fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fókus

Hún var aðeins fimmtán ára – Mary þáði far hjá manni sem hjó af henni hendurnar, nauðgaði og henti fram af kletti

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Laugardaginn 18. mars 2023 22:56

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið 1978 var Mary Vincent, 15 ára stúlka frá Las Vegas, illa haldin af unglingaveiki og í uppreisn gegn foreldrum sínum. Hún ákvað því að hlaupa að heiman með kærastanum en sá lenti fljótlega í steininum og skildust með þeim leiðir. 

Mary var þá stödd í Kaliforníu og vildi heimsækja afa sinn sem bjó í 650 kílómetra fjarlægð. Hún átti enga peninga og ákvað því að húkka far, sem var afar vinsæll ferðamáti á þessum árum. 

Mary hafði oft húkkað far áður, enda ung og falleg, og aldrei lent í vandræðum en nú var annað uppi á teningnum

Mary í réttarsalnum.

Ásamt nokkrum öðrum puttalingum komu þau sér fyrir við gatnamót og biðu þolinmóð með puttann á lofti. 

Fljótlega bar að bláan sendibíl, ökumaðurinn var miðaldra karlmaður sem horfði yfir hópinn og benti á Mary. Hún mætti fá far, hann væri á leið til Los Angeles.

Mary var himinlifandi enda aðeins 60 kílómetrar þaðan og heim til afa hennar. 

Vöruðu Mary við án árangurs

En hinum puttalingunum leist ekki á boðið og bentu Mary á að það væri yfrið pláss í bílnum fyrir þau öll.

Það væri eitthvað óhugnanlegt við að Mary væri sú eina sem fengi far og báðu hana um að þiggja ekki boðið. 

En Mary var þreytt, heit sólin var að baka hana og hún sá sárlega eftir flóttanum að heiman. 

Ökumaðurinn virtist ágætisnáungi þótt hann segði ekki mikið og fljótlega sofnaði Mary. 

Þegar hún vaknaði áttaði hún sig á strax á með lestri á skilti, að þau voru að fara í ranga átt og benti bílstjóranum á það. Hann sagði að um mistök væru að ræða af hans hálfu og hann þyrfti bara að pissa, síðan myndi hann snúa við. 

Hann ók út í kant og gekk út fyrir veginn. Allt í einu kom mikil ónotatilfinning yfir Mary og hún ákvað að flýja á meðan að maðurinn kláraði. 

En þegar hún var að stíga út úr bílnum tók hún eftir að skóreimar hennar voru lausar og þegar hún beygði sig til að hnýta þær kom maðurinn allt í einu upp að henni og barði í með hamri í höfuðið. Aftur og aftur.

Því næst dró hann alblóðuga og hálfmeðvitundarlausa Mary aftur í sendiferðabílinn og nauðgaði henni alla nóttina. 

Hér er frelsið!

Um morgunin hafði Mary náð meiri rænu og grátbað manninn um að sleppa sér, hún færi ekki til lögreglu. Hann spurði hana hvort hún væri viss um að vilja frelsið? Alveg viss?

Mary svaraði því játandi. 

Tók maðurinn þá upp sveðju og sagði að nú kæmi að frelsinu.

Hjó hann síðan af henni báða handleggi, bar hana út úr bílnum og að klettabrún sem hann henti henni fram af með orðunum að nú gæti hún gert það sem hún vildi. 

Lawrence Singleton

Handalaus og stórslösuð Mary lifði af hið tíu metra fall. Hún vissi að hún ætti ekki langt eftir, henni væri að blæða út, og greip hún til þess ráðs að nudda stubbunum sem eftir voru af handleggjum hennar upp úr leðju. 

Þetta snilldarráð varð henni til lífs því blóðflæðið stöðvaðist. 

Hún hóf síðan að klifra upp gilið, notaði stubbana til stuðnings, og tókst það á endanum. 

Þegar upp var komið setti hún stubbana upp í loft og gekk þannig, nakin og alblóðug þar til hún náði að veginum þar sem eldri hjónum brá illa við að finna hana.

Þau vöfðu hana í teppi, komu henni varlega fyrir í aftursætinu og óku beint á sjúkrahús. 

Erfið endurhæfing

Mary gekk í gegnum nokkrar aðgerðir á næstu mánuðum þar til talið var að hún væri tilbúin að fá gervihendur. Tóku þá við langir og erfiðir mánuðir í endurhæfingu. 

Maðurinn hafði aldrei sagt Mary hvað hann hét en hún mundi hvert smáatriði við útlit hans og gat því gefið teiknara lögreglu góða lýsingu.

Teikningunni var dreift og kölluðu fjölmiðlar manninn Brjálaða saxarann. 

Teikningin var það góð að það liðu aðeins nokkrir dagar þar til að fimmtugur maður að nafni Lawrence Singleton var handtekinn. Hafði hann starfað á kaupskipum en var kominn á eftirlaun. 

Mary þekkti árásarmann sinn strax en Singleton neitaði öllu og sagðist aldrei hafa séð Mary áður. 

En saksóknari þurfti ekki fleiri sannana við og var Singleton ákærður fyrir mannrán, nauðganir, aðra kynferðislega misnotkun, líkamsárásir og tilraun til morðs. 

Mun klára verkið

Málið fór fyrir dóm í mars 1979. Mary var aðeins 16 ára þegar hún steig upp í vitnastúkuna, fyrir framan þéttpakkaðann réttarsal, og sagði sína hryllilegu sögu.

Singleton starði á hana allan tímann. 

Þegar hún var beðinn um að benda á árásarmann sinn, lyfti Mary upp gervihendinni og benti henni þögul að Singleton.

Það mátti heyra saumnál falla. 

Þegar að hún gekk úr vitnastúkunni og framhjá Singleton hrækti hann lágt út úr sér að hann myndi klára verkið þótt það væri það síðasta sem hann gerði. 

Það var aldrei spurning um niðurstöðu kviðdóms og var Singlton fundinn sekur um allar ákærurnar. Lagaramminn hefur mikið breyst frá því sem þá var og þar sem Mary var á lífi gat dómari ekki dæmt Singleton í lengra fangelsi en til 14 ára en tók fram að persónuleg teldi hann Singleton aldrei mega ganga frjálsan um. Því miður gæti hann þó ekki séð til þess. 

Mary fór í einkamál gegn Singleton og voru dæmdar 2,6 milljónir dollara sem hún sá aldrei krónu af. 

Singleton fær frelsið

Þótt ótrúlegt megi virðast var Singleton sleppt lausum eftir aðeins átta ára fangelsisvist. 

Mary var í sjokki, svo og saksóknaraembættið sem barðist gegn lausninni og sagði útilokað annað en að Lawrence Singleton myndi fremja af sér fleiri ódæðisverk. 

Og svo reyndist vera raunin. En í það skiptið lifði fórnarlambið ekki af. 

Eftir að hafa afplánað ár af reynslulausn var Singleton frjáls ferða sinna. Það hafði reynst yfirvöldum martröð að koma honum fyrir þar sem ekkert áfangaheimili vildi taka við honum. Það tókst þó að hýsa hann á endanum en eftir árið var honum bent á að hann væri ekki velkominn í Kaliforníu. Vægast sagt. 

Hélt Singleton til Flórída þar sem hann kom sér fyrir í hjólhýsagarði. Hann var reglulega handtekinn fyrir búðarhnupl og fékk tveggja ára dóm. 

Roxanne

Árið 1997 var málari nokkur sem var að mála blokkina sem Singleton bjó þá í heyrði skelfingaröskur konu koma frá einni íbúðinni og kallaði á lögreglu. Inni í íbúð Singleton lá alblóðug kona, hin 31 árs þriggja barna móðir, Roxanne Lea Hayes. 

Hún lést á leiðinni á sjúkrahús. 

Singleton,bar fyrir sig sjálfsvörn. Roxanne var vændiskona og hafði hún fallist á að framkvæma kynlíf með honum gegn 20 dollara greiðslu. 

Sagði hann Roxanne hafa reynt að ræna hann og tekið upp hníf. Hafi brotist út slagsmál, hann náð af henni, hnífnum og myrt. 

Enginn trúði sögunni og var Singleton dæmdur til dauða. Meðal þeirra sem vitnuðu gegn Singleton var Mary Vincent. 

Mary í dag.

Singleton lögin

Almenningur var brjálaður yfir að maður sem hafði framið glæpi á borð við þá sem Singleton framdi gegn Mary, hefði fengið reynslulausn og framið morð. 

Í kjölfarið var lögum breytt og hin svokölluðu Singleton lög samþykkt en þau tryggja að fremji einstaklingur hryllilegan glæp sem þó valdi ekki dauða sé lágmarksrefsing 20 ár.  

Mary er gift og tveggja barna móðir. Hún kenndi sjálfri sér að nota gervihendurnar til að mála og eru verk hennar eftirsótt. 

A victim, a survivor, an artist
Mary er hæfileikaríkur listamaður.

Hún berst einnig fyrir réttindum fórnarlamba ofbeldis en forðast að mestu kastljós fjölmiðlanna og veitir til að mynda aldrei viðtöl um sjálfa árásina. Við dauða Singleton lét Mary þó hafa eftir sér að enginn jafni sig algjörlega af slíku en hún hafi verið fegin dauða árásarmanns síns.

Hún gleymdi nefnilega aldrei hvað hann sagði í réttarsalnum en gat nú andað léttara. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Snýst ekki um að taka sviðsljósið frá körlum heldur beina því einnig að konum – „Þetta er mjög karllægur bransi og hefur alltaf verið“

Snýst ekki um að taka sviðsljósið frá körlum heldur beina því einnig að konum – „Þetta er mjög karllægur bransi og hefur alltaf verið“
Pressan
Fyrir 2 dögum

47 ár frá upphafi tveggja tímamótageimferða

47 ár frá upphafi tveggja tímamótageimferða
Fókus
Fyrir 3 dögum

Katrín Myrra keypti miða aðra leið út til Taílands og það breytti lífi hennar

Katrín Myrra keypti miða aðra leið út til Taílands og það breytti lífi hennar
Fókus
Fyrir 4 dögum

Simmi Vill um árshátíðardrama Landsvirkjunar – Segir að önnur stórfyrirtæki megi frekar skammast sín

Simmi Vill um árshátíðardrama Landsvirkjunar – Segir að önnur stórfyrirtæki megi frekar skammast sín
Fókus
Fyrir 5 dögum

Guðbjörgu var útskúfað fyrir að tala um 47 ára aldursmun föður síns og barnsmóður hans – „Ætla ekki að þegja og taka þátt í þessum leik“

Guðbjörgu var útskúfað fyrir að tala um 47 ára aldursmun föður síns og barnsmóður hans – „Ætla ekki að þegja og taka þátt í þessum leik“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Er fyrsta vara lífsstílsmerkis Markle algjört flopp? – Sultukrukkan skilar sér ekki á samfélagsmiðla

Er fyrsta vara lífsstílsmerkis Markle algjört flopp? – Sultukrukkan skilar sér ekki á samfélagsmiðla