Snyrtifræðingurinn Gurrý Jónsdóttir segir frá stórkostlegum fatamistökum hennar um helgina þegar hún var á Vinnustofu Kjarvals í Reykjavík með kærasta sínum, Agli Einarssyni, kallaður Gillz.
Hún rifjar upp fyndna atvikið í hlaðvarpsþættinum Spjallið. Hún hefur umsjón með þættinum ásamt vinkonum sínum og áhrifavöldunum Línu Birgittu Sigurðardóttur og Sólrúnu Diego.
Um helgina höfðu vinkonurnar skipulagt skemmtilegt kvöld saman ásamt mökum. Gurrý og Egill fengu pössun á undan hinum tveimur pörunum og mættu því aðeins fyrr í miðbæinn og fengu sér drykk á Vinnustofu Kjarvals.
„Þetta var smá vandræðalegt þarna á Kjarval. Ég er ennþá að hugsa um þetta, hvað er málið,“ segir Gurrý.
„Málið er að við Egill mættum þarna á Kjarval bara tvö aðeins fyrr, við hittum kunningjahjón sem við vorum að spjalla við. Ekki einhver sem við þekkjum vel, bara „fellar“. Svo vorum við að fara og ég stóð upp, við einhvern veginn stóðum bæði og þau sátu og vorum að kveðja þau. Mér fannst maðurinn stara eitthvað svo óvenju mikið á mig. Þetta var eitthvað skrýtið. Svo löbbuðum við Egill inn í lyftuna, þar sem var spegill. Þá hafði blússan mín, sem var svona bundin yfir brjóstkassann opnast!“ segir hún við hlátraköll vinkvennanna.
„Ég sagði við Egil í lyftunni: „Bara bíddu ástin mín, þú ætlar ekkert að láta mig vita að bolurinn er bara opinn?“ Hvað haldið þið að Egill hafi sagt?! „Ég bara hélt að þetta ætti að vera svona.“ Hvað hélstu að ég ætlaði bara að vera nakin inni á Kjarval eða?!“ segir Gurrý.
Hlustaðu á þáttinn hér að neðan.
Spennandi tímar eru fram undan hjá Spjalldrottningunum. Frá og með 1. október verða þættirnir aðeins aðgengilegir í gegnum áskrift, fyrir utan einn þátt á mánuði.
Sjá einnig: Gurrý, Lína Birgitta og Sólrún Diego ætla að hasla sér völl á heimavelli hlaðvarpskónganna