Dasia Washington var aðeins 22 ára gömul þegar líf hennar breyttist í martröð í kjölfar þess sem átti að vera ósköp venjulegt stefnumót. Hún greindi frá málinu á TikTok og hvernig hún þurfti að grípa til örþrifaráða til að endurheimta líf sitt og öryggi aftur.
Hún hafði kynnst manni og þau höfðu þegar farið á eitt stefnumót. Eftir seinna stefnumótið áttaði Dasia sig þó á því að þau væru ekki að smella. Hún útskýrði því fyrir manninum að hún væri hreinlega of upptekin, og ekki á réttum stað andlega til að halda þessu áfram. Maðurinn sagðist skilja hana og taldi Dasia að þau hefðu skilið sátt.
Einum og hálfum mánuði síðar ákvað maðurinn þó að láta ekki kyrrt liggja. Hann fór að senda henni hundruð skilaboða á dag þar sem hann sagðist vera góður maður og hann ætti það inni hjá henni að hún gæfi honum annað tækifæri.
„Fyrst leiddi ég þetta hjá mér og varð bara smá pirruð. Ég hugsaði: Hver heldur hann að hann sé? en fljótlega fór ég þó að verða hrædd. Hann fór að senda mér myndir af húsinu mínu og sagðist vera að undirbúa innrás.“
Skilaboðin héldu áfram að berast næsta mánuðinn og Dasia leitaði aðstoðar hjá lögreglu. Þá fór hún að fá sendar myndir, sem maðurinn tók, sem sýndu hana á lögreglustöðinni. Hann vék sér að nágrönnum hennar og ókunnugum úti á götu og fékk þeim að færa Dasiu skilaboð. Þetta gerði það að verkum að hún upplifði að engum væri treystandi. Að lokum þorði hún ekki annað en að flytja því þó svo hún hafi fengið í gegn nálgunarbann þá hafi það ekkert gert til að stöðva ofsóknirnar. Hún var hætt að geta sofið enda sagðist maðurinn vera fyrir utan heimili hennar og ætlaði sér að brjótast inn.
Hún leitaði ítrekað til lögreglu og lagði fram um tíu kærur. Hún fékk þó þau svör að ekkert væri hægt að gera þar sem maðurinn hefði tæknilega séð ekki meitt hana. Eftir að hún flutti hélt hún að ofsóknirnar myndu hætta. En það var ekki svo. Maðurinn villti á sér heimildir, þóttist vera leigusali og hafði samband við pósthúsið til að reyna að finna nýja heimilisfangið hennar. Eins notaði hann samfélagsmiðla og vaktaði póstsendingar til að hafa uppi á henni.
Á þessum tíma sagðist maðurinn ætla að drepa hana og að hann kæmist upp með það þar sem hann væri hvítur maður á meðan hún væri svört kona.
Þá loksins ákvað lögregla að taka málið upp og rannsóknarlögreglumaður fór til fundar við manninn. Lögreglumaðurinn sagði í kjölfarið að Dasia hlyti að vera að misskilja. Hér væri á ferðinni indælis maður, sem væri kurteis og vel máli farinn.
„Þarna vissi ég að þessi maður væri að fara að drepa mig, og að hann kæmist upp með það“
Maðurinn skipti ítrekað um símanúmer til að Dasia næði ekki að blokka hann. Hann notaði einnig smáforrit á borð við tungumálaforritið Duolingu til að senda henni skilaboð. Þegar Dasia skráði sig á kjörskrá í nýja hverfinu sínu, komst maðurinn yfir nýja heimilisfangið hennar.
Dasia var þarna búinn að verða sér úti um byssu, þrátt fyrir að hafa alla tíð verið á móti skotvopnum þar sem foreldrar hennar urðu fyrir skotárás þegar hún var barn. Maðurinn neitaði þó að láta hana í friði. Hann heimtaði að hún myndi hitta hann, annars myndi hann rífa hana í sig og nota blóðið hennar sem sleipiefni. Hann náði að forðast það að rekast á lögreglu og mætti ítrekað heim til Dasiu og stóð þar fyrir utan. Svo skyndilega hætti hún að heyra frá honum.
Nokkru síðar lét hann til skara skríða. Hann sparkaði upp hurðinni heima hjá henni og ruddist inn.
„Ég man eftir að bara grípa byssuna mína af borðinu og ég var ekki einu sinni reið, ég var ekki í uppnámi. Ég hafði ákveðið að þetta væri spurning um mitt líf eða hans, og ég valdi mig. Og ég skaut hann.“
Maðurinn reyndi að forða sér, en sökum áverka náði hann ekki að hlaupa og lögreglan var fljót að hafa uppi á honum. Hann var í kjölfarið dæmdur fyrir brot sín gegn Dasiu og er nú í fangelsi.
Dasia upplifði valdeflingu eftir að hafa aftur fengið frelsið og öryggið sitt til baka. Hún fór að vinna á skotsvæði og hefur staðið fyrir „Neitum að vera fórnarlömb“ námskeiðum til að hjálpa öðrum konum að upplifa valdeflingu og læra að verja sig.
Í dag vinnur hún hjá stóru tæknifyrirtæki og segist hætt að taka lífinu sem sjálfsögðum hlut.
@dasiadoesit #stitch with @aaronfullerx Im cool but I’m not that cool damn #healedgirlfall #stalker #fyp #fy #FlexEveryAngle #stalked ♬ original sound – Dasia Does It