af fjórum systrum, það eru alsystur mínar, þar er ég yngst. Við erum fyrstu börnin hans pabba. En svo gerist svolítið skemmtileg saga, eða skemmtileg…. Pabbi, þegar hann eignast sitt fyrsta barn, sem er elsta systir mín, þá ákveður hann að fagna því. Hann fer út að skemmta sér og hittir þar einhverja konu.“

Ekki fór betur en svo að þessi kona varð í kjölfarið ólétt og það af tvíburum. Faðir hennar tók ábyrgð á þessari viðbót við fjölskylduna og sinnti drengjunum tveimur, þó svo að móðir Erlu hafi ekki verið sérstaklega lukkuleg. Þau skildu þó ekki fyrr en löngu siðar og eftir að bæta þremur stúlkum við hópinn.

Faðir Erlu giftist svo aftur og eignaðist fimm börn með seinni konu sinni. Sú kona ákvað að halda vel utan um systkinahópinn, nokkuð sem Erla er mjög þakklát fyrir.

Brast opinberlega í grát

Erla segist hafa glímt við mótþróaröskun sem varð til þess að hún ákvað að fara í Verslunarskólann. Hún hafði ákveðið að verða ekki stúdent heldur ætlaði að taka tveggja ára verslunarpróf. Til að mega klára stúdentspróf að verslunarprófinu loknu þurfti tiltekna lágmarkseinkunn, sem margir náðu ekki þrátt fyrir að vilja halda áfram. Erla náði þessari lágmarkseinkunn og gott betur og hafði það ekki í sér að láta þar við sitja. Svo hún kláraði stúdentinn.

Svo ætlaði hún í Leiklistarskólann. Þar var langt og strangt inntökuferli. Erla komst í gegnum hverja síuna eftir annarri og að lokum komst hún í lokaúrtak og á þeim tíma þótti nokkuð öruggt að ná inn, þegar fólk hafði komist þetta langt í ferlinu.

„Þarna var okkar besta leikkona fyrr og síðar, vil ég meina. Ólafía Hrönn Jónsdóttir, hún var með mér í þessum 16 manna hópi og þegar ég kem, þá situr hópurinn þarna fyrir utan og þau vissu öll að ég færi ekki inn því þau voru komin með átta já. En þau eru bara hæ, og ég var þarna svo örugg um að ég væri að fara inn. Fer inn og fæ umslagið mitt opna á leiðinni niður stigann og er nýbúin að opna það þegar ég kem út og þar bara brest ég opinberlega í hágráta, ég var svo miður mín. Og svo varð ég reið og fannst ég svo svikin.“

Skólameistarinn hvatti hana til að sækja um næst þegar tekið yrði inn í skólann að tveimur árum liðnum. Það gat Erla ekki hugsað sér. Þetta myndi hún ekki ganga í gegnum aftur. Hún sótti í staðinn um fimm skóla í Bretlandi og komst inn í þrjá. Hún valdi loks skóla sem er aðeins fyrir utan London og hóf þar þriggja ára nám.

Allir hommarnir tilbúnir í hjónaband

Hún var fyrsti Íslendingurinn til að ganga í skólann og segir að það sé líklega ástæðan fyrir því að fjöldi umboðsmanna sýndi henni áhuga eftir útskriftarsýninguna á West End.

Hún hafði að sýningunni lokinni skellt sér á djammið í London og gisti þar miðsvæðis hjá öðrum Íslendingum. Þegar hún svo skilaði sér heim þremur dögum síðar sögðu meðleigjendur hennar að síminn hefði varla stoppað allan tímann, en á þessum tíma voru engir farsímar heldur bara landlína svo ómögulegt var að hafa samband við Erlu þegar hún var ekki heima.

Þá stóð hún frammi fyrir því að fá leyfi til að starfa í London en bara ein leið var fær í stöðunni. Að ganga í hjónaband með Breta. Erla hafði verið í sambandi með barnsföður sínum síðan hún var 16 ára, en hafði engu að síður tækifæri til að festa ráð sitt, án þess að festa ráð sitt. Hún leit þó á hjónaband sem of heilagan hlut til að nota það í framapoti og hélt aftur til Íslands.

„Þó allir hommarnir í skólanum væri tilbúnir að giftast mér svo ég gæti verið áfram í Bretlandi og unnið þar“

Hlusta má á viðtalið við Erlu og fyrri þætti Kalda pottsins á tyr.is eða á Spotify.

Kaldi Potturinn er spjallþáttur þar sem Mummi fær til sín á sviðið heima alls konar fólk úr öllum kimum samfélagsins, með fjölbreytta lífsreynslu, djúpa sýn á tilveruna og sterkar skoðanir á lífinu. Fólk sem fer sínar eigin leiðir. Mummi hefur sjálfur sterkar skoðanir og er óhræddur við að tjá sig um hvað sem er, svo allt fær að flakka á sviðinu. Kaldi Potturinn hefur ekkert að fela.

Dagskrárgerð Kalda pottsins er í höndum Mumma og stjórn upptöku er í höndum Gunnars Bjarna en upptökur fara fram á heimili Mumma og eiginkonu hans, Þórunnar Wolfram, á Gömlu Borg í Grímsnesi.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Sprakk úr hlátri þegar hún sá hvað kærastinn gerði við tannburstann hennar

Sprakk úr hlátri þegar hún sá hvað kærastinn gerði við tannburstann hennar
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir þetta raunverulegu ástæðuna fyrir að Hollandi var vikið úr Eurovision -„Allir voru komnir með nóg af stælunum í Ísrael“

Segir þetta raunverulegu ástæðuna fyrir að Hollandi var vikið úr Eurovision -„Allir voru komnir með nóg af stælunum í Ísrael“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Haukur Morthens 100 ára – Heiðurstónleikar í Hörpu sunnudaginn 26. maí

Haukur Morthens 100 ára – Heiðurstónleikar í Hörpu sunnudaginn 26. maí
Fókus
Fyrir 4 dögum

Landafræðin heldur sumum Íslendingum erlendis

Landafræðin heldur sumum Íslendingum erlendis
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Maður getur ekki látið óttann stýra lífi sínu“

„Maður getur ekki látið óttann stýra lífi sínu“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Samhliða því að reyna að finna gullmolana í drullusvaðinu sem ég var stödd í“

„Samhliða því að reyna að finna gullmolana í drullusvaðinu sem ég var stödd í“