fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fókus

Fékk stafrænt taugaáfall og byrjaði að mála

Fókus
Föstudaginn 31. mars 2023 18:30

Mynd: Owen Fiene

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Björn Leó Brynjarsson hélt nýverið sína fyrstu myndlistarsýningu þar sem hann seldi hvert einasta verk. Björn Leó hefur lengi starfað í heimi leiklistar en segir myndlistina eiga vel við sig. Góð tilfinningin að sjá verkin fæðast. Birna Dröfn Jónasdóttir tók viðtal við Björn Leó.

Björn Leó Brynjarsson er fæddur í Vesturbænum árið 1985. Hann útskrifaðist af sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslands fyrir tólf árum og hefur síðan unnið við ýmis störf tengd leiklist. Hann skrifaði meðal annars og leikstýrði verkinu Frama og skrifaði verkið Stórskáldið sem sýnt var í Borgarleikhúsinu og fékk góðar viðtökur. Björn Leó kom nýlega sínum nánustu á óvart þegar hann söðlaði um og hóf að mála myndir. Myndirnar sýndi hann nýlega á sinni fyrstu myndlistarsýningu í Núllinu í Bankastræti.

„Ég starfa sem sagt sem handritshöfundur og leikstjóri og er að vinna í nokkrum handritaverkefnum og að fara gera heimildarmynd,“ segir Björn Leó.
„Ég hef alltaf haft gríðarlegan áhuga á myndlist og mörg þeirra leiklistarverkefna sem ég geri hafa verið frekar myndlistarmiðuð. Leikritið Frami fjallaði til dæmis um myndlistarmann sem er að missa vitið. Ætli það hafi ekki verið verk um mig í framtíðinni,“ segir hann og hlær.

Fékk ógeð á tölvunni

„Síðasta haust fékk ég eins konar stafrænt taugaáfall, ég lenti í því að fá algjört ógeð á því að vinna í tölvu allan daginn, vera í blessuðum snjallsímanum og lenti bara á vegg, gat ekki verið meira við lyklaborð og skjái. Mig langaði að gera eitthvað í höndunum,“ segir Björn Leó og bætir við að hann hafi það úr báðum ættum að vera sæmilega laghentur.

„Þá lét ég loksins verða af því að mála myndir. Þannig að þó það sé stutt síðan ég byrjaði að mála þá var aðdragandinn langur og eitthvað sem mig hefur lengi dreymt um að gera,“ segir hann.

Hvatvís með adhd

Björn Leó segist þá einnig vera með adhd og að hann sé gríðarlega hvatvís. „Þannig að áður en ég vissi af var ég búinn að setja svakalegan tíma og metnað í þetta og kominn með þónokkuð af kláruðum verkum. Síðan fékk ég svakalega góða hvatningu frá fólki í kringum mig og öðrum sem hafa verið að stússast í sjónrænum miðlum svo ég lét bara vaða og pantaði Núllið Gallerý og hélt sýningu.“

Þegar Bjössi, eins og hann er oft kallaður, var 23 ára og í leit að námi sem hann langaði í stóð valið á milli leiklistarnáms eða myndlistarnáms. „Leiklistin varð fyrir valinu en hitt var alltaf í undirmeðvitundinni. Áhuginn á öðrum listrænum miðlum hefur alltaf verið mikill og ég er stanslaust að skrifa niður hjá mér hugmyndir, safna að mér myndum sem kveikja í mér,“ segir hann.

Spurður að því hvaðan hann fái innblástur segir Bjössi hann koma úr öllum áttum. „Ég pæli mikið í litum og formum og hef sérstaklega gaman að einhverju sem er býr yfir óræðri sögn. Sýningin sem ég hélt í Núllinu var kölluð “Staðleysur”. Ég er með þráhyggju fyrir öllu sem er svona handanheims-, millibils og órætt, á ensku kallast það „liminal space“, svona það sem liggur á milli þess raunverulega og súrrealíska,“ útskýrir hann.

„Hugmyndin með verkunum á sýningunni var að miðla ákveðinni tilfinningu sem ég upplifi mjög mikið sjálfur, að vera staddur einhvers staðar en finnast það vera óraunverulegt. Ég er alltaf að standa sjálfan mig að því að vera einhvers staðar og glápa út í loftið og finnast það fáránlegt og hálf óraunverulegt. Verkin eru í raun öll útfærsla á þessari upplifun,“ segir hann.

„Á mörgum myndanna eru bláar og gular stikur svipaðar þeim sem eru notaðar við landmælingar sem mér fannst táknrænar í þessu samhengi. Nokkurs konar kortlagning eða mæling á óræðum rýmum. Tilraun til þess að festa punkt í veröld sem er á sífelldri hreyfingu og flæðandi. Þetta eru mjög geómetrískar og arkitektúralegar myndir og það er einnig eitthvað sem ég hugsa mikið um, hvernig manngerð umhverfi virka á okkur.“

Eðlileg og náttúruleg breyting

Hvernig hefur það verið að færa sig úr leiklistinni og meira yfir í myndlist?

„Mér fannst þetta nokkuð eðlileg og náttúruleg breyting. Það sem er erfitt við skrif, leikhús og þess háttar er hversu langur tími líður frá hugmynd að verki. Það geta liðið ár þangað til listamaðurinn sér eitthvað verða að veruleika. Að mála myndir er þægilegra upp á það að hlutirnir raungerast fyrir framan þig, þeir verða til í fysískum heimi í vinnuferlinu,“ segir Bjössi.

Var erfitt að sýna fólki myndirnar til að byrja með?
„Það kom mér á óvart hversu stressaður og lítill í mér ég var rétt fyrir opnun á sýningunni. Þetta var eitthvað alveg nýtt fyrir mér af því að í skrifum og leiklist veit ég alveg hver ég er og hef búið mér til sjálfstraust og ákveðið egó. Ég vissi ekkert hvernig þetta myndi fara,“ segir hann.

„Síðan var gríðarlegu fargi af mér létt þegar fólk mætti og ég sá viðbrögðin. Ég var svo stressaður um að ég væri alveg í tómu rugli og fólk myndi segja: hvað í andskotanum vill þessi leiklistarpési upp á dekk,“ bætir hann við og glottir.

„Mér fannst það svakalega skrítin tilfinning þegar sýningin kláraðist og hver einasta mynd var farinn. Ég hugsaði: Jæja ætli ég geri þetta ekki aftur. Mér finnst það virkilega hvetjandi og yndislegt alveg hreint að vita til þess að öll vinnan sem ég lagði í þetta hangi núna heima hjá fólki sem kann að meta það. Ég er mjög meyr yfir því og þakklátur,“ segir Bjössi.

Sérðu fyrir þér að myndlist verði þitt megin listform?

„Ég er að skrifa á fullu í nokkrum verkefnum sem ganga vel, þróa handrit að heimildarmynd og fleira. Það gengur mjög vel að tefla þessu tvennu saman, skrifunum og að mála. Ég losnaði við þetta stafræna taugaáfall og þetta er bara að virka svakalega vel saman. Að vinna sjónrænt og í höndunum og síðan skrifa út hugmyndir og allt það. Mér finnst þetta tvennt tala svakalega vel saman. Mæli eindregið með þessu,“ segir Björn Leó að lokum.

Höfundur: Birna Dröfn Jónasdóttir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður
Fókus
Í gær

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta