Söngkonan Demi Lovato segist aldrei upplifa meira sjálfstraust heldur en á meðan hún stundar kynlíf. Þar geti hún lagt allt til hliðar og verið meira í núinu. Hún afhjúpaði þetta í hlaðvarpinu LadyGang á dögunum.
„Ég hugsa að þetta sé vegna þess að þar er ég svo mikið í núinu að ég hugsa ekkert um hvernig lífið er annars að ganga og það sem vanalega hvílir þungt á manni yfir daginn. Eða þannig er þetta fyrir mér, kannski er það ekki svo fyrir alla.“
Demi á sem stendur í sambandi við tónlistarmanninn Jute$, en þau fóru að stinga saman nefjum seinasta sumar. Demi hefur greint frá því að hafa aldrei verið ástfangnari og segir kærastan vera gífurlega glæsilegan, kynþokkafullan og hæfileikaríkan.
„Ég hef beðið allt mitt líf eftir að finna þig og ég get ekki beðið eftir að fá að fagna svo mörgum afmælum í viðbót. Þú ert draumur sem rættist og ég er þakklát að geta kallað þig minn,“ skrifaði hún á Instagram í tilefni afmælis ástmannsins.
Demi vakti athygli í síðustu viku þegar hún greindi frá því að henni hafi tekist að yfirbuga „pabbavandamál“ sín eftir að hafa ítrekað átt í ástarsamböndum við eldri menn. Þegar hún horfi til baka þá veki það með henni óhug að þessir eldri menn hafi sótt í mun yngri konu, og ætli hér eftir að halda sig við karlmenn á hennar aldri og helst ætli hún að halda sig við Jute$ sem hún vonast til að giftast í náinni framtíð.
„Ég tel að þegar fólki tekst að finna einhvern sem lætur það upplifa öryggi, sem það laðast að, sem það hlær með – þá sé það uppskriftin að virkilega góðu sambandi.“