„Það þarf að finna leiðir fyrir okkur öll, atvinnulífið og benda atvinnurekendum á leiðir þannig að hægt sé að styðja við starfsfólk sem þarf og vill tileinka sér íslensku,“ segir Andrea Róbertsdóttir framkvæmdastjóri FKA. „Tungumálið er valdatæki og lykil að samfélaginu og okkur finnst mikilvægt að ræða leiðir sem eru í boði til að þjónusta atvinnulífið með lausnum og verkfærum og fögnum því samstarfi og samvinnu við Bara tala sem er stafrænn íslenskukennari sem byggir á gervigreind og íslenskri máltækni,“ segir Grace Achieng stofnandi og framkvæmdastjóri Gracelandic sem er stjórnarkona FKA.
FKA, Félag kvenna í atvinnulífinu og Bara tala stóðu fyrir málþingi í Eddu, í tilefni viku íslenskunnar, þar var fjallað um mikilvægi íslenskunnar fyrir okkur öll og hvernig tungumálið er í raun valdatæki og lykillinn að samfélaginu, eins og segir í fréttatilkynningu. Vel var mætt á málþingið, meðal annars aðilar frá tungumálaskólanum Mími, Háskóla Íslands, starfsfólk Árnastofnunar, vestfirska átakinu Gefum íslensku séns, Félagi kvenna í atvinnulífinu, nýsköpunarfyrirtækinu Bara tala og áhugasamt fólk um framtíð íslenskunnar.
Eftir málþingið skrifaði FKA og Bara tala undir samstarfssamning sem felst í því að þróa stafræn íslenskukennslunámskeið inn í Bara tala smáforritinu sem miða að því að ýta undir jafnrétti og að efla konur og kvár af erlendum uppruna á íslenskum vinnumarkaði.