Hundurinn er besti vinur mannsins. Hundurinn er samt á sama tíma háður eiganda sínum hvað varðar félagsskap, næringu, hreyfingu og slíkt, og líkt og börn getur hundur upplifað aðskilnaðarkvíða.
Fæst erum við í þeirri stöðu að geta tekið þennan ferfætta besta vin okkar með í vinnuna og ófáir hundar mega því dvelja aleinir heima á meðan eigandinn vinnur fyrir beikoninu. Dýraverndarsamtökin RSPCA og Blái Krossinn hafa nú opinberað hversu lengi ferfættu vinirnir þola að vera einir, en um er að ræða samspil nokkurra þátta.
Hér skiptir máli hversu gamall hundurinn er og hversu auðvelt hann á með að halda í sér. Eins skiptir stærð hundsins máli þar sem stærri hundar þurfa meiri og tíðari hreyfingu. Síðan skiptir líka máli hvort að hundur sé haldinn aðskilnaðarkvíða eða ekki, en oft getur hundurinn borið harm sinn í hljóði svo áðurnefnd samtök benda eigendum á að nota sérstaka gæludýraeftirlitsmyndavél til að fylgjast með hundinum þegar hann er einn og sjá hvort hann sýni merki um streitu.
„Sumir hundar verða kvíðnir ef það er skyndileg breyting í lífi þeirra, svo sem þegar þeir flytja í nýtt hús eða til nýrrar fjölskyldu. Eins ef þeir fara skyndilega að verja mun minni tíma með eigendum sínum heldur en þeir eru vanir, svo sem þegar fólk fer aftur í vinnu eftir hlé. Jafnvel ef annað gæludýr fjölskyldunnar fellur frá, þá getur það valdið aðskilnaðarkvíða,“ segir fóðurframleiðandinn Royal Canin.
Því sé ávallt best að þjálfa hundana til einverunnar með því að skilja þá fyrst eftir stutt og svo hægt og bítandi lengja þann tíma. Hundur með aðskilnaðarkvíða gæti tekið upp á því að byrja að naga hluti, gera þarfir sínar inni og að gelta viðstöðulaust. RSPCA segir að þessi hegðun geti svo valdið því að eigendur losi sig við hundinn, en það sé algengt að þeir hundar sem endi hjá dýrahjálp séu með slíkan kvíða.
Gott sé því að koma upp gæludýramyndavél þar sem hægt er að vakta hundinn og jafnvel hægt að hringja í hann.
„Þú gætir verið ómeðvitaður um að hundurinn þinn sé að þjást, nema þú sjáir sönnunargögn um skemmdarverk þegar þú kemur heim eða færð kvörtun frá nágranna um gelt. Við mælum með því að eigendur vakti hunda sína þegar þeir eru skildir eftir, við og við, bara til að tryggja að þeir séu ekki að sýna dulin merki um streitu svo sem að skjálfa, ganga taugaveiklaðir um gólf, eða væla.“
RSPCA segir að eigendur ættu ekki að skilja hunda sína eftir lengur en í fjórar klukkustundir í einu, þó vissulega fari þetta líka eftir aldri, tegund og hvernig þeim almennt líði einum. Sumum þyki erfitt að vera svona lengi frá eigendum sínum á meðan aðrir þoli það betur.
Gæludýraþjónustan Rover segir þó að skilja megi hunda lengur eftir ef þeir eiga auðvelt með að halda í sér. Þá geti þeir verið einir í allt að átta klukkustundir, en þá sé vissulega gott að geta fylgst með þeim til að kanna líðan þeirra. Og þó svo hundur eigi auðvelt með að halda í sér, þá sé það slæmt fyrir blöðruna hans að gera slíkt of lengi, en það geti jafnvel leitt til blöðrubólgu, þvagsteina eða þvagkristalla og þar fyrir utan sé bara óþægilegt að halda of lengi í sér.
Svo til að taka þetta saman: Helst ekki lengur en í fjóra tíma í einu, en ef hundurinn þolir einveruna vel þá er hægt að skilja hann eftir í allt að átta tíma.