Stóra-ananasmálið var eitt af fréttamálum ársins 2017 eftir að Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands þáði boð Menntaskólans á Akureyri um heimsókn. Þar var hann meðal annars spurður hver afstaða hans væri að setja ananas á pizzur. Sagðist Guðni alfarið á móti því og bætti því við að það ætti að setja lög um að banna ananas á pizzur.
Vöktu orð Guðna mikla athygli og það einnig út fyrir landsteinana og var fjallað um málið víða um heim. Gekk meira að segja undirskriftalisti um að Guðni ætti að segja af sér vegna málsins, sem fáir skrifuðu þó undir. Sagði Guðni orð sín gott dæmi um að við búum í heimsþorpi.
„Mér finnst ananas góður, bara ekki á pítsu. Ég get ekki sett lög sem banna fólki að setja ananas á pítsuna sína. Mér finnst gott að hafa ekki þau völd. Forsetar eiga ekki að hafa alræðisvald. Ég myndi ekki vilja gegna þessu embætti ef ég gæti sett lög sem bönnuðu það sem mér mislíkar. Ég myndi ekki vilja búa í þannig landi. Ég mæli með fiskmeti á pítsu.“
Sjá einnig: 53 skora á Guðna Th. að segja af sér vegna stóra ananas-málsins:„Valdi að sitja á þessum öfgafullu skoðunum sínum“
Í júní sama ár minntist Guðni ananas-mannsins, Sam Panopoulos, Kanadamannsins sem fyrstur allra setti ananas á pizzu.
Ástralir hafa nú tekið málið föstum tökum, aðeins rúmum sex árum á eftir Íslendingum.
Á vefnum Nine.com.au var hægt að taka þátt í könnun og taka afstöðu til hvort ananas ætti að eiga heima á pizzu eða ekki. 72% þáttakenda svöruðu játandi og segja ananas svo sannarlega eiga heima á pizzu.
Segir í frétt á vef Kitchen Nine að umræðan um ananas sem pizzuálegg hafi verið í gangi í áratugi og heimsfrægir kokkar og íslenski forsetinn komið þar við sögu.
Er vísað þar til ofangreindra orða Guðna frá árinu 2017 og að viku síðar hafi breskur grínari tekið upp á því að senda ananaspizzur í íslenska sendiráðið í London. Ítalski kokkurinn Carlo Cracco og breski kokkurinn Gordon Ramsay voru ekki á einu máli, sá ítalski var fyrir ananasinn, Ramsay ekki.
Þátttakendur í áströlsku könnuninni skildu margir eftir athugasemdir.
„Ananas á pizzuna er lykilatriði,“ sagði einn. „Pizza með ananas og ansjósum=himnaríki,“ sagði annar. Sá þriðji sagði að svarið færi eftir hvað annað væri á pizzunni.
Af þeim 587 eða 28% sem sögðu nei í könnuninni voru margir þeirra með mjög sterka skoðun:
„Heitur ananas er ógeð.“
„Af hverju borðar einhver ananas á pizzu? Ojbara.“
„Aldrei aldrei setja ananas á pizzu, þetta er bandarískt fyrirbæri.“