fbpx
Mánudagur 25.september 2023
Fókus

Foreldrar Graeme litla unnu í lottó – Svo hvarf sonur þeirra

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Sunnudaginn 28. maí 2023 23:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrrverandi ríkissaksóknari New South Wales i Ástralíku, Mark Tedeschi, var jafngamall Graeme Thorne þegar hinn síðarnefndi hvarf fyrir utan heimili sitt fyrir rétt tæpum 63 árum.

„Þetta var endalok sakleysis Ástralíu, æska okkar krakkana i Sidney varð aldrei sú sama. Við fengum ekki lengur að leika okkur úti fram á kvöld eða fara i ævintýraferðir út í buskann eins og við höfðum verið vön. Það má segja að frelsi okkar hafi horfið með ráninu. Sumir foreldrar voru það hræddir að börn þeirra máttu ekki fara út fyrir húsagarðinn,“ sagði Tedeschi í viðtali við Sun-Herald.

Graeme Thorne

Endalok sakleysis

„Eins og mörg börn í Sydney var mér mjög brugðið þegar hann hvarf. Við vorum jafngamlir og ég setti upp myndir af Greame á vegginn í herberginu mínu svo ég myndi örugglega þekkja hann ef sæi hann á götu. Þá ætlaði ég að láta foreldra mína vita,“ sagði Tedechi.

Greame var aðeins átta ára gamall og var um að ræða fyrsta mannrán í sögu Ástralíu þar sem lausnargjalds var krafist og skók málið þjóðina. Reyndar breytti ránið á Greame litla hugsunarhætti þjóðarinnar til framtíðar. Þetta var einnig í fyrsta sinn sem réttarvísindi voru notuð í sakamálarannsókn þar í landi.

Vinningurinn örlagaríki

Sorgarsaga Greame byrjaði samt sem áður í gleði fimm vikum fyrir ránið þegar að faðir hans, Bazil Thorne, vann í lottói, sem haldið var til styrktar byggingu óperuhússins í Sidney, þann 1. júní.  Hann vann sem samsvarar 430 milljónum krónum íslenskra á núvirði og sá farandsölumaðurinn Bazil fram á bjarta framtíð fjölskyldunnar. Auk Graeme áttu hjónin tvö önnur börn, elsta barnið var Cheryl, sem var á stofnun fyrir fötluð börn, Graeme var í miðjunni og yngst var Belinda, 3 ára.

Móðir Graeme, Freda,  með litlu systur hans, fagna vinningnum.

Fjölskyldan var skælbrosandi af gleði á forsíðum flestra blaða. Það var í síðasta skipti sem vinningshafi kom opinberlega fram í Ástralíu.

Greinarnar um skyndilegan auð fjölskyldunnar fóru ekki fram hjá Stephen nokkrum Bradley, ungverskum innflytjanda í Ástralíu. Hann vildi koma höndum yfir féð og ákvað að ræna syni Thorne hjónanna og krefjast lausnargjalds.

Stephen Bradley

Bradley fæddist í Búdapest og hét þá Istvan Baranyay. Árið 1950, þá 24 ára, flutti hann til Ástralíu til að forðast kommúnistastjórn heimalands síns og breytti nafni sínu í Stephen Bradley. Hann var þá þegar fráskilin. Tveimur árum síðar giftist hann aftur og eignaðist barn með konu sinni en hún lést í dularfullu bílslysi aðeins þremur árum síðar. Árið 1958 kvæntist hann í þriðja skiptið, nú konu að nafni Magda og var hún fráskilin með tvö börn.

Með eiginkonu og þrjú börn á framfæri þurfti Bradley, sem enga menntun hafði að ráði, að taka að sér alls kyns verkamannastörf og vann oft langa vinnudaga.

En nú sá Bradley færi á að losna undan streðinu.

Stephen Bradley

Bradley hóf að njósna um fjölskylduna til að læra á þeirra daglegu rútínu. Að því kom að hann taldi sig hafa nægar upplýsingar, það eina sem vantaði var símanúmer fjölskyldunnar. Hann þurfti jú að vita hvaða númer skyldi hringja í til að krefjast lausnargjaldsins.

Hann bankaði því upp á og kom Freda, móðir Graeme til dyra. Bradley sagðist vera lögreglumaður og hann þyrfti að staðfesta símanúmer húsa í götunni vegna yfirstandandi rannsóknar.

Fredu fannst þetta frekar undarleg beiðni, sérstaklega þar sem ekki var enn kominn sími á heimilið, en það var búið að úthluta fjölskyldunni númeri og átti að tengja símann á næstu dögum.

Gleymum ekki að þetta var árið 1960 og alls ekki sjálfgefið að sími væri tengdur inn á öll heimili.

Bradley var tilbúinn.

Heimili Thorne fjölskyldunnar

Hrekklaus drengur

Fimmtudaginn 7. júlí, ósköp venjulegan dag, lagði Bradley, sjálfur þriggja barna faðir, bíl sínum rétt við hús Thorne fjölskyldunnar. Hann sá Graeme, klæddan gráa skólabúning sínum með skólahattinn, ganga niður eftir götunni. Hann fór í hornbúðina þar sem Graeme keypti sér daglega lítinn pakka af kartöfluflögum og beið eftir vinkonu móður sinnar, Phyllis Smith, sem venjulega ók honum í skólann.

Bradley lagði í bílastæðið sem Phylis venjulega notaði þegar hún sótti Graeme og sagði honum að Phyllis kæmist ekki í dag og hann hefði verið beðinn um að keyra Graeme í skólann.

Á þessum árum var ekkert sem hét að vara börn við ókunnugum, sú fræðsla hófst ekki fyrr en eftir hvarf Graeme, og steig því hrekklaus drengurinn inn í bílinn.

Bradley ók með drenginn á afvikinn stað, réðst á hann, batt hendur hans og fætur og tróð upp í hann tusku. Því næst vafði hann Graeme litla í teppi og setti í skottið á bílnum. Bláa teppið átti síðar eftir að verða Bradley að falli.

Thorne hjónin gengu í gegnum skelfilega daga og vikur.

Ég hendi honum fyrir hákarlana

Bradley fór heim til sín, lagði bílnum, og gekk því næst að almenningssíma. Hann hringdi heim til foreldra Graeme, sem þá voru komin með síma, og krafðist fjórðungs lottóvinningsins, eða um 108 milljóna íslenskra króna að núvirði í lausnargjald fyrir son þeirra.  Klukkan var nákvæmlega 9:40 og krafðist Bradley að lausnargjaldið yrði greitt fyrir klukkan 17 sama dag.

Ég er ekki að grínast, ef þið borgið ekki hendi ég honum fyrir hákarlana, sagði Bradley. Sú setning varð fræg og sendir enn hroll niður bak Ástrala.

Lögregla á líkfundarstað.

Bradley skellti síðan á og rölti heim og opnaði skottið. Drengurinn var hreyfingarlaus og stífur og Bradley áttaði sig á að hann var látinn.

Hann hafði kafnað.

En það stoppaði ekki Bradley af. Hann hringdi aftur heim til foreldranna og svaraði þá lögregla en Freda hafði umsvifalaust látið lögreglu vita af fyrra símtalinu. Lögreglumenn voru komnir heim til Thorne hjónanna innan fárra mínútna og voru snöggir til aðgerða. Varð það meðal annars til þess að unnt var rekja seinna símtalið frá Bradley.

Í seinna símtalinu sagðist hann vilja peningana setta í tvo pappapoka en áður en hann náði að segja hvert ætti að fara með lausnargjaldið, skellti Bradley af einhverjum ástæðum á.

Viðamesta leit Ástralíu

Við tók viðamesta leit sem þá hafði verið framkvæmd í Ástralíu. Allt tiltækt lögreglulið var kallað út og var Greame leitað bókstaflega út um allt næstu daga. Boðin voru fundarlaun upp á 25 milljónir íslenskra króna fyrir hvern þann er gæti gefið upplýsingar um dvalarstað drengsins og fljótlega tóku tvö dagblöð sig saman og buðu 75 milljónir ofan á það.

Dagarnir eftir ránið voru foreldrum Graeme hreinn hryllingur, sem í þokkabót fór bókstaflega fram í beinni útsendingu í sjónvarpi, útvarpi og blöðum.

Þann 11. júlí fannst hattur Graeme og skólataska en drenginn sjálfan var hvergi að finna.

Faðir Graeme brotnaði saman á fundi með blaðamönnum.

Þó nokkrir illa innrættir einstaklingar hringdu inn og þóttust ýmist vera Graeme eða ræninginn. Vonir þeirra vöknuðu en til þess eins að verða brostnar. Endurtók slíkt sig aftur og aftur en Graeme var hvergi að finna.

Þann 16. ágúst, næstum sex vikum eftir ránið fundu þrír drengir, sem voru við leik á auðu byggingarsvæði, líkið af Graeme, um 1,5 kílómetra frá staðnum sem húfan og taskan fundust. Hann var enn í gráa skólabúningnum og vafinn inn í teppið. Hafði hann verið falinn undir hrúgu af rusli.

Rannsóknir sem öllu breyttu

Sýni sem tekin voru af líkinu og teppinu innihéldu meðal annars smáræði af bleikum kalkstein og steypu, sem benti til þess að líkið hefði verið falið undir húsi. Í teppinu fannst sýni úr kýprusté svo og hundahár af kínverskum smáhundi og eitt sítt mannshár, aflitað ljóst.

Þegar að niðurstöður rannsókna lágu fyrir og var parað saman við frásagnir vitna var lögregla þess fullviss um hverju leita bæri að. Það væri hús með bláan bíl í innkeyrslu, grunn úr blöndu bleiks kalks og steypu, eitt eða tvö kýprustré í garðinum og ætti húseigandinn eiginkonu með aflitað hár og kínverskan smáhund.

Þeim upplýsingum var komið rakleiðis til fjölmiðla og var það póstburðarmaður sem hafði samband við lögreglu og sagðist vita nákvæmlega um hvaða hús væri að ræða.

Ástralska þjóðin var afar slegin.

Lögregla fór strax að heimili Bradley en hann var hvergi að finna, hann hafði flúið land með konu sinni og börnum.

Sýnin af líkinu og teppinu voru borin saman við heimili, garð og hár af hundi Bradley og þar með var lögregla viss. Eiginkonan Magda var einnig með aflitað ljóst hár. Morðinginn var Stephen Bradley. Þegar að Fredu var sýnd mynd af honum, þekkti hún þegar ,,rannsóknarlögreglumanninn” sem hafði bankað upp á til að vita símanúmið.

Handtaka, dómur, dauði

Lögregla var snögg að finna út að Bradley hafði flúið með fjölskyldunni með farþegaskipinu SS Himalaya. Og þegar að skipið lagði í höfn í Ceylon, sem nú heitir Sri Lanka, í oktober 1960 biðu lögreglumenn þeirra á bryggjunni.

Eftir fimm vikna stapp við yfirvöld þar í landi var Bradley loksins framseldur til Ástralíu þar sem réttað var yfir honum fyrir ránið og morðið á Graeme litla. Sönnunargögn voru yfrið næg og var Bradley dæmdur til ævilangrar fangelsisdvalar. Þurfti að einangra hann frá öðrum föngum sem vildu gjarnan hefna fyrir barnsmorðið.

Magda, kona hans, skildi við hann og flutti með börn sin til Evrópu. Stephen Bradley lést úr hjartaáfalli árið 1968, aðeins 42 ára að aldri.

Hann sýndi aldrei vott af iðrun fyrir morðið á litla drengnum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Vissi að eltihrellirinn myndi drepa hana og hann kæmist up með það

Vissi að eltihrellirinn myndi drepa hana og hann kæmist up með það
Fókus
Fyrir 2 dögum

Dramatíski áhrifavalda-ástarþríhyrningurinn – Fyrirsætan afhjúpar hvernig hún greip hann glóðvolgan

Dramatíski áhrifavalda-ástarþríhyrningurinn – Fyrirsætan afhjúpar hvernig hún greip hann glóðvolgan